Sunday, November 10, 2013

Fréttabréf með stóru F-i

Nú er löngu komin tími á stöðufærslu og fréttir frá Afríku. Tíminn hefur liðið á ógnarhraða síðan við komum hingað sem er í undarlegri mótsögn við almenn rólegheit og tímaleysi heimamanna. Við erum loksins flutt inn í húsið okkar sem stendur við nafnlausa götu í hverfi 43 og er númer 289. Það þekkist best sem húsið í beygjunni með hvítu veggjunum og svarta hliðinu. Það verður að viðurkennast að mér hálf féllust hendur fyrst þegar við komum inn í húsið sem var óheyrilega skítugt og illa frágengið. brotnar klósettsetur, málningarslettur á gólfum, biluð blöndunartæki, myglaður eldhússkápur, gamlar matarleifar upp um allt.... Þessi mikilvæga og notalega "heima-tilfinning" virtist í órafjarlægð og jafnvel ómöguleg með öllu þennan fyrst dag. Eftir hugreystandi spjall við vini og fjölskyldu vorum við samt sem áður staðráðin í að gera þetta hús að heimilinu okkar og líta á björtu hliðarnar. Fyrsta daginn þreif ég svenherbergið hátt og lágt til þess að geta að minnsta kosti sofið án gæsahúðar. Dagarnir þar á eftir fóru í þrif og tiltekt og smátt og smátt hafa herbergin tekið á sig vistlegri blæ. Skortur á húsgögnum er enn verulegur en fer þó minnkandi. Við náðum að kaupa sófasett af einni samstarfskonu minni sem er að færa sig um set. Af henni keyptum við líka draumarúmið okkar. Hjónarúm með fjórum stólpum og moskítóneti sem límist ekki við andlitið á manni. Húsgögnin týnast inn og húsið hefur tekið töluverðum breytingum til batnaðar við það að vera málað að utan. Það er hins vegar ekki alveg gefið að treysta á iðnaðarmenn og eins gott að Lalli hefur tíma til að fylgjast með og taka út þær framkvæmdir sem eiga að fara fram hér á húsinu. Við höfðum til að mynda samið um að húsið væri málað hvítt (í sama lit og er núna en hann er orðinn ansi hreint lúinn og grár). Daginn sem málararnir komu og hófust handa tók Lalli eftir því að þeir voru með allt annan lit í dollunum, einhvern beis-brúnan sem var vafalaust ódýrasti liturinn í búðinni. Lalli gat sem betur fer stoppað þá af áður en húsið varð beisbrúnt. "Oh but boss but this is the original color of the house".... Hmmm já já en hvítt skal það vera! 

Nú förum við í reglulegar eftirlitsferðir og höldum fram sérfræðikunnáttu okkar í krafti þess að vera smiðsbörn, systkini og tengdabörn. Við vorum til dæmis ekki hér til að fara yfir málningarvinnuna sem unnin var innandyra - sem varð til þess að það eru vænar málningaslettur á öllum gólfum, gluggalistum, loftinu og víðar. Litirnir eru líka ansi vafasamir og á flestum stöðum hefur ekki verið splæst í meira en eina umferð. Ég er búin að vera með málningu á heilanum síðan við fluttum hingað og mér varð ljóst að glansmálning er vestrænn lúxus sem finnst ekki í Malaví. Málningin er því öll mött sem gerir það að verkum að það er nánast ógjörningur að þrífa veggina með öðru en þurri tusku. Blaut tuska á mattan vegg gerir yfirleitt bara illt verra.   

Við höfum komið okkur upp ansi góðri daglegri rútínu sem felst í því að vakna rétt fyrir sex, græja Heru Fönn í leikskólann og mig í vinnuna. Við leggjum af stað um sjö leytið og keyrum mig fyrst á UNICEF skrifstofuna og síðan Heru Fönn á Rainbow. Lalli fer og stússast (græja og gera fyrir heimilið í bland við tennis, golf og göngutúra) og sækir svo Heru aftur rétt fyrir hádegi. Þau eru komin í nokkrar grúbbur þar sem bæðið foreldrar og pössunarpíur koma með börn í allskonar föndur, músík og leikjaafþreygingu. Foreldrar skiptast á að undirbúa og halda svona uppákomur. Mjög gott fyrirkomulag því þetta eru flest allt foreldrar úr hverfinu okkar sem skipuleggja og því stutt að fara og gaman fyrir Heru Fönn að fá smá auka leiktíma með krökkunum úr hverfinu.

Ein af verulega bjartari hliðum þess að hafa ákveðið að taka þetta hús er sannarlega staðsetningin. Við höfum hægt og rólega uppgötvað að talsvert af börnum sem Hera Fönn er með á deild í leikskólanum búa hér í götunni eða í næstu götum. Það er auðvitað ekki svo gott að börnin geti hlaupið sjálf hér á milli húsa - öryggisins vegna en það er engu að síður stutt að fara og í dagsbirtu getum við rölt saman og heimsótt litla vini og vinkonur. Það eru ekki bara vinir hennar Heru Fannar sem eru hér í göngufjarlægð heldur líka mjög gott og skemmtilegt fólk sem við höfum verið að kynnast á undanförnum tveimur mánuðum. Við eyddum kvöldstund með fjórum pörum (frá Noregi, Malaví, Hollandi og Danmörku) í gær sem öll eiga heima hér í kringum okkur og eru hressandi félagsskapur.

Ég hef verið á faraldsfæti í tengslum við vinnuna mína bæði innanlands og utan. Við ferðuðumst síðast til Blantyre í liðinni viku þar sem við héldum árlegan fund fyrir alla samstarfsaðilana okkar. Fórum yfir síðasta ár og skipulögðum næsta ár. Ég var með erindi um mikilvægi þess að gera reglulegt mat á því sem við erum að vinna að. Mikilvægi upplýsingabanka, rannsókna og greiningar til þess að geta sýnt með sannfærandi hætti fram á að við séum að ná árangri (eða ekki). Stór hluti stöðunnar minnar á skrifstofunni felst í því að halda utan um rannsóknir, passa upp á "monitoring og evaluation" ramma í hverju verkefni fyrir sig og gefa góð ráð til þess að öllum nauðysnlegum upplýsingum um árangur og stöðu verkefna sé haldið til haga. 

Blantyre er mun nærri því að vera BORG í hefðbundinni merkingu þessa orð. Þéttleiki og háhýsi, samliggjandi verslanir, barir og veitingastaðir setja nútímalegan blæ á borgina. Í Blantyre fann ég líka það sem ég hélt að fyrirfyndist ekki í Malaví - glansmálningu. Ekki í málningabúð heldur á veggjum klósetts á einum besta veitingastað sem ég hef farið á á ævi minni. Ég sat grínlaust á klósettinu og strauk veggina með hrifningarandvarpi. Lilongwe virðist ekki byggjast upp í sama anda og Blantyre. Hér eru vissulega háar byggingar en þær rísa með margra kílómetra millibili og eru umkringdar háum girðingum svo það vottar sárasjaldan fyrir lífi eða fólki á svæðinu. Gamli bærinn er reyndar alveg fullkomlega stappaður af fólki en hann er ekki sérlega aðlaðandi fyrir gangandi vegfarendur sem vilja eiga notalega stund án þess að þurfa að banda póstkorta-, ávaxta- og grænmetissölufólki frá sér í gríð og erg. En Lilongwe er að byggjast upp og kannski þéttist hún með árunum. Hún hefur  líka upp á þó nokkrar yndislegar perlur að bjóða og við erum hægt og rólega að finna "okkar" staði í borginni. Kaffihús með góðum cappochino. Veitingastað með frábærum indverskum mat. Sundlaug og grill sem er huggulegt að fara í á sunnudögum og svo framvegis. Í hvert skipti sem við finnum nýja staði sem eru litlar perlur í borginni líður okkur aðeins meira eins og "heima" og verðum aðeins öruggari fyrir vikið.

Þegar við fluttum inn í húsið okkar ættleiddum við kisu - kisan fékk ekki nafn til að byrja með en á endanum spurðum við fyrri eiganda hvaða nafn kisan hefði. Kisan hét Clover sem útleggst sem Smári á íslensku. Við höfum því kallað kisuna Smára, Clover eða bara hreinlega kisu. Við fundum hins vegar út í dag að kisan er stelpa... en það er nú algjört aukaatriði. Lárus, sem er ekki mikill kattamaður, sættir sig ágætlega við kisuna en er þó ekkert sérlega hrifin af henni. Kisa er hins vegar mjög hrifin af Lárusi og gerir í því að reyna að vingast við hann. Fyrsta daginn tók Lalli upp á því að henda kisu út með tilþrifum þegar hún var að þvælast upp á borði. Ég hóstaði aðeins yfir meðferðinni á kettinum og minnti Lalla á að hann væri fyrirmynd litlu dömunnar sem fylgdist grannt með. Lalli fussaði eitthvað aðeins yfir því þangað til daginn eftir þegar hann kom að Heru Fönn þar sem hún var búin að rogast með kisu í fanginu inn ganginn fram að eldhúsdyrum og grýtir henni svo út með skömmum..... (já það læra nefnilega börnin sem fyrir þeim er haft...). 

Hera Fönn, sem hefur verið óskaplega dugleg að aðlagast nýju umhverfi, langoftast með bros og þolinmæði að vopni, hefur þó átt aðeins erfitt með að vera góð við kisu. Hún virðist taka það út á kisu að hvergi í daglega lífinu er hún við stjórnvölin, enda tæplega sem hún skilur aðra eða er skilin. Aumingja kisa má forða sér þegar Hera Fönn skipar henni fyrir, togar í rófuna hennar, ýtir henni fram og til baka og stjórnast með hana. Kötturinn er hins vegar ekki ennþá strokin að heima og er ótrúlega þolinmóð við Heru Fönn. Á meðan höldum við áfram að reyna að gera litlu skessu grein fyrir því að kisa vill ekki láta baða sig í dúkkubaði, borða við dúkkuborð eða sofa í vagni. 

Hið daglega 6-9 rafmagsleysi hrjáir okkur akkúrat í þessum skrifuðum orðum þar sem við erum ekki enn búin að koma generatornum (auka rafmagnsstöð sem keyrir hluta af húsinu upp þegar rafmagnið fer) í fullt gagn. Við erum ekki alveg komin í flæði við þetta stöðuga rafmagsleysi og erum ennþá alveg gapandi hissa í hvert skiptið sem rafmagnið fer. Við lærum þetta vonandi fljótlega og verðum ekki með pizzuna og fröllurnar hálf hitaðar um hálf sjö leytið þegar allt dettur út. Ég er aðeins öfundsjúk út í vinafólk okkar í næsta húsi sem vinnur fyrir norska sendiráðið - þau eru án efa með stærsta og háværasta generatorinn í hverfinu því  ég vakna á nóttinni ef að hann fer í gang og svalahurðirnar mínar hristast eins og um undanfara að jarðskjálfta væri að ræða. Rafmagnsleysið er þó kannski einna verst upp á viftuleysi að gera. Þegar hitinn er orðinn að jafnaði 40 gráður alla daga er viftuleysi mun alvarlegra en ljósleysi. Við vorum með plön um að fá okkur loftkælingu í húsið en það er ansi kostnaðarsamt og heilmikið fyrirtæki að setja hana upp svo við höfum sætt okkur við loftvifturnar sem eru til staðar bæði í stofunni og í svefnherberginu. Þær eru líka ansi góðar og við höfum ekki verið í miklum vandræðum fram að þessu. Vonandi komumst við yfir heitasta tímabilið sem stendur yfir núna og fram í miðjan desember. Um leið og rigningarnar hefjast lækkar hitinn og loftslagið allt breytist. Við erum reyndar mjög spennt yfir rigningunni enda mun allt hér umhorfs breytast verulega, gras og plöntur vaxa af krafti og borgin breyta um svip. Rigningartímabilið hér er ekki einn samfelldur skúr heldur rignir frekar seinnipartinn og á nóttunni, loftið hreinsast og hitastigið er bærilegra... það verður yndislegt tilbreyting.  

Nú ætlum við fjölskyldan að fara að gæða okkur á hálfheitu pizunni og skipuleggja vikuna sem framundan er. Góðar stundir, ást og friður frá Malaví. 

8 comments:

Anonymous said...

Gaman elskurnar að lesa fréttir af ykkur og við erum farin að telja dagana þar til við komum. Elskum ykkur mamma og pabbi

Anonymous said...

Alltaf jafn gaman að geta fylgst með ykkur og ég sé Heru Fönn alveg í anda að stjórna litlu kisu greyinu ;) Maður sér vel allan þann munað sem við búum við hér á íslandi og það sem telst vandamál á okkar mælikvarða myndi nú vart teljast til tíðinda í Malaví...
Hafið það ofsa gott og við hlökkum til að lesa meira og sjá myndir.
Kys og kram, Hugrún, Kalli og Baltasar

Anonymous said...

Ísak Ægir varð svo spenntur þegar ég sagðist vera að lesa fréttir af Heru Fönn í Afríku: "Á hún heima í dýragarðinum?" Nei... en hún á kisu sagði ég. "Má ég sjá hana? Kannski bara á morgun? ". Ísak Ægir öfundar vinkonu sína af að búa nálægt uppáhaldsdýrunum sínum... og kisu sem jafnast alveg á við ljónin greinilega :)

Hvílík ævintýri hjá ykkur - yndislegt að fá að fylgjast með. Knús yfir hálfan hnöttinn! Kv. Bjarney.

Anonymous said...

Þvílíka snilldin að fá að fylgjast svona með ykkur.
Bíð spennt eftir næsta pistli.

Bestu kveðjur og gangi ykkur allt í haginn ;)
Kv. Oddný Kristins.

Anonymous said...

En skemmtileg lesning! Gott að heimilið er að taka á sig mynd, glansmálning eður ei :) Eitt sérstakt knús á Heru Fönn dugnaðarfork! Mikið sem lífið er breytt hjá henni og ævintýrin á hverju horni. Love, Védís & Co

Telma said...

Yndislegt að lesa um ævintýrin ykkar.... :) knús til ykkar allra :)

Anonymous said...

Smá kveðja fyrir innlitinu og lestrinum. Gaman að fylgjast með ævintýrunum í Afríku. Kv Kittý.

Unknown said...

Knús á ykkur :*