Hér í Malaví gengur lífið sinn vanagang ef hæt er að tala um slíkt. Viðgerðir og framkvæmdir í húsinu hafa nú staðið yfir í rúmar tvær vikur og við erum í raun og veru ansi hissa á hversu vel gengur. Hér hefur allt verið málað að utan eins og við minntumst á um daginn - í fallega hvítu þökk sé eftirtekt og eftirfylgni Lárusar. Síðan þá hefur einnig verið skipt um nokkrar brotnar flísar í eldhúsinu og lúin moskítónet fyrir hurðunum, þakrennur og skyggni hafa verið máluð og skipt um spegla á baðherberjum. Kósýheitin aukast með hverjum deginum þó svo að hlutirnir gerist ansi hægt og rólega. Við fengum til dæmis rafvirkja til að koma og græja títt nefndan "generator" á þann hátt að ég gæti kveikt á honum inni þegar rafmagnsleysið gerir vart við sig. Hann tók um það bil viku í að vinna verkið - og þurfti á þeim tíma að fá nokkrum sinnum frí til þess að vera viðstaddur ýmsa fjölskyldu- og menningarviðburði. Rafvirkinn lauk síðan vinnunni sinni í gær - nema hvað að Lárus tók þá eftir því að allt virkaði í húsinu í dag nema eldavélin og lýsingin hjá vörðunum okkar. Rafvirkinn kom þá aftur við hjá okkur og gerði við það sem hafði vantað upp á. Nema hvað að þegar maður fær iðnaðarmenn heim til sín þá þarf að leggja út fyrir bensíni (sem fer hríðhækkandi). Um kvöldmatarleytið kom í ljós að nú þegar eldavélin virkaði þá voru öll ljós úti. Þá var aftur kallað í rafvirkjann sem Lárus segir að líti út eins og góð blanda af Don King og Bill Cosby (?). Hann kom með liðsauka með sér og fékk loksins allt til að virka - og fékk auðvitað auka bensínpening að launum.
Nú njótum við fjölskyldustundar með rafmagn á öllum tækjum og horfum öll þrjú saman á Lion King II - á ensku til að æfa litlu prinsessuna á heimilinu.
See you later and good night...
No comments:
Post a Comment