Hér í hverfi 43 í húsi númer 289 eru fullkomin rólegheit á laugardagskvöldi sem þessu kærkomin. Við hjónin erum ennþá að jafna okkur eftir að hafa skemmt okkur langt fram á nótt í gærkvöldi. Norska sendiráðið bauð norðurlandabúum í afar huggulegt jólaboð. Við borðuðum yfir okkur af purursteik og piparkökum í frábærum félagsskap fólks frá öllum norðurlöndunum sem á það sameiginlegt að vera búsett og vinnandi hér í Lilongwe. Eitt af því sem aðgreinir norðurlandabúanna hér í Malaví frá öðrum er fjöldi karlkynsmaka sem fylgt hafa eiginkonum sínum yfir hnöttinn og eru það sem mætti kalla "househusbands". Yfirgnæfandi meirihluti heimavinnandi húsfeðra hér í Malaví eru semsagt skandinavískir að uppruna. Þessir eðalmenn hafa stofnað með sér félag (sem Lárus var innvinklaður í á fyrsta degi) sem þeir kalla "STuDs". Nafnið á félaginu vísar til þess mikla álags sem makar útivinnandi kvenna þurfa að þola og stendur fyrir Spouses Travelling under Durance. Skemmtiatriði kvöldsins snéru flest að því að lýsa streitumiklu, flóknu og erfiðu lífi makanna sem felst aðallega í því að skutla konum og börnum í vinnu og skóla, hittast í cappochino á besta kaffihúsi bæjarins, finna út hvar besti osturinn er seldur þann daginn, spila golf, fara í ræktina, drekka bjór.... þið getið ímyndað ykkur.
Við skemmtum okkur konunglega í boðinu og vorum ekki komin hingað heim fyrr en undir morgun. Hera Fönn átti einnig mjög gott kvöld enda í ekki síðri félagsskap en foreldrarnir. Nýjastu meðlimirnir í íslendingahópnum hér í Malaví eru yndisleg fjölskylda sem við höfum fengið að kynnast á undanförnum vikum. Fjölskyldan öll kom í eitt allsherjar sleep over hingað til okkar í gærkvöldi sem gladdi Heru Fönn óskaplega. Nýir vinir, gleði og gaman langt fram á kvöld.
Nú erum við hins vegar þreyttari en orð fá lýst enda kemur sólin alltaf upp klukkan 5 með tilheyrandi fuglasöng og lífi. Heimasætan vaknaði um það bil klukkutíma seinna eins og venjulega og bað mömmu sína vinsamlegast um að koma fram og græja kornflex og mangó í morgunmat - sem ég og gerði. Það er þess vegna ósköp heillandi að fara upp í ból fyrir miðnætti í kvöld og sofa jafnvel til 7 ef að heppnin er með mér!
1 comment:
VEI skandinavískum húsböndum!!!!! Þegar ég var að vinna hjá IB, þá tók ég eftir því að af öllum kláru kennurunum sem þar vinna og hafa kennt um allan heim, voru það bara mennirnir sem áttu fjölskyldur, það var aðeins ein kona sem hafði ferðast og kennt sem átti mann og börn!! Allar hinar konurnar voru einhleypar. Ég vona að skandinavísku Studs-arnir séu að riðja brautina!
Knús á ykkur, ég elska að lesa færslurnar hérna og skal vera duglegri að kommenta.
Post a Comment