Vikan sem nú gengur í garð verður að öllum líkindum síðasta vikan okkar hér á landi. Við höfum nú lokið við að pakka niður í tvo "tröllakassa" sem munu fylgja okkur út. Í þá fékk að fara ýmislegt dót sem okkur hefur verið tjáð að sé erfitt að verða sér úti um úti í Malaví. Meðal annars bækur, barnadót, sjónvarpstæki, föt og annað smálegt. Við tökum einnig þetta helsta sem þarf til að reka heimili - enda óþarfi að byrja á því að versla allt upp á nýtt. Það er ekki endilega mikið um lúxusvörur á borð við raftæki ýmiskonar, leikföng, búsháhöld osfrv. og það sem er til er að jafnaði mjög dýrt.
Við vitum ekki ennþá hvernig húsakosturinn okkar verður - en vitum þó að við munum fá góða aðstoð frá starfsfólki UNICEF til þess að skoða og velja okkur hús eða íbúð. Þeir Íslendingar sem búa nú í Lilongwe hafa verið okkur einstaklega hjálplegir líka í sambandi við ýmsar upplýsingar, undirbúning og góð ráð. Við fáum meira að segja að gista fyrstu næturnar (óráðið hversu margar) hjá íslenskri konu sem vinnur fyrir World Food Program. Það er sérlega góð tilfinning að vita af fólki sem þekkir hvern krók og kima af borginni og er tilbúið að vera okkur innan handar.
Nú bíðum við eftir því að fá svokallað "security clearance" frá UNICEF og þá hoppum við upp í flugvél og hefjum ferðalagið mikla.
No comments:
Post a Comment