Tuesday, October 06, 2009

*pása*

Eftir að hafa skrifað langt kvörtunarblogg um vöntun á hausti hér í suðrinu þá fékk ég auðvitað að kenna á því sem venjulega kemur með haustinu - kvef eða Gripe eins og það kallast hér. Ég er með stíflað nef og hálsbólgu sem er í engu samræmi við hitann og huggulegheitin úti. Það er ekki alveg í takt að sjúga upp í nefið og hósta í stuttbuxum og hlýrabol. Þegar maður er með kvef á maður að "passa sig á að verða ekki kalt". Hahahaha það var þá! En ég fékk hins vegar frekar formlega kvörtun á facebook í dag um að ég talaði alltof mikið um veðrið og gráðufjölda í því samhengi. Ég hef því sagt skilið við þessa umræðu og héðan í frá verður hvorki bloggað né statusað um veðrið.

...ég hætti örugglega að blogga þá?



Annars erum við ennþá södd og sæl eftir yndislegu San Sebastian ferðina okkar sem var farin síðasta laugardag. Veðrið lék við.... nei djók!! Borgin er einstaklega aðlaðandi og hefur upp á ótal margt að bjóða. Við eigum vafalaust eftir að fara þangað aftur og eyða lengri tíma. Borgin er ólík Bilbao að því að leyti að hún er yfirfull af ferðamönnum enda laðar hún að sér fólk frá öllum heimhornum. Við Lárus höfum hins vegar komist að því að ferðamenn og túristar eru ekki sama fólkið og það eru engir túristar í San Sebastian. Ferðamenn eru fólk sem ferðast til að komast í snertingu við eitthvað einstakt, satt og upprunalegt. Túristar eru meira á höttunum eftir bestu tilboðunum, skyndibitamatnum, fjöldaframleiddu Gucci úrunum eða stolnu Prada töskunum, gula bananabátnum eða froðudiskótekinu. Með þessari greiningu erum við samt sem áður ekki að leggja einn einasta dóm yfir túrista eða túristastaði.


Í San Sebastian eru hins vegar hvorki túristar né túristastaðir. Í San Sebastian eru ferðamenn sem ganga eftir ströndinni og fylgjast með sjómönnunum fiska í soðið. Fólk á ferðalagi sem grandskoðar og smakkar litríkt og dularfullt pinxtos. Fólk sem vill læra að biðja um heimagerða vínið á spænsku - eða jafnvel basknesku. Ferðamenn sem kíkja forvitnir inn á litla reykmettaða bari þar sem tíu gamlir karlar standa í hnapp með rauðar kinnar og alpahúfur. Fólk á ferðalagi sem dregur í sig menninguna og heimafólk sem, uppfullt af stolti og með bros á vör, leiðir gesti og gangandi í allan sannleikann um San Sebastian og baskenska menningararfinn.

1 comment:

Berglind said...

mmm lovely:)