Við skötuhjú hálf neyddumst til að fara í verslunarferð í svokallaðan MEGAPARK í úthverfi Bilbao í gær. MEGAPARK er í senn bæði rétt og rangt nafn á verslunarsvæðinu. Svæðið sjálft er ógnvænlega stórt og heitir því með réttu MEGA en hefur enga sérstaka tengingu við PARK sem í mínum huga hlýtur að þýða garður. Það er að segja grænt svæði þar sem fólk safnast saman. PARK í þessu samhengi stendur hins vegar fyrir endalaust flæði af bílastæðum og bílakjöllurum umkringdum alþjóðlegum verslunum og verslunarkeðjum.
Við Lárus tókum strætó og báðum strætóbílstjórann vinsamlegast að láta okkur vita þegar við ættum að fara út. Eftir um það bil hálftíma keyrslu var okkur skipað út á nokkurs konar hraðbraut. Þegar út var komið blasti við risastórt IKEA skilti sem við tókum stefnuna á. Fyrir gangandi vegfaranda eru svona risagarðar (megaparks) ekki beint aðgengilegir enda varla gert ráð fyrir því að fólk komi á tveimur jafnfljótum. Við gengum því yfir aðra hraðbraut og nokkurn spöl áður en við komum inn í garðinn. Fjórum klukkutímum seinna hringdi vingjarnleg kona í tölvubúð á leigubíl fyrir okkur þar sem okkur hugnaðist ekki beint að leggja í göngutúr og strætóleiðangur með allt dótið sem við höfðum verslað.
Á leiðinni heim var ég að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum svona verslunarsvæði væri að finna hérna á Spáni en áttaði mig síðan hægt og rólega á því að alþjóðavæðing og stöðlun á verslun og verslunarháttum á sér stað alls staðar í heiminum og ekki síst á Íslandi. Í nær öllum "alþjóðavæddum" samfélögum hefur verslun færst frá miðju samfélagsins til úthverfanna. Færst frá því að vera ákveðin samskiptaleið fyrir borgara til að koma saman, ræða um daginn og veginn, spjalla við afgreiðslufólk eða eiganda verslunarinnar í átt til þess að byggja á fjöldaframleiðslu, rútínu, sjálfsagreiðslu og ópersónulegri þjónustu. Verslun er ekki lengur þjónusta við nærsamfélagið og borgara þess heldur samansafn af kapitalískum keðjum sem taka magn umfram gæði.
Sem dæmi má nefna að við afgreiddum okkur sjálf í IKEA - ég skannaði allar vörur og renndi kortinu sjálf í gegnum posavél. Ég hafði ekkert á móti því að gera þetta sjálf, heldur er ég bara viss um að það er fólk sem væri til í að vinna við þetta og fá greitt fyrir. Við Lalli fundum það líka út að sjálfsafgreiðslan sparaði ekki tíma, fólkið á næsta kassa var mjög lélegt að skanna til dæmis og það tók það ógnar tíma og á endanum þurfti það að dingla eftir hjálp sem setur auka álag á starfsfólk sem á eflaust ekki að þurfa að sinna afgreiðslu - af því að það er sjálfsagreiðsla. Í tölvubúðinni sem við fórum í fengum við þjónustu eftir ótrúlega langa bið - aðallega af því að búðin var svo stór að við fórum í marga hringi til að leita að starfsfólki - þegar við fengum þjónustu og báðum um ákveðinn prentara tók strákurinn upp grænan post-it miða og skrifaði nr. á hann og lét okkur hafa. Þá gátum við sótt prentarann og farið og borgað. Ég hafði heldur ekki mikið á móti þessu - heldur er þetta bara gott dæmi um þær breytingar sem verslun og þjónusta hefur gengið í gegnum sl. ár.
Ég vona að þegar við lítum á öll risa torgin sem hafa risið á Íslandi (sem sum hver eru jafn stór og þau sem þjóna um það bil milljón manns hérna í Bilbao) og öll tómu vöruhúsin sem áttu að selja endalaust magn af vörum... að við spurjum okkur hvort þetta sé þróun í rétt átt... Þurfum við kannski miklu frekar á nærsamfélagi að halda, verslun sem einkennist af samskiptum og raunverulegri þörf borgara?
2 comments:
Hahaha já þetta með sjálfsagreiðsluna í Ikea er soldi skondið. Ég t.d. taldi mig svo klára um daginn að ég æddi úr röð sem ég var í og sagðist sko gera þetta sjálf en nei... þá var lokað af því að það gat enginn starfsmaður sinnt SJÁLFSafgreiðslunni!
Kveðja frá einni sem fór í Ikea í dag ;)
Guðrún
Hahahaha já nákvæmlega Guðrún!!! Alveg akkúrat svona. Soldið spez. Ekki alveg að virka einhvernveginn. Þá bið ég nú bara um fleiri kassa, brosandi starfsfólk og helst einhvern sem setur í pokann fyrir mig líka ;)
Post a Comment