Sunday, October 18, 2009

Gestir til Bilbao!

Þá er það opinbert - við ílengjumst á Spáni og verðum hér í Bilbao fram á næst haust að minnsta kosti. Ég fékk semsagt úthlutað leiðbeinanda fyrir Masters ritgerðina mína á föstudaginn sl. og var yfir mig glöð með þann sem varð fyrir valinu. Ég hafði nefnilega töluverðar áhyggjur af því að fá ekki góðan leiðbeinanda hérna í Deusto og þegar ég segi góðan þá á ég við einhvern sem hefur sérfræðikunnáttu á mínu sviði og ekki síst áhuga á því sem ég er að gera. Það er algjört lykilatriði að hafa manneskju með sér í liði - einhvern sem hefur einlægan áhuga á að leiðbeina manni og læra með manni. Leiðbeinandinn lofar góðu, hefur mikið unnið með borgaravitund, lýðræði, menntamál, raddir ungmenna, fjölmenningu og fleira tengdu því sem ég hef í huga fyrir ritgerðina. Nú er bara að krossa putta og vona að við vinnum vel saman og að ritgerðin fái gott start.

Fyrsti körfuboltaleikurinn hjá Lárusi fór vel - Santuxtu vann og Lalli fékk smávegis spilatíma. Körfubolti eins og flest annað á sér sínar menningarlegu hliðar og ég held að mín persónulega upplifun af þessum fyrsta leik hafi verið menningarlega tengd að einhverju leyti. Mér fannst bæði spilamennska, áhorfendur og dómgæsla einkennast af miklu skapi, hrópum og köllum og æsingi. Nú er ég ýmsu vön og á mína spretti á leikjum (til dæmis kallaði ég einu sinni svo hátt inn á völlin að Kristinn nokkur körfuboltadómari svaraði mér fullum hálsi upp í stúku og eftir það hefur heldur lækkað í mér rostinn) en mér hálf blöskraði æðibunugangurinn og æsingurinn á fyrsta leiknum. Ég veit ekki alveg hvernig á að lýsa þessu en eins og ég segi held ég að þetta sé frekar bundið menningu og minni eigin upplifun en því endilega hvernig körfubolti var spilaður í þessum leik. Það kom mér til dæmis "spánskt fyrir sjónir" (góður djókur ha?) að áhorfendur virtust ekkert endilega vera með á nótunum hvers konar spilamennska gæti komið sér vel þá og þá stundina heldur kölluðu eingöngu "venga, venga, triple" í hvert skiptið sem einhver fékk boltann. Sem útleggst sem "koma svo, þriggja stiga". Skipti þá engu máli hver var með boltann, í hvaða leikkerfi eða við hvaða aðstæður. Lalli var líka spurður eftir leikinn af hverju í ósköpunum hann væri alltaf að GEFA boltann. "skjóttu bara". Já já svo getur bara verið að þessi leikur hafi spilast svona og við sjáum hvað setur. Hvernig þetta kemur til með að þróast og svo framvegis. Á jákvæðum nótunum þá er til dæmis líka alltaf klappað og stappað og hrópað húrra fyrir þeim sem koma með góð tilþrif inni á vellinum og skiptir þá engu frá hvoru liðinu aðilinn er. Það finnst mér alveg meiriháttar og til eftirbreytni!

Um helgina fengum við síðan þær gleðifréttir frá Íslandi að við eigum von á gestum hingað til Bilbao í byrjun nóvember. Við erum vægast sagt að kafna úr spenningi og hlökkum mikið til að taka á móti góðu fólki og eiga með þeim enn betri stundir. Það að eiga von á vinum sínum setur líka nauðsynlega og góða pressu á mig að vera dugleg að læra og koma eins og tveimur ritgerðum í gott far áður en snillingarnir Halla og Bjöggi mæta á svæðið.

Njótið komandi viku!

2 comments:

Valgý Arna said...

Ekkert eins gott og að fá góða gesti ;)
Halla mikið búin að tala um pressu frá eiginmanninum um að koma með sér út :) hehe

Lalli og Eva said...

Hahaha já eins gott að hún lét undan pressunni ;)

Við erum æsispennt að fá þau!