Sunday, October 25, 2009

Helgin í hnotskurn

Góð helgi að baki.

Við skötuhjú gerðum okkur dagamun á föstudagskvöldið og fórum á japanskan stað - fengum okkur sushi og kampavín. Hljómar ekki mjög námsmannalegt en það var innan allrar velsæmismarka og kostaði máltíðin sem samanstóð eins og fyrr segir af sushi, núðlum, rækjum, kampavíni og kaffi og ekki mikið meira en ein Eldsmiðjupizza myndi ég ætla.

Laugardeginum eyddum við í algjörri leti, ráfuðum um garða og torg, lásum bækur og sóluðum okkur í blíðunni sem brast svo einkennilega aftur á hérna í Bilbao. Ég er alveg hætt að botna í veðrinu hérna - enda var ég líka búin að lofa að hætt að blogga um það. Um kvöldið fylgdum við síðan vinum okkar héðan frá Bilbao á nokkra mjög svo lókal bari og áttum með þeim hressandi og skemmtilegt kvöld.

Klukkan breyttist síðan á laugardagsnóttina, okkur til örlítils ama þar sem við erum ekki mjög vön slíkum breytingum og urðum því einstaklega stressuð að vakna ekki á réttum tíma í körfuboltaleik daginn eftir. Við vöknuðum því eiginlega bæði upp af stressi um fimm leytið til að athuga á netinu hvað klukkan væri í raun og veru í Bilbao.

Mættum þar af leiðandi á réttum tíma á kaffihúsið París - sem er nokkurs konar meeting point strákanna í liðinu, drukkum morgunkaffið okkar ásamt hinu fólkinu úr hverfinu og héldum síðan á baskneskan körfuboltaleik. Strákarnir unnu með þvílíkum yfirburðum og eru því efstir í deildinni eftir fjórar umferðir.

Góðar stundir!

No comments: