Wednesday, September 30, 2009

Haust

Það er ekki margt sem minnir á Ísland hér í Bilbao og sjóðheitir septemberdagar hafa ruglað mig örlítið í ríminu að undanförnu. Ég hef enn ekki komist í hinn alrómaða "skólagír" sem bærir nú yfirleitt á sér með haustinu. Ég lít að jafnaði tvisvar sinnum á hitamælinn hjá apótekinu sem sýnir yfirleitt um 25 gráður þegar ég geng fram hjá honum á morgnana og tilfinningarnar sem fylgja svitanum sem lekur niður bakið á mér þegar ég bíð eftir sporvagninum eru blendnar.

Ég hef nú uppgötvað að ástæðan fyrir tilfinningalegu uppnámi mínu er sú að ég hef hvorki komist í tæri við haustværð né volæði þrátt fyrir að það sé 1. október á morgun. Haustværð og volæði hafa nefnilega að mínu mati, heilmikið að segja um lundarfar og skapgerð Íslendinga í um það bil þrjá til fjóra mánuði á ári. Tímabilið er mislangt en markast yfirleitt af endalokum verslunarmannarhelgarinnar og "feidar" út um jólin þegar við erum öll hvort eð er svo upptekin af einhverju allt öðru en því sem við ættum að vera upptekin af.

Haustværðinni fylgir því að kveikja á kertum og hafa það huggulegt á meðan vindurinn blæs úti fyrir og regnið slær á rúðurnar. Með haustværðinni hugsar fólk inn á við, þakkar fyrir lítið ljós í glugga og kúrir með sínum nánustu. Veðrið hefur þau áhrif að fólk þjappar sér saman, skipuleggur það sem þarf að gera heima við eða bara hitar sér kaffi og les bækur. Haustvolæðið lætur yfirleitt bera á sér þegar fer að draga nær jólum og lýsir sér í pirrings- og þunglyndisköstum yfir "helvítis grenjandi rigningu" og "djöfulsins roki". Í haustvolæði leyfist manni líka að hanga heilu dagana og gera ekki neitt eða eyða peningum í óþarfa hluti eins og áskrift að Stöð 2 eða einstaka sólarlandaferð, allt í nafni þess að bjarga geðheilsunni.

Á síðastliðnum mánuði hef ég gert ýmislegt sem svipar til þess að ég finni fyrir annað hvort haustværð eða volæði. Ég hef til dæmis gert mér ferð í IKEA til að kaupa hið árlega "haustdót" sem felst í óþarfa koddum, kertum og teppum. Eftir langa íhugun ákvað ég hins vegar að sleppa flísteppinu þetta árið enda var ég ennþá rennblaut af svita eftir að hafa setið í óloftkældum strætisvagni í um það bil 20 mínútur til að komast í IKEA. Ég keypti hins vegar kodda, ilmkerti, kertastjaka og 100 sprittkerti. Púðarnir líta ágætlega út í sófanum en hafa aðallega verið nýttir sem sessur á elhússtólana sem eru helst til harðir. Kertin fóru í stjaka en hafa lítið sem ekkert verið notuð sökum sólar og hita. Í síðustu viku dró ég reyndar fyrir hlerana á öllum gluggum í íbúðinni, slökkti ljósin og kveikti á kertunum - það var bara ansi nálægt því að vera huggulegt. Ég er eins og flest aðrir samlandar mínir að lesa sænsku tríólógíuna og hef reynt að mastera haustværðina með því að hjúfra mig upp í sófa með heitt kaffi og spennandi sögu en gefist upp og ég er búin að setja bókina á pásu í smá stund. Ég hef líka reynt við volæðið. Ég kvartaði til dæmis ógeðslega yfir því að skólinn væri til klukkan sjö um daginn (en það var vegna þess að ég vildi komast í sólbað). Síðan blótaði ég spænskutímunum aðeins um daginn en Lalli setti upp svo mikinn hneykslunarsvip að ég át það allt ofan í mig alveg um leið.

Spænska haustið er því eins og þið sjáið afar vafasamt og ruglar íslenskar sálir alveg í ríminu. Hér dugar hvorki að gerast áskrifandi að stöð 2 (enda er Lárus illa hamingjusamur með allar íþróttirnar sem eru sýndar frítt í sjónvarpinu hérna) eða kaupa sólarlandaferð til að bjarga geðheilsunni. Ég verð víst bara að gera mitt besta til að aðlagast aðstæðum - eða lesa nokkra íslenska facebook statusa á dag sem innihalda flestir einhvern vott af haustværð eða volæði.

5 comments:

Anonymous said...

Vá hvað ég skil þig vel! Ég skipti alltaf um gír á haustin og kertin alveg hverfa úr skúffunni hérna :) Ætlaði meira að segja í Ikea ferð í dag en hún bíður betri tíma... og ennþá á haustinn væri ég til í að vera að byrja í skóla, en þegar jólin koma er rosalega notalegt að vera ekki í skóla ;)

Kveðjur úr kuldanum,
Guðrún, Viðar og Pjakkurinn

inspirationfreak said...

sooooo true! :) hér er líka haustvolæði en það vantar bara snjóinn til að kvarta yfir :)

eyrún said...

Hahaha! Þú ert nú meiri. Kvartar yfir skorti á haustvolæði þegar ekkert er haustið til að vera í volæði yfir. Þúsund kossar yfir í hitann!

Lalli og Eva said...

Hey!!! Hvenær kemur þú kona. Hlakka til.

Anonymous said...

Frábært blogg og skil þig, þess vegna er kannski of nauðsynlegt fyrir ykkur að panta ykkur ferð í jólin hér á Íslandi, komast aðeins í kuldann og snjóinn, kertaljósin, bækurnar, knúsin og hlýjuna innan dyra :) Hlakka allvegavegana óskaplega til að knúsa ykkur og sötra rauðvísglas yfir kertaljósum á meðan við ræðum öll heimsins mál og hlæjum svo óskaplega af skemmtilega videoinu frá því í sumar!
Knús frá okkur á Skólavöllunum