Við skötuhjú sitjum enn og aftur á netkaffihúsi í Casco Viejo í Bilbao.
Casco Viejo er hverfið sem við búum í og er eins og nafnið gefur til kynna elsti hluti borgarinnar. Borgin sjálf var stofnuð árið 1300 af kappa sem heitir Don Diego Lopez og heitir aðalgata borgarinnar í dag eftir honum. Hverfið sem við búum í er algjör andstæða við nýju og nútímalegu Bilbao sem hefur byggst upp í kringum fjármálahverfið og Guggenheim safnið. Báðir hlutar borgarinnar hafa þó sinn sjarma að mínu mati. Fjármálahverfið og hverfið í kringum Guggenheim safnið eru konfekt fyrir augað og sérstaklega fyrir þá sem aðhyllast nútímaarkitektúr og hafa gaman af mögnuðum og nær ómögulegum byggingum. En gamli hlutinn hefur líka að geyma magnaðar byggingar, meðal annars tvær kirkjur frá því í kringum 1300 og stærsta yfirbyggða ferskmarkað í Evrópu - La Ribera. Akkúrat í augnablikinu er verið að gera markaðinn algjörlega upp og ég hlakka mikið til að sjá hvernig til tekst. Sérstaklega þar sem markaðurinn sést beint út um stofugluggann minn.
Veðrið hefur leikið við okkur síðan við komum og það er sannkallað indian summer hér í borg. Hitinn hefur ekki farið undir 25 stig og hæst fór hann upp í rúm 40 stig en það gerist nokkrum sinnum á sumri þegar svokallaðir Foehn vindar blása frá fjöllunum í kring. Það var magnað að finna hvernig hitinn hækkaði um ca 10 gráður þegar vindurinn blés inn dalinn og lækkaði jafn fljótt aftur þegar lægði.
Um leið og Lárus lýkur við MA ritgerðina er síðan stefnan tekin á að ferðast örlítið víðar en um eigið hverfi (ekki það að okkur líki ekki bara ágætlega að ferðast um gamla bæinn). San Sebastian verður fyrst fyrir valinu og ætlum við að eyða nokkrum dögum þar, borða sérlega góðan Baskneskan mat og jafnvel kíkja á nokkrar vel valdar kvikmyndir þar sem við dettum akkúrat inn á Film Festival borgarinnar sem haldið er einu sinni á ári og líkist nokkuð því sem fer fram í Cannes í Frakklandi.
Ákvað að pósta nokkrum myndum (af netinu) til að sýna fjölbreytileika borgarinnar :)
Guggenheim safnið er algjört meistarastykki og eiginlega hálf ótrúlegt hús. Sérstaklega fallegt þegar sólin skín á það en jafn skemmtilegt á rigningardegi þegar reykur rýkur upp úr stéttunum í kring og myndar ótrúlega mistíska og dulúðuga stemmingu.
Í Casco Viejo er yndislegt klassískt spænskt torg sem að spænskum sið hefur fjórar byggingar eða húsaraðir í kringum sig. Á þessu torgi er alltaf líf og fjör. Á sunnudögum er opin flóamarkaður þar sem fólk kemur og selur og kaupir alls konar dót og glingur. Alla aðra daga iðar allt af lífi og elstu og virtustu pinxtos = tapasbarir bæjarins eru staðsettir á torginu.
Skemmtileg mynd af götunum í Casco Viejo sem upprunalega voru 7 og er enn vitnað til Casco Viejo sem hverfis hinna sjö gatna.
Markaðurinn góði sem er verið að gera upp. Við hinn endann má sjá glitta í eina af fyrstu kirkjum borgarinnar og á því horni var borgin stofnuð. Við kirkjuna er að finna afskaplega fallega brú og sé gengið yfir þá brú má finna götu strax á vinstri hönd sem kallast Calle Urazurrutia og þar í húsi nr. 11 má finna Lárus og Evu, gleði og glaum og jafnvel rauðvín úr héraði og ferska osta af markaðnum í boðinu.
Hlökkum til að sjá ykkur!
6 comments:
Var þetta heimboð Eva?
Kv. Guðrún H
Ég kem! Í lok nóvember.
Hreint og klárt heimboð :)
er á leiðinni...fann flug Kef-London-Bilbao á 50.000 kr.
knús mamma
Ó mæ god!!! Koddu koddu koddu!!!!!
En gaman að sjá myndir ! Þið snögg að koma ykkur inn í hlutina !
Tinna
Post a Comment