Tuesday, March 30, 2010

Salamanca

Erum á leið til Salamanca á morgun ásamt 15 krökkum. Leigjum okkur hús og skoðum okkur um í Castille y León yfir páskana. Ég hlakka til að sjá aðra hlið á Spáni. Hlakka til og kvíði fyrir að eyða nokkrum dögum með krökkum sem tala BARA spænsku.

Hér eru framtíðarpælingar á hverjum degi. Ekki mikið um niðurstöður þó. Enda hefur okkur farist best að láta tækifærin koma til okkar, örlítið óvænt. Ég er samt soldið svona við það að fríka út í óvissunni. Get ekki sagt að ég sé að njóta þess að vita ekki hvar við ætlum að eiga heima í haust, eða hvernig við ætlum að borga húsaleigu.

Auðvitað er þetta lúxusvandamál að reyna að ákveða hvar maður vill eiga heima í veröldinni. Ekki erum við föst neinstaðar og engin neyðir okkur til neins. Það sannast samt engu að síður máltækið að sá á kvölina sem á völina. Aðallega finnst mér nauðsynlegt að fá vinnu einhverstaðar. Þá gæti ég vel við unað, nánast hvar sem er í heiminum.


Við sendum ykkur annars bara sjóðheitar páskakveðjur og vonum að þið hafið það gott um hátíðirnar.

Ást og gleði

E+L

Friday, March 26, 2010

Ég sé....

Spurning hvað er hægt að lesa út úr þessu kaffisulli? Kannski næsta land eða borg sem við komum til með að búa í... eða eitthvað ennþá meira spennandi? Er ekki annars alveg hægt að spá í kaffi sem lendir óvart á fótaskemli eins og kaffi í bolla. Ps. Lárus drakk úr þessum bolla fyrir þá sem vilja spreyta sig.



Tuesday, March 23, 2010

Pakkaflóð

Sjaldan er ein báran stök. Fengum ekki einn eða tvo pakka í dag heldur þrjá pakka fulla af mismunandi góðgæti. Hér verður ekki nammiskortur á næstunni.



Lestur og skriftir halda áfram - eilítið erfitt þegar veðrið batnar með hverjum deginum. En svona fer fyrir fólki sem ákveður að skrifa MA ritgerð um vor og sumar... á Spáni.

Saturday, March 20, 2010

Föstudagur í Frakklandi

...skruppum í dagsferð til Frakklands. St. Juan de Luz er endalaust fallegur strandbær, með 6 strendur og litlar hellulagðar götur, ekta frönsk kaffihús og bakarí og öðru dúllerí. Langaði að flytja þangað strax og ég kom inn í bæinn.


Thursday, March 18, 2010

Jákvæðnin seytlar á ný inn í líf okkar. Enda ekki mikið sem við getum kvartað yfir þó svo að ég reyni stundum að finna eitt og annað smávægilegt og gera úr því heilmikið mál.

Vorið hefur verið að minna á sig og hitinn nálgast nú 20 gráðurnar þriðja daginn í röð. Það spáir nú reyndar ekki svona góðu um helgina en þetta er allt á réttri leið myndi ég ætla.

MA skrifin ganga hægt en vel fyrir sig. Ég skrifa eitthvað smá á hverjum degi og er best ef ég næ smá "samfellu" í daginn. Er með 500 orða markmið á dag, sem gengur nú svona lala - en ég bæti yfirleitt upp lélega daga með því að taka smá skurk aðra daga og afreka þá kannski allt upp í rúmlega 1000 orð. Orðafjöldinn er kannski ekki svo gífurlegur en ég miða við "góð" orð. Semsagt engin bull orð, helst bara eitthvað sem ég er sátt við og þarf ekki mikið að endurorða. Síðan situr í mér eilíf ritskoðun eftir að hafa verið í námskeiðinu "málstofa - efst á baugi" hjá Jóni Torfa í HÍ. Allir þeir sem hafa tekið þetta námskeið vita um hvað ég er að tala.

Þar var ekki skrifuð ein setning nema að hún hefði alveg stútfullt gildi, segði allt sem segja þyrfti en væri samt gjörsamlega laus við allan óþarfa. Það er því svo að í hvert skipti sem ég skrifa eina vesæla setningu þá hefst ritskoðunin í hausnum á mér og ég spyr mig: "segir þessi setning eitthvað mikilvægt?" "er þessi setning til bóta fyrir verkið sjálft?" "bætir hún nýrri þekkingu við verkið?" "er hún nauðsynleg fyrir lesendann að lesa?" og svona mæti lengi telja... Kannski ekki mjög efektívt þegar maður ætti bara að vera að skrifa "í flæðinu"...

En það er ekkert svoleiðis hjá mér þegar ég skrifa ritgerðir - það er meira svona eitt þrep í einu, upp langan og brattan stiga og ekki mikið um frjáls og óheft skrif.

Um helgina verður aðeins meira stuð á okkur skötuhjúum en vanalega þar sem ég ætla að setja stigaklifrið á hold og við ætlum að skreppa til Loredo sem er smábær á milli Bilbao og Santander. Bærinn skartar brjálæðislega langri og fallegri strandlengju og því er vonast eftir góðu veðri. Held reyndar að það eigi að rigna! En engu að síður skemmtilegt að komast aðeins út fyrir borgina og skoða sig um í Baskalandi. Við förum nokkuð stór hópur saman í ferðina. Allir ætla að njóta þess að á morgun er "día del padre" eða feðradagur sem er, í feðraveldinu Spáni, auðvitað heilagur frídagur.

"Mæðradagurinn kemur síðan alltaf upp á sunnudegi og þá eldar konan læri" sagði vinur okkar í gær þegar hann var að útskýra hefðir og siði Spánverja. Ég sit á feministanum í mér og þakka fyrir góðan frídag í þetta skiptið :)

Njótið helgarinnar!

Monday, March 15, 2010

einn, tveir..

og á lappir!

Vöknuðum klukkan 8 í morgun sem hefur ekki gerst síðan ég þurfti að mæta síðast í flug. Átti tíma á svona ókristilegum tíma hjá lækninum, ekkert til að hafa áhyggjur af. Svo við skunduðum af stað í morgunsvalanum. Sólin varla komin upp og syfjaðir Spánverjar á leið í skóla eða vinnu um allar götur. Við ætluðum síðan í búðina eftir læknisheimsóknina en komumst að því að hún opnar ekki svona snemma. Fórum þá á ekta spænskt kaffihús, smekkfullt af gömlum körlum að reykja vindla og gömlum konum með bleikan áfengan drykk í glasi. Fengum okkur spænska tortillu með osti og skinku, nýpressaðan ávaxtasafa og kaffi. Stórfín leið til að starta þessari viku sem ég held að verði miklu betri en flestar aðrar vikur í febrúar!

Ást og gleði

Wednesday, March 10, 2010

"í lamasessi"

Ég er svo hrifin af tölum að ég var næstum hætt við að blogga þegar ég uppgötvaði að ég myndi eyðileggja þá tölulegu staðreynd að á þessu bloggi eru 250 færslur. Nú verða þær 251 sem er náttúrlega arfaslök tala. En það kemur einhver betri um síðir...

Á Spáni hefur snjóað heil ósköp á ólíklegustu stöðum eins og í Barcelona og víðar. Hér í Bilbao snjóaði aðeins en fólk er nú nokkuð vant því að fá yfir sig smá slyddu og því var Bilbao ekki "í lamasessi" á meðan Barcelona var sögð vera svo - þar sem meðal annars 200.000 manns misstu rafmagn og hita í marga daga vegna slyddunnar.

Snjórinn var hins vegar fyrirboði fyrir örlitlum hindrunum sem henda víst allt gott fólk í lífinu. Sama dag og hitinn fór niður fyrir núllið, fengum við vinalegt bréf frá skattayfirvöldum í Danmörku þar sem ég var vinsamlegast beðin um að borga helminginn af skólastyrknum mínum til samfélagsins aftur.

Í því fjármálaumhverfi sem einkennir Ísland í dag (það sem allir skulda trilljónir og milljarðar eru bara fyrir pelabörn) virðist kannski ein milljón íslenskar kr. ekki vera svo ýkja há upphæð... Ég hef hins vegar ekki verið mikið í því "að græða" og finnst því alveg nóg um að eiga að borga skattinum helminginn af styrknum mínum sem var jú ætlaður til þess að lifa, borga leigu og læra fram á næsta haust. Sama dag hugnaðist mér líka að kíkja inn á "mitt svæði" hjá LÍN til þess eins að komast að því að ég hafði hreinlega gleymt (!!) að sækja um námslán fyrir haustönnina. Ég hafði hins vegar ekki gleymt að taka svimandi háan yfirdrátt sem átti að greiðast með námslánum (sem eru nú gleymd og grafin).

Svona getur lífið verið snúið stundum - og það mætti segja að þó svo að Bilbao hafi ekki verið í lamasessi sökum slyddu þá hafi tvær sálir í eldri hluta borgarinnar lamast að hluta til við síður en svo uppörvandi fréttir daginn sem snjóaði á Spáni.

En nú er bara að snúa vörn í sókn og leita að frk. Pollýönnu því hún er þarna einhverstaðar - um leið og hún fær kraft í lappirnar þá sprettur hún fram .... ég er viss um það.

Blogga þegar hún mætir á svæðið!

Saturday, March 06, 2010

Læra - borða - sofa

Það glittir í sólskin í Bilbao þó svo að vorið sem ég básúnaði og lofaði hérna um daginn hafi hörfað í bili. Hitinn fór niður fyrir frostmark í gærnótt. Dagarnir núna snúast aðallega um að læra þangað til að hungrið segir til sín þá skreppum við hjúin út í "menu del día" og borðum okkur sprengsödd. Hér um bil án undantekningar hef ég þurft að leggja mig í dágóðan tíma eftir að hafa fengið mér þennan klassíska miðdegisverð Spánverja og þaðan held ég að síestan sé meira og minna upprunin. Það er ekki endilega það að hitinn sé svo kæfandi að fólk verði hreinlega bara að loka sig af í 3 klukkutíma á dag (enda hefur mér alltaf þótt það hæpin útskýring á fyrirbærinu síesta).

Hitinn hérna á N-Spáni er bara sæmilegur, fer sjálfsagt aldrei mikið yfir 30 og á veturnar er hreinlega bara hrollkalt í amk 3 mánuði. Menu del día er hins vegar þannig máltíð að maður getur lítið annað gert en að leggja sig eftir matinn. "Seðillinn" kostar 10 EUR og samanstendur af þremur réttum. Primero Plato sem getur verið allt mögulegt, oftast er þó í boði salat, súpa, pastaréttir, aspasréttir, brauð með pate eða svona réttir í léttari kantinum (þó svo að risa diskur af pasta og brauði sé ekkert sérstaklega létt fyrir mér). Segundo Plato er síðan aðalrétturinn og þá er yfirleitt hægt að velja á milli 3-4 fisk eða kjötrétta. Ég er núna fyrst farin að þora í fiskinn því yfirleitt er hann reiddur fram með haus og sporði og öllu tilheyrandi og ég hef því ekki lagt í það. Kemur sér illa núna að hafa aldrei unnið í fiski! Á seðlinum í gær var hins vegar eitthvað sem hét Salmonita og ég hélt nú að ég væri frekar örugg með lax. Eftir að hafa næstum borðað mig pakksadda af salati með eggjum, síld og brauði þá kom Salmonit-að (í mínum huga lítill lax) á borðið til mín í líki þriggja mjög svo undarlegra fiska. Þeir litu út eins og risavaxin síld með stóran haus og svört augu. Ég gerði mitt besta í að flaka og beinhreinsa og þetta smakkaðist bara þónokkuð vel. Þjónarnir fylgdust hins vegar grannt með mér allan tíman og mig grunar að þeim hafi ekki fundist mikið til aðfaranna koma hjá mér.

Í eftirrétt er síðan hægt að fá sér ís, ávexti, ost og bara yfirleitt allt milli himins og jarðar. Í gær spilaði tungumálið aðeins með mig og það er greinilega langt í land hjá mér... Ég sem hélt að ég væri einmitt komin á "veitingastaða levelið" í spænskunni. En ég ætlaði semsagt að biðja um súkkulaðiköku en fékk geitaost í staðin. Eftir svona þriggja rétta máltíðir sem skolað er niður með flösku af rauðvíni og flösku af vatni þá er heppilegt að gangan heim er ekki löng og leiðin í rúmið enn styttri. Síðan vaknar maður endurnærður (eða mjög stúrin og myglaður eins og ég) um 6 leytið og fer aftur út á röltið samkvæmt hefðinni.

Thursday, March 04, 2010

Hið venjulega blogg

Stundum fæ ég samviskubit yfir því að skrifa of hversdagslegt og leiðinlegt blogg. Það hvarflar iðulega að mér að ég þurfi að flíka pólitískum skoðunum, sniðugri heimspeki eða jafnvel einhverju fræðilegu. Í það minnsta einhverju fréttnæmu til þess að geta réttlæt skrifþörfina.

Hins vegar er það svo að þau blogg sem ég les eru lang sjaldnast þannig skrifuð. Í blogghringnum mínum svokallaða (blogg sem ég kíki jafnvel vikulega á) eru nefnilega einmitt "hin venjulegustu blogg". Blogg frá Jóni og Gunnu sem fjalla yfirleitt bara um daginn og veginn. Ég hef nefnilega lúmskt gaman af því að lesa um gráan hversdagleikann í lífi annars fólks. Ég er reyndar örlítið veik fyrir þeim hversdagsleika sem gerist annarstaðar en á Íslandi og því eru ýmiskonar ferðblogg oft ofarlega á lista hjá mér. Hins vegar er það þannig að ég verð fljótt leið á að lesa kvabbið, argaþrasið og svekkelsið sem einkennir mörg þau blogg sem eru í gangi núna.

Nú má ekki misskilja mig sem svo að mér finnist ekki bæði nauðsynlegt og í alla staði frábært að fólk geti tjáð sig um samfélagsleg og pólitísk málefni á veraldarvefnum. Ég er meira að segja þeirrar skoðunar að internetið sem slíkt, blogg og annar samskiptamáti í gegnum netið geti bætt lýðræðið okkar heilmikið og sé ein af "leiðunum" við að þróa lýðræðishugmyndina í nútímasamfélagi. Það er gott og gilt að fólk komi skoðunum sínum á framfæri og noti þennan vettvang til þess. Bloggin virðast engu að síður fljótlega renna saman í eitt og eftir stendur ekki mikið sem breytir, bætir eða kætir.

Hið hversdagslega blogg er aftur á móti mun nær sagnahefðinni og það er kannski þess vegna sem það höfðar betur til mín. Mér finnst ég vera að lesa litlar örsögur um líf fólks og þar sem fólk, alls konar fólk, hefur alltaf átt hug minn og hjarta þá heillast ég upp úr skónum við það eitt að lesa að kona í París stundi morgunleikfimina sína af mikilli samvisku eða að fjölskylda í Ameríku sé komin í umhverfisverndar átak og flokki nú allt rusl eða að maður í Barcelona hafi lent í vandræðum með að kaupa kennaratyggjó.


Ást