Thursday, January 28, 2010

Vinna með skóla...

er eitthvað soldið séríslenskt. Að minnsta kosti þekkist það lítið sem ekkert í Evrópu að fólk í fullu námi sé sífellt að vinna meðfram skólanum. Á Íslandi er þetta frekar regla en eitthvað annað. Ég byrjaði að vinna með skólanum í 9. bekk (vann á sumrin miklu fyrr - byrjaði að passa börn hálfan daginn sumarið sem ég var 10 ára). Ég þjálfaði fimleika tvisvar í viku í 9. og 10. bekk og eyddi flestum helgum líka í þjálfun og aðra vinnu tengda fimleikunum. Í menntaskóla þjálfaði ég líka allt upp í 5 sinnum í viku með skólanum og vann flestar helgar í fataverslun. Í háskólanáminu mínu vann ég líka við að þjálfa og fór fljótlega að vinna innan skólans; aðstoða við kennslu, rannsóknir og fleira í þeim dúr. Bottom line: Ég hef unnið meðfram námi frá því að ég var 14 ára eins og svo margir aðrir íslenskir krakkar.

Ég minnist þess að í Verzló þurfti ég iðulega að færa rök fyrir þessari vinnu þar sem kennurunum mínum fannst auðvitað (og réttilega líka) að nám sé full vinna og að nemendur ættu þar af leiðandi að eyða tíma sínum í að læra heima en ekki að vinna sér inn pening (sem færi bara í einhvern óþarfa hvort eð er). Ég held nú reyndar að vinnan sem slík hafi ekki endilega haldið mér frá lærdómnum á Verzlunarskólaárunum, frekar að djammið og útstáelsið (sem þurfti einmitt að vinna fyrir) hafi rænt mig tíma og orku til að standa mig sæmilega á prófum. En ég útskrifaðist að lokum og allt fór vel ;)

Í aðra röndina er ég pínulítið stolt af þessari íslensku seiglu og í sjálfu sér skil ég (ennþá amk) ungt fólk sem þykist þurfa að vinna endalaust til að eiga fyrir hinu og þessu. Það býr jú einfaldlega í einu mesta neyslusamfélagi veraldar leyfi ég mér að segja og vill ekki verða útundan. Þetta er líka merki um ákveðið sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni því ekki getur allt ungt fólk beðið mömmu og pabba endalaust um peninga. Á hinn bóginn finnst mér þetta ekki endilega "ideal" aðstæður. Við Lárus tókum stóra ákvörðun sumarið 2005 og ákváðum að eyða því í Kaupmannahöfn og vinna "bara 5 tíma á dag" - rétt til að eiga fyrir bjór og pizzu. Við eyddum fyrstu vikunum í að afsaka og réttlæta þessa ákvörðun okkar við alla þá sem urðu á vegi okkar. Það fyndna var að engum í Kaupmannahöfn fannst þetta neitt merkilegt. Krakkar á okkar aldri voru eiginlega bara hálf hissa á því að við værum að eyða sumarfríinu okkar í að vinna eitthvað yfir höfuð! Þegar ég byrjaði í MA náminu haustið 2008 ákvað ég að gera tilraun til að vinna EKKERT með náminu. Ég ætlaði að tileinka náminu allan minn tíma. Fyrr en varði var ég komin í forfallakennslu í grunnskóla, fimleikaþjálfun og í vinnu innan háskólans!

Nema hvað, síðasta önn er fyrsta önnin síðan ég var 14 ára þar sem ég hef í raun og veru ekki unnið neitt með skóla. Það skapast fyrst og fremst af því að ég tala ekki tungumálið fullkomlega og kannski líka af því að nú ætlaði ég virkilega að reyna að einbeita mér að skólanum...

Í dag réð mig í vinnu við að kenna litlum spænskum krökkum ensku. Sem betur fer segi ég nú bara!! Nú er ég hætt að reyna að berjast á móti íslensku ofvirkninni og hlakka til að hafa eitthvað að gera fyrir utan skóla... Á meðan það inniheldur ekki stanslaust djamm og útstáelsi þá held ég að það bitni ekki á frammistöðu minni í skólanum. Ef það fer að gera það... þá er ég amk í æfingu frá því í Verzló að rökræða og réttlæta þetta allt saman fyrir kennurunum mínum!

Bókaormar

Vorum að bæta við nýjum bókum sem við erum búin að vera að lesa á "við mælum með" listann okkar. Lárus er hins vegar búinn að lesa miklu miklu fleiri. Mér reiknast til að hann hafi lesið núna frá því að við fluttum út - og nú ýki ég ekki - svona um það bil 30 bækur. Þannig að ef ykkur vantar hugmynd af góðri bók, spyrjuð þá Lalla.

Ég er sjálf búin að lesa þarna Kirkju Hafsins sem er þykkur doðrantur upp á mörg hundruð blaðsíður og maður þarf aðeins að hafa sig í að byrja en eftir fyrsta kaflann er ekki séns að maður leggi bókina mikið frá sér. Ég las hana í matarboði hjá vinum okkar svo spennandi var hún. Þetta er samt enginn thriller (komin með nóg af þeim) heldur bara lífssaga manns sem elst upp í Barcelona á miðöldum og lendir í ýmsum háska, ævintýrum og raunum. Ég er síðan líka búin að lesa Hvíta Tígurinn sem ég mæli eindregið með. Auðveld og auðlesin bók sem lýsir Indlandi og lífi venjulegs fólks á afar raunsæan og kuldalegan hátt. Frábær lýsing á heimshluta sem við þekkjum í raun svo lítið til. Soldið svona survival of the fittest saga.

Wednesday, January 27, 2010

Kuldakast

Smávegis kuldakast sem skall á hérna Í Bilbao í gær. Í nótt fór hitinn niður í 0 gráður og var um það bil +6 þegar ég lagði af stað í síðasta prófið mitt í morgun. Ég andaði bara ofan í hálsmálið og var í tvennum sokkabuxum svo mér varð ekki meint af. Veit hins vegar ekki hvernig okkur Lárusi á eftir að reiða af þegar við fljúgum til Kaupmannahafnar eftir helgi. Þar er víst fimbulkuldi, snjóbylur og ekki hundi út sigandi.

Annars er tilfinningin góð sem fylgir því að hafa lokið við síðasta áfangaprófið í þessu meistaranámi. Nú tekur við frímánuður sem ég hafði hugsað mér að nota til að safna heimildum og undirbúa ritgerðarskrifin. Prófið gekk vel og ég ræddi um heima og geima við prófdómarann í rúman klukkutíma. Nánast ekkert um ritgerðina, mestmegnis um baskneska þjóðernisvitund, ETA, heimspeki, kúltúrmun á S-Spáni og N-Spáni, siðmenningu og fleira fróðlegt. Ég þekki hann aðeins þar sem hann var yfir prógramminu í fyrra en hætti nú í ár og var ráðinn sem forseti education-deildarinnar í staðinn. Honum finnst jafnvel skemmtilegra að tala en mér og þess vegna varð prófið svona í lengri kantinum en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að hætta að masa og fallast á það að ritgerðin hefði bara verið í fína lagi. Einkunn fæ ég hins vegar ekki fyrr en 1. mars. Ég hugsa að hann hafi bara samþykkt þá einkunn sem leiðbeinandinn minn gaf mér (sem ég veit ekki enn hver er).

Þrátt fyrir kuldakastið erum við Lalli spræk að vanda og bjartsýn á komandi tímabil. Lalli verður að spila körfubolta fram í maí enda er deildin hérna töluvert stærra en heima og þar af leiðandi fleiri leikir spilaðir. Í vor og sumar er síðan von á fullt af góðum gestum og við erum aðeins byrjuð að skipuleggja tímann okkar til þess að engar tvær heimsóknir rekist nú á og til þess að hafa örugglega tíma fyrir allt það góða fólk sem ætlar að kíkja til okkar.

Sunday, January 24, 2010

BB

horfðum á Bilbao Basket tapa fyrir Vitoria sem var eiginlega bara ekkert leiðinlegt. Höllin sem BB spilar í er RISA stór og er staðsett inn í svokölluðu BEC eða Bilbao Exhibition Center sem hýsir miklu fleira en bara þessa annars huge körfuboltahöll. Leikurinn í dag var Derby leikur þar sem bæði lið eru staðsett á Viskaya og eru nágrannalið. Stemmingin var eftir því skemmtileg, mikið öskrað, æpt og sungið. Höllin tekur um það bil 15.000 manns og það er bara pjúra skemmtun að fara á svona leiki - sama hver úrslitin verða. Enda bjóst kannski engin við að BB myndi vinna Vitoria sem er mun ofar í deildinni en við.

Annars er allt að falla í ljúfan löð hjá okkur skötuhjúum ég klára síðasta prófið mitt í þessu námi á miðvikudaginn næstkomandi og þar með líkur allri vinnu sem ekki er beintengd MA ritgerðinni. Febrúar, sem er í raun frímánður þar sem næsta önn byrjar ekki fyrr en 1. mars, ætti að nýtast mér í heimildaröflun og undirbúning fyrir ritgerðina. Síðan er bara að eyða næstu mánuðum í að lesa og skrifa til skiptis.

Við erum ennþá í skýjunum yfir styrknum sem ég fékk og léttir okkur heldur betur lífið á komandi önn. Spurning hvort við þurfum ekki hreinlega að gera okkur ferð til Kaupmannahafnar til að sækja peningana og fagna með þeim sem hjálpuðu okkur að sækja um ;)

Tuesday, January 19, 2010

Afmælisdagurinn...

minn, 18. janúar sl. var samkvæmt mælingum versti dagur ársins 2010. Ástæðurnar gefa svosem tilefni til að ætla að þetta yrði slæmur dagur en samkvæmt einhverjum rannsóknum er líklegt að á þessum degi blandist saman slæmt veðurfar, lokanir á visakortum, yfirdrættir, jólaskuldir og almennt skammdegisþunglyndi. Þar hafið þið það!


Eins og vísindin höfðu spáð fyrir um varð dagurinn kannski ekki sá allra lukkulegasti. Ég eyddi um það bil 3 klukkutímum á læknavaktinni sem endaði með því að ég fékk ávísað lyfjaskammti sem dugar út árið. Ekkert alvarlegt svosem, króníska blöðrubólgan bara að gera vart við sig en engan veginn ánægjulegt heldur. Um kvöldið var síðan meiningin að lyfta sér örlítið upp og bæta fyrir frekar slappan dag. Þar sem ég er mikill sushi aðdáandi gerði ég dauðaleit að eina sushi staðnum í Bilbao og vildi ekkert annað fara. Okkur fór nú frekar fljótt að gruna eitthvað misjafnt þegar við sátum ALEIN inni á risastórum staðnum með þjónustustúlkurnar á næsta borði við okkur að rúlla inn sushi, plasta og leggja í mót sem kokkurinn kom svo og setti í frysti nánast fyrir framan nefið á okkur. Það þarf varla að taka það fram að sushið var vægast sagt skelfilegt, fiskurinn seigur, brúnn og gamall og hrísgrjónin hálf frosin ennþá. Öll herlegheitin voru síðan borin fram á einhverjum kínverskum drekabát úr timbri sem gerði það að verkum að sushið festist við timbrið og það flísaðist upp úr því þegar maður reyndi að losa sushið af. Huggulegt.

Við hlógum bara af þessu og héldum heim eftir að hafa gefist upp á sushinu og hrísgrjónavíninu sem okkur var boðið í sárabætur. Það var þó lán í óláni að á heimleiðinni duttum við inn á frábært vínhús, fengum súper gott hvítvín og æðislega þjónustu. Við merktum við staðinn sem "gestastaður" það er, staður til að fara með gesti á þegar við fáum næst heimsókn til Bilbao.

Þegar versti dagur ársins var yfirstaðinn tók við það sem mætti jafnvel kalla besti dagur ársins. Mér til mikillar gleði færði Ágúst Elvar okkur þær fréttir að heim til hans í Kaupmannahöfn hefði borist bréf og í því stæði að ég hefði hlotið skólastyrk úr svokölluðum Ragna Lorentz sjóð. Sjóðurinn er ætlaður fyrir íslenska stúdents sem nema menntafræði við DPU og ég rétt náði að sækja um á réttum tíma, Hildi Maríu vinkonu minni að þakka. Hún opnaði nefnilega bréf stílað á mig (sem barst heim til hennar í CPH) rétt fyrir jól og hringdi strax í mig og bað mig vinsamlegast um að senda inn umsókn.

Umsóknin virkaði svona líka vel og ég hlaut vægast sagt ríflegan styrk sem kemur vonandi til með að duga mér og Lárusi eitthvað fram eftir ári. Sannkölluð búbót og ég á eftir að þakka henni Rögnu Lorentz (veit ekkert hver það er samt) mikið og vel á næstu mánuðum fyrir að borga mér fyrir að skrifa MA ritgerð. Ég er eiginlega ennþá að ná þessu. Að vera á launum við að læra er náttúrlega draumastaða fyrir mig - eilífðarnámsmanninn. Lifelong learning kostar sitt :)

Kannski ég plati Lalla út í pinxtos og txakoli eftir körfuboltaæfingu í kvöld - það er nú í lagi að fagna pínu pons er það ekki?

Wednesday, January 13, 2010

2009 í máli og myndum


Janúar hófst með glaðningi frá Íslandi. Fullt af nammi, lýsi, harðfiski og flatkökum.



Við skötuhjú skelltum okkur líka til Aarhus að heimsækja Hadda og Bjarney


Valentínusardagurinn var haldinn hátíðlegur á okkar heimili í febrúar


Ég horfði á ófáa körfuboltaleiki með Agne



Námsmannalífið í Köben bauð bara upp á heimaklippingar :)


og veturinn bauð upp á nokkur pigeaften á Matthæusgade 48



Lárus gerði meira en að spila körfubolta í mars tók hann líka þátt í leik/dans sýningu sem byggðist á körfubolta og dansi.



Í apríl mætti síðan vorið til Köben og svalirnar voru óspart notaðar



Ég hélt fyrirlestur fyrir danska menntaskólanemendur



Við skruppum aðeins til Íslands og sáum BSO alveg splunkunýjan



Fyrstu sumargestirnir okkar til Köben voru Berglind og Hilmar :)




Stórfjölskyldan frá Giljum kom líka í heimsókn




sem og litla fjölskyldan úr Brúarhvammi



Við fórum síðan í surprize heimsókn til Íslands og næstum beint á Vopnafjörð



Það var blíða á Íslandi í ágúst



Við fluttum síðan inn í töluvert minni íbúð í Köben þar sem voru ekki svalir




En veðrið var gott og við borðuðum bara oftar úti í garði



og fórum oft á ströndina


Í ágúst hélt ég fyrirlestur um borgaravitund á ráðstefnu á Ítalíu í 40 stiga hita




Við fluttum síðan til Bilbao í byrjun september og þar tók blíðan á móti okkur



og Guggenheimsafnið í allri sinni dýrð


Lárus henti í eina meistararitgerð í september og útskrifaðist sem meistari í alþjóðasamskiptum



Við fengum síðan fyrstu gestina okkar sem voru á pílagrímsgöngu



Borðuðum góðan mat og ferðuðumst um Norður strönd Spánar




Lárus efst uppi....


...á þessari hæð


Næstu gestir sem vermdu stofugólfið - Halla og Bjöggi :)

Meira pinxtos....


2009 var ár gleði og sorgar eins og flest önnur ár. Við eignuðumst nýja vini og misstum aðra. Við fluttum frá Kaupmannahöfn til Bilbao og áttuðum okkur á gildi vináttu og fjölskyldunnar enn og aftur. Lentum í ýmsum ævintýrum og kynntumst nýrri menningu. Tókumst á við ýmis verkefni bæði andlega og líkamlega, unnum ýmsa sigra og höldum enn áfram að takast á við lífið og tilveruna.

Við erum spennt fyrir árinu 2010. Það mun vonandi færa okkur gleði og hamingju, ást og umhyggju fyrir hvort öðru og okkar nánustu. Við erum oftar sem áður ekki með niðurneglt plan fyrir árið og ætlum að taka opnum örmum á móti því sem okkur býðst. Í gegnum árin höfum við lært að lífið er ekki endilega alltaf dans á rósum og yfirleitt þarf að vinna örlítið fyrir hamingjunni. En við höfum líka lært að lífið býður upp á óteljandi möguleika og það er okkar að grípa tækifærin þegar þau gefast. Þykja vænt um hvort annað og vera sátt með það líf sem við veljum okkur.

Takk fyrir árið 2009 við hlökkum til að takast á við árið 2010 með ykkur öllum.

Eva + Lalli - satt og sannað :)