Thursday, October 29, 2009

Ó þú norður strönd Spánar....

Afrek ársins! Jæja kannski er ég full dramantísk en afrek var það engu að síður. Við Lárus lögðum upp í ansi langa göngu í bæ einum sem kallast Bakio. Bærinn sjálfur hefur kannski ekki upp á svo ýkja margt að bjóða en ströndin þar er jafn falleg og á öðrum stöðum við norður strönd Spánar sem og þessi forláta og ægifagra leið sem við löbbuðum. Leiðin liggur upp gríðarmikið og að því er virðist endalaust fjall. Útsýnið er það sem dregur óvana göngugarpa eins og mig áfram. Það er gengið í hlíðinni og því er útsýni yfir ströndina og atlantshafið alla leiðina. Dagurinn í gær var upplagður í svona göngu þó svo að það hefði verið í heitara lagi - þá var heiðskírt og því einstakt útsýni yfir í næstu firði og alveg út að ystu sjónarrönd eins og segir í laginu. Kirkjan San Juan sem var áætlaður áfangastaður og tröppurnar 300 sem ganga þurfti til að komast upp að henni var hins vegar ekki síðri en útsýnið á undan og því var það algjörlega þess virði að leggja á sig síðasta spölinn upp.

Við skötuhjú gerumst nú æ sterkari í þeirri trú að norður strönd Spánar sé engu lík og þarfnist mun nánari skoðunar, tíma og athygli okkar. Á meðan sumarið endist okkur ætlum við að halda áfram að fara í stuttar dagsferðir hingað og þangað um norður Spán og næsta vor gefst okkur síðan vonandi tími til að fara í lengri ferðir, kanna svæðið nánar og kynnast landi og þjóð enn betur. Ég hélt vitaskuld áður en við fluttum hingað að ég þekkti Spán ansi vel. Ég hef komið ágætlega víða og Spánn er jú einu sinni hluti af Evrópu -að minnsta kosti landfræðilega séð- Spánverjar sjálfir og sérstaklega þeir sem búsettir eru hérna í Baskalandi tala hins vegar um Evrópu oft á tíðum eins og Íslendingar gera. "Já þarna í Evrópu þá gera þeir þetta svona". Eins og landið þeirra tilheyri ekki Evrópu, eins og að í Evrópu sé allt annað kerfi og allt önnur menning. Það er svosem ágætlega mikið til í því hjá þeim - rétt eins og hjá Íslendingum sem finnst mörgum hverjum oft ansi erfitt að finna Evrópubúan í sjálfum sér.

Það kom hins vegar á daginn að ég þekki Spán ekki neitt. Ég þekki aðeins til hinnar klassísku staðalmyndar af Spáni og norður Spánn er svo sannarlega ekki hluti af þeirri staðalmynd. Hér er ekkert "olé, olé" ekkert "mañana, mañana" og allra síst flamengo eða nautaat. Hér býr frekar alvarlegt fólk sem vingast ekki endilega við hvern sem er og tekur ókunnugu fólki með fyrirvara. En þegar það eignast vini þá er það fyrir lífstíð er sagt. Hér er mikil og sterk ástríða fyrir mat. Fólk lifir til að borða í stað þess að borða til að lifa. Fólki hér er líka annt um fjölskylduna sína og sunnudagar eru heilagir fjölskyldudagar. Trúin er sterk og Jesúítar í meirihluta en það er aldrei þannig að trú sé þröngvað upp á fólk í daglegu tali. Trú er persónuleg og fólkið hér virðir friðhelgi einkalífsins og þína persónulegu hagi í topp. Þegar ég segi "fólkið hér" á ég vitaskuld við það fólk sem við höfum kynnst hér í Bilbao en ekki alla basknesku þjóðina eins og hún leggur sig - hana þekki ég ekki.

Fyrir utan einstaklega vinalegt fólk sem er allt af vilja gert en þó laust við alla yfirborðskennd eða tilgerð, matinn sem smakkast hættulega vel og vínið sem er bæði ódýrt og gott þá er náttúran eitthvað sem kom okkur mest á óvart. Grænar hlíðar í bland við himin bláan sjó og stórskornar klettastrendur er auðvitað himnaríki líkast. Ég gæti auðveldlega vanist því að heimsækja nýjan smábæ á hverjum degi hér bara til þess eins að sitja á ströndinni og dáðst á útsýninu - svo framarlega sem ég kæmist öðru hvoru inn á troðfullan, skemmtilegan og heimilislegan bar sem byði upp á framandi og exótískt pinxtos og txakoli - þá yrði ég sátt við guð og menn.


Tuesday, October 27, 2009

Bilbao Október

Ein gerð af pinxtos: Tigres

Street Art - sjálfstæðisáróður við húsið okkar


Night...


...and day

Stuð í sólinni í Bilbao

Monday, October 26, 2009

Erum við að af-alþjóðavæðast?

Á Spáni segir maður "he ido" en í Argentínu bara "fui" - Sara vinkona mín hérna í Bilbao sagði mér bara að segja "fui" og hafa ekki áhyggjur af þessu en Sitatxu önnur stelpa hér í Bilbao sagði það algjört grundvallaratriði að læra þáliðnu tíðina.

Púff!!

Vinir okkar sem við fórum út að borða með (pinxtos enn og aftur) á laugardagskvöldið ósköpuðust yfir því að það væri allt morandi í skyndibitastöðum hérna í Bilbao. Það er hins vegar algjörum ofsögum sagt. Í borg sem telur um það bil milljón manns hef ég séð nákvæmlega 2 alþjóðlega skyndibitastaði.

Við erum sem betur fer nánast alveg laus við að finnast skyndibitastaðir eftirsóknarverðir en höfum þó tvisvar síðan við fluttum lagt í að leita uppi Kentucky (ástæðan var einhver óvenjulegur slappleiki á sunnudagsmorgni). Í fyrra skiptið sem við fórum á Kentucky eyddum við næstum því hálftíma í að þefa hann uppi. Hann er ekki merktur með einasta skilti eða límmiða í glugga heldur leynist inni í eldgamalli bankabyggingu og fyrir gluggunum eru rimlar. Það er nánast ekkert sem minnir á hinn alþjóðlega stað Kentucky nema kjúllinn sjálfur. Auk Kentucky er að finna einn Burger King stað á aðal business torginu í bænum þar sem jakkafataklæddir menn og unglingar safnast saman til að skella í sig einum borgara á hlaupum eða kaupa klink tilboð.

Já semsagt. Vinum okkar fannst eins og áður sagði ofgnótt af skyndibitastöðum hér í Bilbao þangað til ég sagði þeim frá mekka "fast food lovers" - Íslandi. Ég stærði mig af því síðast á laugardagskvöldið að á Íslandi væru amk 10 Kentucky staðir, 10 Subway staðir og að minsta kosti 10 McDonalds staðir.

Nú þarf ég að éta þetta ofan í mig!

Sunday, October 25, 2009

Helgin í hnotskurn

Góð helgi að baki.

Við skötuhjú gerðum okkur dagamun á föstudagskvöldið og fórum á japanskan stað - fengum okkur sushi og kampavín. Hljómar ekki mjög námsmannalegt en það var innan allrar velsæmismarka og kostaði máltíðin sem samanstóð eins og fyrr segir af sushi, núðlum, rækjum, kampavíni og kaffi og ekki mikið meira en ein Eldsmiðjupizza myndi ég ætla.

Laugardeginum eyddum við í algjörri leti, ráfuðum um garða og torg, lásum bækur og sóluðum okkur í blíðunni sem brast svo einkennilega aftur á hérna í Bilbao. Ég er alveg hætt að botna í veðrinu hérna - enda var ég líka búin að lofa að hætt að blogga um það. Um kvöldið fylgdum við síðan vinum okkar héðan frá Bilbao á nokkra mjög svo lókal bari og áttum með þeim hressandi og skemmtilegt kvöld.

Klukkan breyttist síðan á laugardagsnóttina, okkur til örlítils ama þar sem við erum ekki mjög vön slíkum breytingum og urðum því einstaklega stressuð að vakna ekki á réttum tíma í körfuboltaleik daginn eftir. Við vöknuðum því eiginlega bæði upp af stressi um fimm leytið til að athuga á netinu hvað klukkan væri í raun og veru í Bilbao.

Mættum þar af leiðandi á réttum tíma á kaffihúsið París - sem er nokkurs konar meeting point strákanna í liðinu, drukkum morgunkaffið okkar ásamt hinu fólkinu úr hverfinu og héldum síðan á baskneskan körfuboltaleik. Strákarnir unnu með þvílíkum yfirburðum og eru því efstir í deildinni eftir fjórar umferðir.

Góðar stundir!

Thursday, October 22, 2009

NEI

Forláta kaffivélin sem ég gaf Lárusi í þrítugsafmælisgjöf í miðri kreppu og notaði í það dágóðan hluta af námslánunum mínum bilaði í dag. Kaffivélin sem Lárus elskar meira en mig virkar ekki lengur. Kaffivélin sem mér reiknast til að við höfum borgað um það bil 40.000 íslenskar krónur fyrir að láta flytja frá Kaupmannahöfn til Bilbao gerir ekki neitt kaffi!

Ég er að skrifa MA ritgerð - ég þarf kaffi!

Ást

Á Urazurrutia er allt með kyrrum kjörum. Um íbúðina ómar róleg og seiðandi djazztónlist og húsbóndinn býr til ilmandi expressó.

Wednesday, October 21, 2009

MEGAPARK

Við skötuhjú hálf neyddumst til að fara í verslunarferð í svokallaðan MEGAPARK í úthverfi Bilbao í gær. MEGAPARK er í senn bæði rétt og rangt nafn á verslunarsvæðinu. Svæðið sjálft er ógnvænlega stórt og heitir því með réttu MEGA en hefur enga sérstaka tengingu við PARK sem í mínum huga hlýtur að þýða garður. Það er að segja grænt svæði þar sem fólk safnast saman. PARK í þessu samhengi stendur hins vegar fyrir endalaust flæði af bílastæðum og bílakjöllurum umkringdum alþjóðlegum verslunum og verslunarkeðjum.

Við Lárus tókum strætó og báðum strætóbílstjórann vinsamlegast að láta okkur vita þegar við ættum að fara út. Eftir um það bil hálftíma keyrslu var okkur skipað út á nokkurs konar hraðbraut. Þegar út var komið blasti við risastórt IKEA skilti sem við tókum stefnuna á. Fyrir gangandi vegfaranda eru svona risagarðar (megaparks) ekki beint aðgengilegir enda varla gert ráð fyrir því að fólk komi á tveimur jafnfljótum. Við gengum því yfir aðra hraðbraut og nokkurn spöl áður en við komum inn í garðinn. Fjórum klukkutímum seinna hringdi vingjarnleg kona í tölvubúð á leigubíl fyrir okkur þar sem okkur hugnaðist ekki beint að leggja í göngutúr og strætóleiðangur með allt dótið sem við höfðum verslað.

Á leiðinni heim var ég að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum svona verslunarsvæði væri að finna hérna á Spáni en áttaði mig síðan hægt og rólega á því að alþjóðavæðing og stöðlun á verslun og verslunarháttum á sér stað alls staðar í heiminum og ekki síst á Íslandi. Í nær öllum "alþjóðavæddum" samfélögum hefur verslun færst frá miðju samfélagsins til úthverfanna. Færst frá því að vera ákveðin samskiptaleið fyrir borgara til að koma saman, ræða um daginn og veginn, spjalla við afgreiðslufólk eða eiganda verslunarinnar í átt til þess að byggja á fjöldaframleiðslu, rútínu, sjálfsagreiðslu og ópersónulegri þjónustu. Verslun er ekki lengur þjónusta við nærsamfélagið og borgara þess heldur samansafn af kapitalískum keðjum sem taka magn umfram gæði.

Sem dæmi má nefna að við afgreiddum okkur sjálf í IKEA - ég skannaði allar vörur og renndi kortinu sjálf í gegnum posavél. Ég hafði ekkert á móti því að gera þetta sjálf, heldur er ég bara viss um að það er fólk sem væri til í að vinna við þetta og fá greitt fyrir. Við Lalli fundum það líka út að sjálfsafgreiðslan sparaði ekki tíma, fólkið á næsta kassa var mjög lélegt að skanna til dæmis og það tók það ógnar tíma og á endanum þurfti það að dingla eftir hjálp sem setur auka álag á starfsfólk sem á eflaust ekki að þurfa að sinna afgreiðslu - af því að það er sjálfsagreiðsla. Í tölvubúðinni sem við fórum í fengum við þjónustu eftir ótrúlega langa bið - aðallega af því að búðin var svo stór að við fórum í marga hringi til að leita að starfsfólki - þegar við fengum þjónustu og báðum um ákveðinn prentara tók strákurinn upp grænan post-it miða og skrifaði nr. á hann og lét okkur hafa. Þá gátum við sótt prentarann og farið og borgað. Ég hafði heldur ekki mikið á móti þessu - heldur er þetta bara gott dæmi um þær breytingar sem verslun og þjónusta hefur gengið í gegnum sl. ár.

Ég vona að þegar við lítum á öll risa torgin sem hafa risið á Íslandi (sem sum hver eru jafn stór og þau sem þjóna um það bil milljón manns hérna í Bilbao) og öll tómu vöruhúsin sem áttu að selja endalaust magn af vörum... að við spurjum okkur hvort þetta sé þróun í rétt átt... Þurfum við kannski miklu frekar á nærsamfélagi að halda, verslun sem einkennist af samskiptum og raunverulegri þörf borgara?

Sunday, October 18, 2009

Gestir til Bilbao!

Þá er það opinbert - við ílengjumst á Spáni og verðum hér í Bilbao fram á næst haust að minnsta kosti. Ég fékk semsagt úthlutað leiðbeinanda fyrir Masters ritgerðina mína á föstudaginn sl. og var yfir mig glöð með þann sem varð fyrir valinu. Ég hafði nefnilega töluverðar áhyggjur af því að fá ekki góðan leiðbeinanda hérna í Deusto og þegar ég segi góðan þá á ég við einhvern sem hefur sérfræðikunnáttu á mínu sviði og ekki síst áhuga á því sem ég er að gera. Það er algjört lykilatriði að hafa manneskju með sér í liði - einhvern sem hefur einlægan áhuga á að leiðbeina manni og læra með manni. Leiðbeinandinn lofar góðu, hefur mikið unnið með borgaravitund, lýðræði, menntamál, raddir ungmenna, fjölmenningu og fleira tengdu því sem ég hef í huga fyrir ritgerðina. Nú er bara að krossa putta og vona að við vinnum vel saman og að ritgerðin fái gott start.

Fyrsti körfuboltaleikurinn hjá Lárusi fór vel - Santuxtu vann og Lalli fékk smávegis spilatíma. Körfubolti eins og flest annað á sér sínar menningarlegu hliðar og ég held að mín persónulega upplifun af þessum fyrsta leik hafi verið menningarlega tengd að einhverju leyti. Mér fannst bæði spilamennska, áhorfendur og dómgæsla einkennast af miklu skapi, hrópum og köllum og æsingi. Nú er ég ýmsu vön og á mína spretti á leikjum (til dæmis kallaði ég einu sinni svo hátt inn á völlin að Kristinn nokkur körfuboltadómari svaraði mér fullum hálsi upp í stúku og eftir það hefur heldur lækkað í mér rostinn) en mér hálf blöskraði æðibunugangurinn og æsingurinn á fyrsta leiknum. Ég veit ekki alveg hvernig á að lýsa þessu en eins og ég segi held ég að þetta sé frekar bundið menningu og minni eigin upplifun en því endilega hvernig körfubolti var spilaður í þessum leik. Það kom mér til dæmis "spánskt fyrir sjónir" (góður djókur ha?) að áhorfendur virtust ekkert endilega vera með á nótunum hvers konar spilamennska gæti komið sér vel þá og þá stundina heldur kölluðu eingöngu "venga, venga, triple" í hvert skiptið sem einhver fékk boltann. Sem útleggst sem "koma svo, þriggja stiga". Skipti þá engu máli hver var með boltann, í hvaða leikkerfi eða við hvaða aðstæður. Lalli var líka spurður eftir leikinn af hverju í ósköpunum hann væri alltaf að GEFA boltann. "skjóttu bara". Já já svo getur bara verið að þessi leikur hafi spilast svona og við sjáum hvað setur. Hvernig þetta kemur til með að þróast og svo framvegis. Á jákvæðum nótunum þá er til dæmis líka alltaf klappað og stappað og hrópað húrra fyrir þeim sem koma með góð tilþrif inni á vellinum og skiptir þá engu frá hvoru liðinu aðilinn er. Það finnst mér alveg meiriháttar og til eftirbreytni!

Um helgina fengum við síðan þær gleðifréttir frá Íslandi að við eigum von á gestum hingað til Bilbao í byrjun nóvember. Við erum vægast sagt að kafna úr spenningi og hlökkum mikið til að taka á móti góðu fólki og eiga með þeim enn betri stundir. Það að eiga von á vinum sínum setur líka nauðsynlega og góða pressu á mig að vera dugleg að læra og koma eins og tveimur ritgerðum í gott far áður en snillingarnir Halla og Bjöggi mæta á svæðið.

Njótið komandi viku!

Monday, October 12, 2009

Lítill heimur

Hversdagslífið í Bilbao gengur sinn vanagang með ýmsum uppákomum þó.

Lárus er á góðri leið með að verða fullgildur meðlimur í basknesku körfuboltadeildinni sem ég held að heiti Liga Autonomico. Liðið sem hann ætlar að byrja að spila með heitir Santuxtu og er svona á íslenskan mælikvarða eins og meðal efstu deildar lið. Liðsfélagarnir eru hressir og skemmtilegir strákar sem eru allir af vilja gerðir til að koma okkur inn í lífið hérna í Bilbao. Þeir eru meðal annars að aðstoða Lalla við að finna vinnu. Annars erum við frekar róleg í tíðinni og ætlum að tileinka okkur slatta af þolinmæði því góðir hlutir gerast hægt.

Síðasta laugardag heimsóttum við höfuðborg Baskalands, Vitoria Gasteiz sem er mun frekar stjórnarfarsleg höfuðborg frekar en menningarleg höfuðborg. Í Vitoria er stjórnsýslan, í Bilbao er menningin og í San Sebastian er maturinn. Annars sáum við ekki mikið meira en aðalgötuna og að sjálfsögðu körfuboltavöllinn þar sem liðið hans Lalla fór með sigur af hólmi í öðrum leik sínum í vetur. Á sunnudaginn fór Lárus síðan að sjá Bilbao Basket leggja Granada að velli. Það er ótrúlega skemmtileg upplifun að fara á leiki hérna því höllin tekur um það bil 15.000 manns og það er mikið show sem fylgir heimaleikjunum.

Í síðustu viku vorum við minnt hressilega á það hvað heimurinn er í raun og veru lítill. Lalli fór í læknisskoðun til að fá leyfið sitt fullgilt og situr inni hjá lækninum að reyna að gera sig skiljanlegann á spænsku þegar kemur að aðstoðarlæknir og spyr hvort hann geti hjálpað til með tungumálið. Lalli fer að spjalla við hann á ensku og maðurinn spyr hvaðan hann sé. Þegar Lalli svarar að hann sé frá Íslandi verður maðurinn himinnlifandi og hrópar upp yfir sig að það sé uppáhalds landið hans. Hann fer þá að spyrja Lalla hvað hann sé að gera og þegar Lalli segir að hann sé að spila körfubolta og vanti heilsuvottorð þá horfir hann í smá stund á Lalla og spyr svo: Heitir kærastan þín Eva?

Lárus horfði vitanlega hálf grunsamlega á manninn og spurði hann hvernig í ósköpunum hann vissi það. Þá vildi svo skemmtilega til að ég hafði verið í sambandi við mann að nafni Carlos í gegnum e-mail síðan í vor. Birna sem ég var að vinna með í Íslandsbanka á Selfossi kom mér í samband við hann þar sem hann býr í Bilbao og elskar allt sem viðkemur Íslandi. Hann var því búinn að gefa mér góð ráð í gegnum e-mail í nokkrar vikur en við höfðum ekkert hisst. Það var því hálf skondið að hann skildi hafa hitt á Lalla svona algjörlega óvænt og lagt saman tvo plús tvo. Í Bilbao býr um það bil ein milljón manns svo þetta var heldur betur tilviljun fannst okkur!

Wednesday, October 07, 2009

Gamalt og nýtt - myndir úr Lalla Iphone


Eva og Bilbao köngulóin


Síðasta trúnóið í bili



Ottó og Birkir Smári




Calle Urasurrutia



Svanga



Valdimar Rokkari


Kjötbúð í Bilbao



Sætu hjónin Janus og Tinna




Eva í Casco Viejo



Frigg og Eva



Sóldís Lára og Birkir Smári



Kobbi og Tinna



Margrét Rós

Tuesday, October 06, 2009

*pása*

Eftir að hafa skrifað langt kvörtunarblogg um vöntun á hausti hér í suðrinu þá fékk ég auðvitað að kenna á því sem venjulega kemur með haustinu - kvef eða Gripe eins og það kallast hér. Ég er með stíflað nef og hálsbólgu sem er í engu samræmi við hitann og huggulegheitin úti. Það er ekki alveg í takt að sjúga upp í nefið og hósta í stuttbuxum og hlýrabol. Þegar maður er með kvef á maður að "passa sig á að verða ekki kalt". Hahahaha það var þá! En ég fékk hins vegar frekar formlega kvörtun á facebook í dag um að ég talaði alltof mikið um veðrið og gráðufjölda í því samhengi. Ég hef því sagt skilið við þessa umræðu og héðan í frá verður hvorki bloggað né statusað um veðrið.

...ég hætti örugglega að blogga þá?



Annars erum við ennþá södd og sæl eftir yndislegu San Sebastian ferðina okkar sem var farin síðasta laugardag. Veðrið lék við.... nei djók!! Borgin er einstaklega aðlaðandi og hefur upp á ótal margt að bjóða. Við eigum vafalaust eftir að fara þangað aftur og eyða lengri tíma. Borgin er ólík Bilbao að því að leyti að hún er yfirfull af ferðamönnum enda laðar hún að sér fólk frá öllum heimhornum. Við Lárus höfum hins vegar komist að því að ferðamenn og túristar eru ekki sama fólkið og það eru engir túristar í San Sebastian. Ferðamenn eru fólk sem ferðast til að komast í snertingu við eitthvað einstakt, satt og upprunalegt. Túristar eru meira á höttunum eftir bestu tilboðunum, skyndibitamatnum, fjöldaframleiddu Gucci úrunum eða stolnu Prada töskunum, gula bananabátnum eða froðudiskótekinu. Með þessari greiningu erum við samt sem áður ekki að leggja einn einasta dóm yfir túrista eða túristastaði.


Í San Sebastian eru hins vegar hvorki túristar né túristastaðir. Í San Sebastian eru ferðamenn sem ganga eftir ströndinni og fylgjast með sjómönnunum fiska í soðið. Fólk á ferðalagi sem grandskoðar og smakkar litríkt og dularfullt pinxtos. Fólk sem vill læra að biðja um heimagerða vínið á spænsku - eða jafnvel basknesku. Ferðamenn sem kíkja forvitnir inn á litla reykmettaða bari þar sem tíu gamlir karlar standa í hnapp með rauðar kinnar og alpahúfur. Fólk á ferðalagi sem dregur í sig menninguna og heimafólk sem, uppfullt af stolti og með bros á vör, leiðir gesti og gangandi í allan sannleikann um San Sebastian og baskenska menningararfinn.