Afrek ársins! Jæja kannski er ég full dramantísk en afrek var það engu að síður. Við Lárus lögðum upp í ansi langa göngu í bæ einum sem kallast Bakio. Bærinn sjálfur hefur kannski ekki upp á svo ýkja margt að bjóða en ströndin þar er jafn falleg og á öðrum stöðum við norður strönd Spánar sem og þessi forláta og ægifagra leið sem við löbbuðum. Leiðin liggur upp gríðarmikið og að því er virðist endalaust fjall. Útsýnið er það sem dregur óvana göngugarpa eins og mig áfram. Það er gengið í hlíðinni og því er útsýni yfir ströndina og atlantshafið alla leiðina. Dagurinn í gær var upplagður í svona göngu þó svo að það hefði verið í heitara lagi - þá var heiðskírt og því einstakt útsýni yfir í næstu firði og alveg út að ystu sjónarrönd eins og segir í laginu. Kirkjan San Juan sem var áætlaður áfangastaður og tröppurnar 300 sem ganga þurfti til að komast upp að henni var hins vegar ekki síðri en útsýnið á undan og því var það algjörlega þess virði að leggja á sig síðasta spölinn upp.
Við skötuhjú gerumst nú æ sterkari í þeirri trú að norður strönd Spánar sé engu lík og þarfnist mun nánari skoðunar, tíma og athygli okkar. Á meðan sumarið endist okkur ætlum við að halda áfram að fara í stuttar dagsferðir hingað og þangað um norður Spán og næsta vor gefst okkur síðan vonandi tími til að fara í lengri ferðir, kanna svæðið nánar og kynnast landi og þjóð enn betur. Ég hélt vitaskuld áður en við fluttum hingað að ég þekkti Spán ansi vel. Ég hef komið ágætlega víða og Spánn er jú einu sinni hluti af Evrópu -að minnsta kosti landfræðilega séð- Spánverjar sjálfir og sérstaklega þeir sem búsettir eru hérna í Baskalandi tala hins vegar um Evrópu oft á tíðum eins og Íslendingar gera. "Já þarna í Evrópu þá gera þeir þetta svona". Eins og landið þeirra tilheyri ekki Evrópu, eins og að í Evrópu sé allt annað kerfi og allt önnur menning. Það er svosem ágætlega mikið til í því hjá þeim - rétt eins og hjá Íslendingum sem finnst mörgum hverjum oft ansi erfitt að finna Evrópubúan í sjálfum sér.
Það kom hins vegar á daginn að ég þekki Spán ekki neitt. Ég þekki aðeins til hinnar klassísku staðalmyndar af Spáni og norður Spánn er svo sannarlega ekki hluti af þeirri staðalmynd. Hér er ekkert "olé, olé" ekkert "mañana, mañana" og allra síst flamengo eða nautaat. Hér býr frekar alvarlegt fólk sem vingast ekki endilega við hvern sem er og tekur ókunnugu fólki með fyrirvara. En þegar það eignast vini þá er það fyrir lífstíð er sagt. Hér er mikil og sterk ástríða fyrir mat. Fólk lifir til að borða í stað þess að borða til að lifa. Fólki hér er líka annt um fjölskylduna sína og sunnudagar eru heilagir fjölskyldudagar. Trúin er sterk og Jesúítar í meirihluta en það er aldrei þannig að trú sé þröngvað upp á fólk í daglegu tali. Trú er persónuleg og fólkið hér virðir friðhelgi einkalífsins og þína persónulegu hagi í topp. Þegar ég segi "fólkið hér" á ég vitaskuld við það fólk sem við höfum kynnst hér í Bilbao en ekki alla basknesku þjóðina eins og hún leggur sig - hana þekki ég ekki.
Fyrir utan einstaklega vinalegt fólk sem er allt af vilja gert en þó laust við alla yfirborðskennd eða tilgerð, matinn sem smakkast hættulega vel og vínið sem er bæði ódýrt og gott þá er náttúran eitthvað sem kom okkur mest á óvart. Grænar hlíðar í bland við himin bláan sjó og stórskornar klettastrendur er auðvitað himnaríki líkast. Ég gæti auðveldlega vanist því að heimsækja nýjan smábæ á hverjum degi hér bara til þess eins að sitja á ströndinni og dáðst á útsýninu - svo framarlega sem ég kæmist öðru hvoru inn á troðfullan, skemmtilegan og heimilislegan bar sem byði upp á framandi og exótískt pinxtos og txakoli - þá yrði ég sátt við guð og menn.