Wednesday, September 30, 2009

Haust

Það er ekki margt sem minnir á Ísland hér í Bilbao og sjóðheitir septemberdagar hafa ruglað mig örlítið í ríminu að undanförnu. Ég hef enn ekki komist í hinn alrómaða "skólagír" sem bærir nú yfirleitt á sér með haustinu. Ég lít að jafnaði tvisvar sinnum á hitamælinn hjá apótekinu sem sýnir yfirleitt um 25 gráður þegar ég geng fram hjá honum á morgnana og tilfinningarnar sem fylgja svitanum sem lekur niður bakið á mér þegar ég bíð eftir sporvagninum eru blendnar.

Ég hef nú uppgötvað að ástæðan fyrir tilfinningalegu uppnámi mínu er sú að ég hef hvorki komist í tæri við haustværð né volæði þrátt fyrir að það sé 1. október á morgun. Haustværð og volæði hafa nefnilega að mínu mati, heilmikið að segja um lundarfar og skapgerð Íslendinga í um það bil þrjá til fjóra mánuði á ári. Tímabilið er mislangt en markast yfirleitt af endalokum verslunarmannarhelgarinnar og "feidar" út um jólin þegar við erum öll hvort eð er svo upptekin af einhverju allt öðru en því sem við ættum að vera upptekin af.

Haustværðinni fylgir því að kveikja á kertum og hafa það huggulegt á meðan vindurinn blæs úti fyrir og regnið slær á rúðurnar. Með haustværðinni hugsar fólk inn á við, þakkar fyrir lítið ljós í glugga og kúrir með sínum nánustu. Veðrið hefur þau áhrif að fólk þjappar sér saman, skipuleggur það sem þarf að gera heima við eða bara hitar sér kaffi og les bækur. Haustvolæðið lætur yfirleitt bera á sér þegar fer að draga nær jólum og lýsir sér í pirrings- og þunglyndisköstum yfir "helvítis grenjandi rigningu" og "djöfulsins roki". Í haustvolæði leyfist manni líka að hanga heilu dagana og gera ekki neitt eða eyða peningum í óþarfa hluti eins og áskrift að Stöð 2 eða einstaka sólarlandaferð, allt í nafni þess að bjarga geðheilsunni.

Á síðastliðnum mánuði hef ég gert ýmislegt sem svipar til þess að ég finni fyrir annað hvort haustværð eða volæði. Ég hef til dæmis gert mér ferð í IKEA til að kaupa hið árlega "haustdót" sem felst í óþarfa koddum, kertum og teppum. Eftir langa íhugun ákvað ég hins vegar að sleppa flísteppinu þetta árið enda var ég ennþá rennblaut af svita eftir að hafa setið í óloftkældum strætisvagni í um það bil 20 mínútur til að komast í IKEA. Ég keypti hins vegar kodda, ilmkerti, kertastjaka og 100 sprittkerti. Púðarnir líta ágætlega út í sófanum en hafa aðallega verið nýttir sem sessur á elhússtólana sem eru helst til harðir. Kertin fóru í stjaka en hafa lítið sem ekkert verið notuð sökum sólar og hita. Í síðustu viku dró ég reyndar fyrir hlerana á öllum gluggum í íbúðinni, slökkti ljósin og kveikti á kertunum - það var bara ansi nálægt því að vera huggulegt. Ég er eins og flest aðrir samlandar mínir að lesa sænsku tríólógíuna og hef reynt að mastera haustværðina með því að hjúfra mig upp í sófa með heitt kaffi og spennandi sögu en gefist upp og ég er búin að setja bókina á pásu í smá stund. Ég hef líka reynt við volæðið. Ég kvartaði til dæmis ógeðslega yfir því að skólinn væri til klukkan sjö um daginn (en það var vegna þess að ég vildi komast í sólbað). Síðan blótaði ég spænskutímunum aðeins um daginn en Lalli setti upp svo mikinn hneykslunarsvip að ég át það allt ofan í mig alveg um leið.

Spænska haustið er því eins og þið sjáið afar vafasamt og ruglar íslenskar sálir alveg í ríminu. Hér dugar hvorki að gerast áskrifandi að stöð 2 (enda er Lárus illa hamingjusamur með allar íþróttirnar sem eru sýndar frítt í sjónvarpinu hérna) eða kaupa sólarlandaferð til að bjarga geðheilsunni. Ég verð víst bara að gera mitt besta til að aðlagast aðstæðum - eða lesa nokkra íslenska facebook statusa á dag sem innihalda flestir einhvern vott af haustværð eða volæði.

Friday, September 25, 2009

Á Calle Urazurrutia

...er verið að henda í eitt kósýkvöld. Inglorious bastards komin á tölvuskjáinn og búið að færa til húsgögn til að mynda "mest kósý sjónvarpsstemmingu" sem við höfum haft í langan tíma að mati Lárusar. Kveikt á kertum, snakk og bjór og plusssófi - gerist það eitthvað betra?

Njótið helgarinnar!

Wednesday, September 23, 2009

...

Í Bilbao rignir að meðaltali um 250 daga á ári var mér sagt í gær. Í dag er hins vegar 27 stiga hiti og flennisól. Verst að ég var í skólanum frá níu til hálf sjö í dag og þannig verður morgundagurinn líka á morgun.

Lárus komst loksins á körfuboltaæfingu eftir að hafa verið hlekkjaður við skrifborðið í hálfan mánuð. Honum brá heldur betur í brún þegar hann mætti á æfinguna þar sem aðstæðurnar voru vægast sagt "Harlem like" - spilað á steingólfi og hann mætti heim eftir æfingu með sprungna vör en bros allan hringinn, sáttur með að fá loksins að sprikla. Nú hefur hann líka fyrst tíma til að líta í kringum sig og koma sér inn í hlutina hérna.

Ég er búin að tala meiri dönsku heldur en spænsku held ég síðan ég kom út. Í skólanum mínum eru nokkrir Erasmus nemendur frá Kaupmannahöfn og alveg stukku á mig þegar þær vissu að ég hefði verið í Kaupmannahöfn líka.... "ahhh du taler altso dansk ikke"... í sporvagninum í dag voru síðan týndir túristar frá Danmörku sem ég aðstoðaði örlítið og þau þökkuðu mér í bak og fyrir og aumkuðu sig í leiðinni yfir "den krise krise".

Well búðin kallar... ætla að skella mér í stuttbuxur og njóta síðdegissólarinnar.

Tuesday, September 22, 2009

Mánudagur til meistaragráðu

Meistari Lárus, meistari Lárus, sefur þú, sefur þú!! Hvað slær klukkan, hvað slær klukkan, hún slær þrjú....

Veit ekki ekki af hverju klukkan sló þrjú í þessu eftirminnilega leikskólalagi en Jakobi hefur verið skipt út fyrir Lárus í textanum að ofan auk þess sem klukkan slær nú eitt um nótt aðfaranótt þriðjudags - í gær (mánudag) skilaði MEISTARI Lárus nefnilega MA ritgerðinni sinni og hlaut þar með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum með áherslu á þróunarmál og íþróttir. Hann skrifaði sérdeilis áhugaverða og skemmtilega ritgerð upp á fjölmargar síður sem skilaði honum að lokum meistara titli, kampavínsskál og góðum kvöldverði í kvöld.

Mánudagur á þessu heimili í Baskalandi er svo sannarlega ekki til mæðu heldur til Meistaragráðu!! ekki amalegt það.

Saturday, September 19, 2009

Það rignir

eldi og brennisteini hérna í Bilbao. Eins og veðrið getur og hefur verið gott síðast liðna daga og vikur þá getur sko aldeilis rignt hérna á Norður Spáni. Þá er bara um að gera að ylja sér við tóna frá Ellý Vilhjálms og kertaljós hérna á U. 11 í gamla bænum.

Við skelltum okkur reyndar rétt áðan í miðnæturgöngutúr til að geta sagst hafa farið eitthvað út á sl. sólarhring. Erum annars búin að vera ansi mikið heima fyrir og ástæðurnar eru margþættar. Í fyrsta lagi er netið komið heim til okkar og við þurfum lítið sem ekkert að fara út (eigum fullt í ískápnum). Í öðru lagi þá er Lárus hálf límdur við tölvuna enda styttist veeeerulega í skil - mánudagsmorgun verður þetta víst að vera tilbúið og ég sem sjálfsskipaður yfirlesari hef auðvitað margt um ferlið að segja (aumingja Lalli). Þriðja ástæðan er sú að ég er búin að vera með stanslaust mígreni síðan á miðvikudag. Rétt svo að ég sjái út um augun um kvöldmatarleytið og fram að miðnætti og svo tekur við eitthvert rugl mígreni. Ég ætla að tékka á því hvernig spænsk læknisþjónusta virkar ef þetta fer ekki að skána. Læt þetta ráðast um helgina.

Annars er Brad Pitt mættur til San Sebastian og er örugglega bara að bíða eftir mér svo ég þarf að láta mér batna fljótt. Við stefnum á að fara á fimmtudag eða föstudag!! :)

Sunday, September 13, 2009

Við erum happý!

Við skötuhjú sitjum enn og aftur á netkaffihúsi í Casco Viejo í Bilbao.

Casco Viejo er hverfið sem við búum í og er eins og nafnið gefur til kynna elsti hluti borgarinnar. Borgin sjálf var stofnuð árið 1300 af kappa sem heitir Don Diego Lopez og heitir aðalgata borgarinnar í dag eftir honum. Hverfið sem við búum í er algjör andstæða við nýju og nútímalegu Bilbao sem hefur byggst upp í kringum fjármálahverfið og Guggenheim safnið. Báðir hlutar borgarinnar hafa þó sinn sjarma að mínu mati. Fjármálahverfið og hverfið í kringum Guggenheim safnið eru konfekt fyrir augað og sérstaklega fyrir þá sem aðhyllast nútímaarkitektúr og hafa gaman af mögnuðum og nær ómögulegum byggingum. En gamli hlutinn hefur líka að geyma magnaðar byggingar, meðal annars tvær kirkjur frá því í kringum 1300 og stærsta yfirbyggða ferskmarkað í Evrópu - La Ribera. Akkúrat í augnablikinu er verið að gera markaðinn algjörlega upp og ég hlakka mikið til að sjá hvernig til tekst. Sérstaklega þar sem markaðurinn sést beint út um stofugluggann minn.

Veðrið hefur leikið við okkur síðan við komum og það er sannkallað indian summer hér í borg. Hitinn hefur ekki farið undir 25 stig og hæst fór hann upp í rúm 40 stig en það gerist nokkrum sinnum á sumri þegar svokallaðir Foehn vindar blása frá fjöllunum í kring. Það var magnað að finna hvernig hitinn hækkaði um ca 10 gráður þegar vindurinn blés inn dalinn og lækkaði jafn fljótt aftur þegar lægði.

Um leið og Lárus lýkur við MA ritgerðina er síðan stefnan tekin á að ferðast örlítið víðar en um eigið hverfi (ekki það að okkur líki ekki bara ágætlega að ferðast um gamla bæinn). San Sebastian verður fyrst fyrir valinu og ætlum við að eyða nokkrum dögum þar, borða sérlega góðan Baskneskan mat og jafnvel kíkja á nokkrar vel valdar kvikmyndir þar sem við dettum akkúrat inn á Film Festival borgarinnar sem haldið er einu sinni á ári og líkist nokkuð því sem fer fram í Cannes í Frakklandi.

Ákvað að pósta nokkrum myndum (af netinu) til að sýna fjölbreytileika borgarinnar :)

Metróinn í Bilbao er ódýr, hreinn og ótrúlega fallega hannaður af Sir Norman Foster.

Guggenheim safnið er algjört meistarastykki og eiginlega hálf ótrúlegt hús. Sérstaklega fallegt þegar sólin skín á það en jafn skemmtilegt á rigningardegi þegar reykur rýkur upp úr stéttunum í kring og myndar ótrúlega mistíska og dulúðuga stemmingu.

Í Casco Viejo er yndislegt klassískt spænskt torg sem að spænskum sið hefur fjórar byggingar eða húsaraðir í kringum sig. Á þessu torgi er alltaf líf og fjör. Á sunnudögum er opin flóamarkaður þar sem fólk kemur og selur og kaupir alls konar dót og glingur. Alla aðra daga iðar allt af lífi og elstu og virtustu pinxtos = tapasbarir bæjarins eru staðsettir á torginu.



Skemmtileg mynd af götunum í Casco Viejo sem upprunalega voru 7 og er enn vitnað til Casco Viejo sem hverfis hinna sjö gatna.


Markaðurinn góði sem er verið að gera upp. Við hinn endann má sjá glitta í eina af fyrstu kirkjum borgarinnar og á því horni var borgin stofnuð. Við kirkjuna er að finna afskaplega fallega brú og sé gengið yfir þá brú má finna götu strax á vinstri hönd sem kallast Calle Urazurrutia og þar í húsi nr. 11 má finna Lárus og Evu, gleði og glaum og jafnvel rauðvín úr héraði og ferska osta af markaðnum í boðinu.

Hlökkum til að sjá ykkur!


Monday, September 07, 2009

Mánudagur um allan heim

Það skiptir víst litlu máli hvar maður býr í heiminum, á endanum er það hversdagurinn sem tekur við af ljúfa lífinu. Kaffihúsaferðum og rauðvínsglösum fækkar og við tekur venjulegur skóladagur og ritgerðarskrif. Það sem er þó að einhverju leyti óvenjulegt við lífið þetta haustið er hitinn og sólin sem skín framan í okkur Lárus á hverjum morgni.

Spænskupróf í morgun og síðan spænska á hverjum degi í þrjár vikur frá og með miðvikudegi. Nú er bekkurinn minn samansettur af rúmlega 20 krökkum frá bæði DPU háskólanum í Kaupmannahöfn og IOE í London og það verður skemmtileg tilbreyting að fá London krakkana með í hópinn og ég hef góða tilfinningu fyrir þessum vetri – ef vetur skyldi kalla.

Við erum hæstánægð með íbúðina okkar og þá helst hversu vel hún er staðsett. Ég hef síðan sannfært Hr. Jónsson um að koma með mér í ævintýraför (IKEA) á laugardaginn næsta. Eftir það verður íbúðin án efa orðin kósý og viðkunnaleg. Við ætlum meðal annars að skoða hvort okkur bjóðist rúm eða dýna á góðu verði þar sem rúmið sem við höfum deilt síðustu viku er nákvæmlega 98 cm á breidd og 185 cm á lengd. Ég var að enda við að mæla það til að vera viss um hvað við gætum látið okkur dreyma um bæta við mörgum sentimetrum. Plássleysið hefur samt sem áður ekki háð okkur það mikið enda er það er okkur Lárusi nú sem oft áður til happs og lukku hvað við erum ástfangin og ánægð með hvort annað!!! Ókei kannski líka það að við erum ekkert sérlega hávaxin eða fyrirferðamikil.

Styttist óðum í að Lárus verði meistari í alþjóðsamskiptum og við stefnum á rómantíska ferð til San Sebastian í tilefni áfangans!!


Sunday, September 06, 2009

Sunnudagur á Plaza Nueva...

Á torginu er fullt af fólki að njóta septemberblíðunnar.

Götulistamenn kasta keilum og standa á höndum. Á milli súlnanna á torginu spila börn fótbolta og elta hvort annað. Bæði fullorðnir og börn skiptast á fótboltamyndum. Skrifa skiptin niður á blað, leita að eigulegum myndum og blanda geði við hóp af fólki í sömu erindagjörðum.

Hinu megin á torginu eru seld gæludýr, páfagaukar, hamstrar, hænur, mýs, íkornar og kisur. "Vale, vale, vale" heyrist úr flestum áttum. Hér er líka hægt að fá fornbækur og gamla tónlist, plötur og plötuspilara. Ferðamenn, heimamenn, börn, unglingar og gamalmenni. Krúttlegastir finnst mér litlu gömlu karlarnir sem ganga um með staf og baskahúfur sem líkjast stórum frönskum alpahúfum.

Við horfum á fólk, njótum sólarinnar og drekkum kaffi :)

Thursday, September 03, 2009

Takk fyrir allar yndislegu heillakveðjurnar - þær virkuðu!!!

Við Lárus röltum á milli staða - rauðvínsglas hér - pintox þar. Stemmingin er öðruvísi, skemmtileg, afslöppuð og umfram allt heillandi.

Allar heillaóskirnar skiluðu sér yfir hafið og rúmlega það! Við fundum auglýsingu í háskólanum, hringdum í vinalegt fólk og gerðum leigusamning sama daginn. Fólk á aldur við mömmu og pabba (jafn ung semsagt) sem vilja allt fyrir okkur gera. Íbúðin er minni en allar íbúðir sem við höfum áður búið í (og þær eru nokkrar) en hún hentar okkur fullkomlega. Hún er nýleg, hrein og hefur allt til alls. Staðsett í Casco Viejo sem er afskaplega heillandi hluti borgarinnar, fullt af veitingastöðum, iðandi mannlífi og menningu. Fyrir utan gengur sporvagn beint í skólann minn.

Við hlökkum til að kynnast borginni og hvort öðru upp á nýtt - því nýtt umhverfi býður upp á endalaus ævintýri og nýjungar.

p.s. Það er ennþá stuttbuxna-veður ;)