Tuesday, July 07, 2009

Úrhelli

Vorum að koma inn. Röltum út á Godthabsvej og náðum okkur í sushi og japanskan bjór, borðuðum úti í garði. Rétt náðum að kyngja síðasta bitanum þegar við urðum að hlaupa inn undan þrumum og eldingum. Nú rignir eins og hellt væri úr fötu. Samt er hlýtt og gott. 

Eftir að við fluttum hjóla ég í og úr vinnu. Góð hreyfing í góðu veðri - 12 km fram og til baka. 

Við erum búin að gjalda fyrir alla útiveruna síðast liðna daga. Erum bæði tvö með risa bit á fótunum. Frekar útlandalegt en síður huggulegt. Lalli sagðist bara sáttur með að einhverjum fyndist hann svona girnilegur. Mér finnst hann alveg girnilegur - bít hann samt afar sjaldan. 

Ég var sökuð um að tala íslensku með dönskum hreim um daginn. Sagði aðeins of oft "jaaaaaá jaaaaá" og "nohhh" (lesis með semingi og aukinni tónhæð í lokin). Greinilega komin tími til að flytja í annað land :) 

Frederiksberg / Nörrebro er fínn staður að búa á. Ég á þá eiginlega bara eftir að búa niðrí bæ og í Austurbrú til að fullkomna hringinn. Væri meira til í að búa niðrí bæ. Kannski í Austurbrú þegar ég þarf að arka um með tvíburavagninn....  -alveg í framtíðinni sko- 

Við erum bæði búin að fá fyrstu íslands-nostalgíuna (heimþrá) okkar. Ég kom að Lalla um daginn þar sem hann var að hlusta á Ísland er land þitt hálf klökkur (ekki segja honum að ég hafi skrifað þetta). Ég kom líka hálf skælandi til hans um daginn og heimtaði mömmu og pabba, útilegur, kókómjólk, sundlaug, bjartar sumarnætur, íslenskt sumar og graslykt. 

En öll él birtir upp um síðir og við styrkjumst og öðlumst aukna reynslu á öllum ferðalögunum. Sjóndeildarhringurinn víkkar og það verður sífellt auðveldara að sjá hlutina í stærra samhengi. Eins og einn prófessorinn minn sagði við mig í dag. "You become global". Ég er honum hjartanlega sammála. Auk þess held ég að öll þessi hnattræna eða global reynsla við Lárus höfum verið að viða að okkur - og komum vonandi til með að gera áfram - sé einstaklega mikils virði á svo margan máta. 

Fyrir utan þann augljósa kost að við ættum að styrkja samkeppnishæfni okkar á vinnumarkaði (svo maður noti soldið 2007 talsmáta) þá höfum við bæði rætt það að við erum líka að styrkjast og þroskast sem manneskjur í fjölþjóðasamfélagi. Fyrir utan allar frábæru minningarnar, upplifanirnar og lífsreynsluna sem við eigum eftir að deila - um ókomna tíð.   

5 comments:

Anonymous said...

já sammála þér í þessu Eva, ég sé alltaf eftir að hafa ekki gert þetta meðan ég var barnlaus. Þó að maður getur alveg farið með þau núna, þá er það einhvern vegin meira mál. Njótið lífsins og hvors annars til hins ýtrasta.

kv
Láretta

Lalli og Eva said...

Sæta þú!!! Takk og já auðvitað getur maður farið með börn en að sjálfsögðu er líka gott að geta verið bara tvö og tekið snöggar ákvarðanir og leyft sér ýmislegt sem maður gerði kannski ekki með börn.

Gangi þér vel í lærdómnum... Lalli er með þér í anda - situr hérna inni í sólinni og skrifar.

Valgý Arna said...

hhmmm já bjartar sumarnætur.... dóttir mín neitar að fara að sofa, segir að það sé ekki nótt, það er jú ennþá sól. Væri nú stundum alveg til í smá myrkur, svona á meðan að hún er að fara að sofa allavega... já eða bara fjárfesta í myrkvagluggatjöldum, það er kannski bara málið :)

Eva Hardardottir said...

Hahaha var einmitt að hugsa þegar ég sá statusinn þinn á facebook um daginn að það hefði verið sú litla sem fyndist eflaust bara ennþá dagur og neitaði að fara að sofa...!! Klassískt íslenskt sumarvandamál fyrir íslenska foreldra.

Myrkvagluggatjöld bara ;)

Unknown said...

KNÚS:)