Hér á bæ verður heimilisfólkið afar sjaldan veikt enda veðrátta með eindæmum góð þrátt fyrir einstaka rigningardaga og hressilegar vindhviður. Ein slík braut reyndar stóra grein af mun stærra tréi í garðinum okkar um síðustu helgi með þeim afleiðingum að greinin féll á trampólínið hennar Heru Fannar og reif það í sundur. Það var frekar leiðinleg uppgötvun en vonandi finnum við viðgerðarmann eða konu hér í borginni.
En semsagt... ég var að hreykja mér af almennum hraustleika fjölskyldunnar sem hefur varla fengið kvef síðan við fluttum til Malaví. Staðföst í þeirri trú að ég verði aldrei veik dró ég það því í nokkrar vikur að fara til læknis vegna óþæginda í eyra. Í nokkrar vikur, núna bráðum þrjá mánuði, var ég - og er enn - með reglulega hellu fyrir hægra eyra. Þegar ekkert lát virtist á þessum óþægindum drattaðist ég semsagt loksins til læknis. Aðallega þó til að fá úr því skorið hvort að eitthvað kvikt hefði tekið sér bústað í eyranu... Læknirinn sem ég heimsótti starfar á einkarekinni læknastofu í hverfinu mínu (sem þykir með því fínna hér í borginni). Hann var ekki við þegar ég kom en hjúkkurnar sem tóku á móti mér sögðust kalla hann á vakt. Á meðan við biðum eftir lækninum tók við hefðbundin skoðun þar sem ég var vigtuð, hitamæld og blóðþrýstingsmæld (SOP). Þegar læknirinn kom leit hann út fyrir að hafa verið truflaður við síðdegslúrinn sinn, úti í garði, því hann var bæði hálf illa áttaður og í félagsskap nokkurra maura sem skriðu um á skyrtukraganum hans. Ég greindi frá hellunni í eyranu og hann tók óðara til við að reyna að leita að einhverjum græjum til að skoða inní eyrað. Eftir mikið fum og fát við brotnar og batteríslausar græjur segir hann við mig: tækin á þessari stofu eru bara til sýnis, ekki til notkunar. Síðan teygði hann sig í eintak af gömlu dagblaði sem lá á borðinu hans, rúllarði því upp í lítinn kíkir og dró svo nýlegan snjallsíma upp úr mauraskyrtunni. Potaði svo dagblaðinu inní eyrað á mér og lýsti með símanum. "In Malawi you improvise" sagði hann og hvað upp þann dóm að ég væri með smá sýkingu og kannski vatn í eyranu. Ràðlagði sýklalyf og malaríupróf - ég afþakkaði bæði og er enn með hellu.
Aðrar læknisheimsóknir fjölskyldunnar hafa tengst væntanlegri viðbót í fjölskylduna. Við erum mjög sátt við læknirinn okkar þar. Hann starfar líka á einkarekinni læknastofu sem er afar þægilega staðsett við hlið heimilis íslenska sendiherrans, sem bakar heimsins bestu vöfflur... Læknirinn hefur yfir að ráða afar öflugu sónartæki sem gefur færi á að reikna út ýmislegt eins og stærð, hlutföll og aldur barnsins. Í þriðju skoðun, um það bil á 21. viku, ákváðum við að spyrja lækninn út í kyn barnsins. Ástæðan var einna helst sú að við vildum geta undirbúið stóru systur sem virtist ekki halda að það væri líffræðilegur möguleiki á því að barnið yrði neitt annað en "stúlka, stelpa eða girl" eins og hún sagði sjálf. Læknirinn skoðaði barnið vandlega og sagðist næstum því 100% viss um að Hera hefði haft rétt fyrir sér því þetta væri lítil stelpa. Við urðum voða glöð og ræddum það við Heru sem aðstoðaði við að finna nafn á litlu systur. Í fyrradag héldum við fjölskyldan öll saman í síðustu sónarskoðunina hér í Malaví, áður en við höldum heim. Læknirinn var ánægður með gang mála og sagði okkur að líklegast væri ég gengin aðeins lengra en hann hafði reiknað með upphaflega og bætti svo við: "Þetta er að verða stór strákur..."
Ha! ...já við vorum búin að tala um kynið var það ekki?
Það er skemmst frá því að segja að gera varð hlé á sónarskoðuninni því ég hló svo mikið á bekknum hjá honum. Hann þóttist nú alveg handviss um kyn barnsins og benti okkur á lítið typpi því til sönnunar (hefði getað verið hné, olnbogi eða bara hvít skella á sónarmyndinni í mínum augum). Við tóku heimspekilegar umræður við Heru Fönn á leiðinni heim sem enduðu reyndar mjög kasúalt á því að Hera sagði: Mamma ég var bara að grínast þegar ég sagðist ekki elska lita bræður ég geri það líka, við skulum skíra hann Zorró (sem síðan breyttist í Kári, af augljósum ástæðum, og síðan í Fagur).
Við erum himinlifandi með hvort kynið sem er og erum reyndar á þeirri skoðun að kannski er bara best að sjá til hvað verður þegar barnið kemur í heiminn. Ég hugsa að èg fari líka til læknis vegna hellunar í eyranu fljótlega eftir að við komum heim.
2 comments:
Hahahaha það er svo sannarlega óvissuferð að kíkja í læknisheimsóknir í Malaví, alltaf eitthvað spennandi sem kemur fram :) Það þýðir víst lítið annað en að bíða bara eftir krílinu til að sjá hvort verður...
Kv.Hugrún
hahahahah þetta er stórkostlegt! ;) segir manni alltaf samt aftur og aftur að kynið skiptir ákkurat engu máli! En spennandi og það verður gaman að bæta í strákahópinn okkar! Knús í hús og heyrumst!!!
Kveðja (batman) Elfa strákamamma!
Post a Comment