Tuesday, November 26, 2013

Þakklæti fyrir leikskólana!

Í morgun lögðum við extra snemma af stað í leikskólann hennar Heru Fannar (Rainbow!) til þess að móðirin gæti einstaka sinnum farið með barnið í leikskólann og komið í veg fyrir þann misskilning (eða óskhyggju) af hálfu leikskólakennaranna að Lárus sé einstæður faðir. Á leikskólanum er ekki skortur á leikskólakennurum eins og heima á Íslandi - ó nei aldeilis ekki. Ef ég ætti að giska myndi ég halda að það væri ca 1 kennari á 1--2 börn. Síðan eru það ráðskonurnar, konan sem opnar hliðið á morgnanna, maðurinn sem stýrir bílaumferðinni á bílastæðinu, fólkið sem sér um dýrin, byggingarnar, garðana.... and the list goes on. Reyndar er aðeins minna lagt upp úr prófgráðum og ég held að eini menntaði leikskólakennarinn sé leikskólastýran sjálf. En hvað sem menntun líður er starfsfólkið allt óksaplega vinalegt, barnvænt og kann sitt fag. Hera Fönn byrjar daginn sinn á að fara í stóra úti/inni stofu sem er full af leikföngum og þar er frjáls leikur í morgunsvalanum. Hún hefur síðan val yfir daginn um ótal afþreygingu og leik. Hún lærir líka markvisst um stafina, formin og litina. Í leikskólanum eru söngstundir, útivera, þemadagar og allt það sem við tengjum við gott leikskólastarf. Ég er óskaplega þakklát fyrir að hafa fundið leikskóla sem við erum öll ánægð með. Leikskóla sem aðstoðar okkur foreldrana við uppeldið á barninu okkar. Veitir okkur fullorðna fólkinu ákveðið frelsi (til að sinna vinnu og heimili) og barninu tækifæri til að umgangast jafnaldra í skipulögðu og örvandi starfi. 

Hér í Malaví gerum við okkur hins vegar óhjákvæmilega grein fyrir því að við erum í hópi afar fárra og útvaldra sem hafa efni á og aðstæður til að njóta slíkra forréttinda. Það er alls ekki gefið að koma barninu sínu í leikskóla og þessi tiltekni skóli sem Hera Fönn er í er dýrari en leikskólar heima á Íslandi verða nokkurn tíman. Í Malaví fá einungis rétt tæp 30% barna leikskólaþjónustu af einhverju tagi. Þegar ég segi "þjónstu" þá á ég ekki við það sem ég taldi upp hér að ofan. Nei það er langur vegur frá. Einu almennu leikskólarnir í Malaví eru nefnilega eingöngu reknir af sjálfboðaliðum í hverju samfélagi fyrir sig og eru því afar óstöðugir og tilviljunarkenndir. Tilkoma þeirra er engu að síður gríðarleg viðbótarþjónusta við Malavískar konur sem annars eru bundnar börnum sínum allan daginn og verða þar af leiðandi langflestar af tækifærum til vinnu eða menntunar. Reyndar vinna allar konur hér sama hvað börnum líður - þær binda bara börnin á bakið fyrstu þrjú árin og halda áfram að strita. Af því leiðir að meirihluti barna hér í Malaví nær ekki fullkomlegum líkamlegum þroska, hæð eða þyngd. Leikskólarnir umræddu eru kallaðir Community Care Centers og eru í raun og veru frekar nýir af nálinni. UNICEF hefur unnið að því síðastliðin ár að styrkja þessa þjónustu með ýmsum hætti. Til að mynda hafa verið haldin námskeið fyrir konurnar sem starfa sem sjálfboðaliðar í leikskólunum. Þá hefur verið reynt að styrkja ákveðinn fjölda skóla með grunnaðbúnað eins og drykkjavatni og klósettaðstöðu.

Það sem mér finnst hins vegar vera ein af stærri vörðum í átt til gæðaleikskólamenningar og bættrar stöðu og heilsu barna hér í Malaví eru svo kallaðir Early Learning Development Standards eða staðlar fyrir þroska ungra barna. UNICEF hefur á undanförnu ári aðstoðað jafnréttisráðuneytið og menntamálaráðuneytið við að þróa og gefa út slíka staðla. Staðlarnir eru til þess ætlaðir að hafa opinber viðmið um hvað þykir eðlilegt fyrir börn að geta, kunna eða afreka á hverju aldurskeiði fyrir sig. Heima á Íslandi þykir okkur þetta sjálfsasgt og jafnvel oft á tíðum jaðra við afskiptasemi. Vaxtakúrvan og þroskaprófin umdeildu eru til að mynda hluti af svona stöðlum. Við getum leyft okkur að gera grín að þroskaprófunum og ypta öxlum þegar börnin okkar (til að mynda barnið mitt) fylgir ekki kúrvunni en ástæðan fyrir því að við getum leyft okkur að taka slíka staðla misalvarlega er hið ótrúlega góða kerfi sem umlykur börnin okkar. Við vitum með nokkurri vissu að ólíkar stofnanir og aðilar fylgjast með því að barnið okkar þroskist og dafni á heilbrigðan hátt allt frá fæðingu. Ef að frávika verður vart eru ótal leiðir færar og ýmiskonar þjónusta í boði til þess að gera líf barnanna okkar betra hvað varðar jöfn tækifæri og gæði. Við höfum auk þess aðgengi að ógrynni af upplýsingum - sjálf var ég áskrifandi að upplýsingaveitu á netinu (www.babycenter.com) sem sendi mér aldurstengdar upplýsingar frá fæðingu Heru Fannar og til dagsins í dag. Mörg börn Í Malaví deyja af því að foreldrar þeirra og umönnunaraðilar einfaldlega vissu ekki betur, gátu ekki betur eða kunnu ekki betur.

Nú. Hvert er ég að fara með þessu? Einfaldlega í þá átt að þrátt fyrir að hægt sé að finna gloppur eða vankanta á kerfinu á Íslandi (og að sjálfsögðu má alltaf gera betur) þá ber okkur samt að þakka fyrir það að hafa fæðst inn í samfélag þar sem kerfið er til þess gert að halda utan um hvert barn sem fæðist. Þar sem menntun og fræðsla er á því stigi að við teljum okkur oft vita betur en kúrvan eða vaxtarprófið (sem er oft raunin). Og síðast en ekki síst fyrir að hafa aðgengi að sérsniðinni aðstöðu í formi leikskóla og þar innan hámenntuðu og metnaðarfullu starfsfólki (þetta leyfi ég mér að segja þar sem ég þekki slíkt fólk afar persónulega) En því miður er það svo að hér í Malaví þar sem slíkum mannauð eða aðstöðu er ekki fyrir að fara gætu slíkar upplýsingar og viðmið orðið barni til lífs. Ef að til að mynda móðir eða umönnunaraðili í leikskóla rekin af sjálfboðaliðum í afksekktu þorpi í Malaví fær haldbærar upplýsingar og fræðslu um eðlilegt holdarfar, heilsu og getu barna á tilteknu aldurskeiði og getur brugðist við frávikum með tilheyrandi leiðum er víst að framtíð barna í Malaví er bjartari. 

7 comments:

Elín said...

Frábær pistill. Gaman að lesa. Það sem ég er óendanlega þakklát fyrir að vera íslendingur. Það lærði ég í Svíþjóð þegar við kynntumst innflytjendum þar og eru aðstæður þeirra ekki sambærilegar þeim Malavísku.

Anonymous said...

Úff manni langar bara að taka næstu vél með fullt af efni til fyrirlestra og fræðslu og reyna að gefa e-ð af sér til þeirra. Ég er sko endanlega þakklát fyrir leikskólann hans Baltasars og ýmis forréttindi sem við njótum hér þó að ýmislegt sé hægt að bæta. En þrátt fyrir það erum við í töluvert betri sporum en meiri hluti fólks þarna úti hjá ykkur. Mikið er ég glöð að UNICEF fékk konu eins og þig Eva mín til liðs við sig sem á svo sannarlega eftir að skila góðu verki og vildi ég glöð geta lagt e-ð af mörkum annað en mánaðarlega greiðslu til félagsins.
Takk fyrir frábæran pistil og fræðslu, kys og kram :*
Kv.Hugrún

Anonymous said...

Takk fyrir góðan pistil gullið mitt.

Kv, Júlía

Sif Sturludóttir said...

Takk elsku Eva fyrir að deila þessu með okkur.
Knús og kossar
Sif

Unknown said...

Fékk smá sting í hjartað við að lesa þetta og horfi á Katrínu Lilju sem nýtur alls hins besta í lífinu. Þrátt fyrir að vera fullkomlega heilbrigð á minn mælikvarða þarf ég samt að koma með hana í "auka" vigtun slíkt er eftirlitið á Íslandi!

Torfi Stefán said...
This comment has been removed by the author.
Anonymous said...

Góður pistill Eva!

Bkv. Magga