Á Íslandi skín sólin, vindurinn blæs og fjölskyldan er falleg. Við erum í stuttu stoppi heima við vegna fráfalls afa hans Lárusar og það er himneskt að koma heim í lyktina af nýslegnu grasi, faðm fjölskyldunnar og fá að kveðja afa gamla á Valló hinstu kveðju.
Það var engu að síður hálf skrýtið að skilja mömmu og pabba eftir í íbúðinni okkar í Vesterbro og fara heim til Íslands svona skyndilega. Við áttum yndislega viku með þeim þar sem við slökuðum vel á og sóluðum okkur í sannkölluðu Spánarveðri, fórum á Amagerströnd, lágum í leti í görðum borgarinnar, borðuðum á frönskum og dönskum veitingastöðum og nutum lífsins. Eftir nokkra daga er síðan von á stórfjölskyldunni hans Lárusar sem ætla að sækja okkur heim á þjóðhátíðardaginn.
Í dag var elsti fjölskyldumeðlimurinn kvaddur en á morgun fær sá yngsti nafn þar sem Lárus fær þann heiður að vera skírnarvottur og guðfaðir. Já gleðin og sorgin eru systur í þessu lífi og báðar viðstaddar í þessari stuttu heimsókn okkar til landsins í þetta skiptið.
3 comments:
Eldra líf kvatt og glaðst yfir nýju, svona er víst lífið.
Það væri yndi að fá nokkrar mínútur með þér, hringdu í mig ef þú átt þær aukalega áður en þú ferð :)
Kv, Guðrún
Gaman að sjá ykkur á klakanum, þið eruð alltaf jafn yndisleg.
kv Láretta frænka
Alveg rétt Guðrún... átt fimm mínúturnar inni hjá mér og ég hjá þér!
Takk sömuleiðis Láretta - yndislegt að hitta ykkur.
Post a Comment