Friday, October 03, 2008

Svona er lífið...

Ég vogaði mér í fyrsta skiptið í langan tíma inn á heimasíðu Glitnis og alla leið inn á netbankann minn. Sat síðan í smá stund og grenjaði og vorkenndi okkur ógeðslega mikið og fannst lífið ótrúlega ósanngjarnt. Fannst ég algjörlega bjargarlaus og í vonlausri stöðu. Fór síðan í skólann og kvartaði þar yfir þessari ótrúlegu krísu sem væri nú á Íslandi. Peningarnir mínir væru nánast einskins virði og ég skuldaði helmingi meira í dag en í gær. 

Bekkjarfélagar mínir horfðu á mig stórum augum og spurðu hvort ég hefði ALDREI upplifað smá peningakreppu? Ég svaraði náttúrlega mjög móðguð að þetta væri ekkert SMÁ Ísland væri að fara á hausinn. Þau horfðu á mig vantrúuð og spurðu hvort við værum ekki ein af best settu OECD þjóðunum (hérna er OECD kallað "the rich countries club"). Jú ég hélt það nú svona á flestum sviðum en það gæti nú aldeilis breyst núna ef þetta ástand héldi áfram. Ég sagði síðan í löngu og mjög tilfinningaþrungnu máli frá því að nú kæmist ég ekki heim um jólin eða í brúðkaup bestu vinkonu minnar, ég ætti ekki einu sinni peninga til að borga næstu leigu og þyrfti að biðja um meira lán sem ég vissi ekkert hvort ég fengi eða ekki og svo framvegis og ef ég fengi það væri það á okurvöxtum sem ég yrði örugglega allt mitt líf að borga niður. 

Æ Eva sögðu þau, mikið er yndislegt hvað þú kemur úr vernduðu umhverfi. Ég setti upp skeifu og hélt áfram að reyna að sýna fram á alvarleika málsins. Þau spurðu þá hvort það væri AIDS faraldur í landinu mínu, eða hvort það væri stríð, eða hvort það hefði yfir höfuð einhvern tíman verið stríð á Íslandi, eða hvort ég gæti ekki fengið fjölskylduna mína í heimsókn vegna þess að þeim væri neitað um visa, eða hvort ég ætti bræður sem þyrftu að fara í herinn til að deyja fyrir "ættjörðina"....

Ég reyndi að snúa upp á mig en var á endanum réttilega farin að þakka fyrir að eiga foreldra sem komast fyrirhafnarlaust í heimsókn til mín, fyrir að þurfa ekki að taka þátt í stríði, fyrir að vera ekki með AIDS og fyrir að eiga heima í ótrúlega góðu landi þrátt fyrir allt og allt - og trúið mér, mér finnst þetta ekki réttlætanleg eða ásættanleg staða enda búin að skæla nokkrum sinnum í síðustu viku yfir þessu hörmungarástandi. Sem er þó í samanburði við margt annað ekki svo slæmt og kemur vonandi til með að ganga yfir á endanum. 

7 comments:

Anonymous said...

Við erum bara svo góðu vön og stoltið það mikið að við eigum erfitt með að kyngja því að það sé virkilega eitthvað að hjá OKKUR á þessu frábæra landi. Auðvitað eigum við að þakka fyrir að hafa það ekki verr... ég hef allavega reynt að hugsa þannig alla þessa viku, ég get þó allavega ennþá keypt bensín, mat, farið í ræktina og hitt fjölskylduna.... enginn með AIDS, enginn í stríði og allir frekar stutt frá okkur :)

Kv,
Guðrún

Lalli og Eva said...

Jamm nema það er alveg hægt að grenja fullt yfir því að komast kannski ekki í brúðkaup aldarinnar!! Nú horfi ég sakbitnum augum á ykkur á hverjum degi þar sem þið brosið framan í mig af ískápnum (fékk kortið í dag það er æði)!!

Anonymous said...

Vá hvað póstþjónustan er góð hjá Dönum bjóst ekki við að þú fengir þetta strax en bara frábært.... ekki hafa samviskubit!! En getur fólk ekki sameinast um að gefa ykkur.... eða þér bara Icelandair punktana sína, hvort sem er enginn að fara að nota þá á næstunni ;)

Lalli og Eva said...

Hvernig væri það!! Stofnum Facebook grúppuna "Eva og Lalli heim í brúðkaup" svona grínlaust það væri nú gott mál. Verst að mamma og pabbi nota sína punkta í næstu viku til að koma að heimsækja okkur.

Anonymous said...

Bara að minna þig á það elsku Eva mín að þið eruð búin að missa af brúðkaupi aldarinnar með þessu eilífa flakki ykkar !!!!
Hérna á H1 er mikill söknuður að fá ykkur ekki í mat og kósý,,, viðbyggingin er alveg að smella og allt að gerast í kreppunni....
luv MUS

Magga said...

Já, held ég það sé virkilega erfitt að vera námsmaður í útlöndum þessa stundina - finn virkilega til með þér Eva mín! En frábært samt að þú skulir vera með svona alþjóðlega skólafélaga sem minna mann á það að lífið gæti alltaf verið aðeins verra. :)

Ég vona að þetta bjargist hjá ykkur, knús Magga

Anonymous said...

Hæ Eva!

Æ hvað þetta var nú gott blogg hjá þér. Dásamlegt að vera minntur á hvað við höfum það nú ofboðslega gott hérna þrátt fyrir öll áföllin sem dunið hafa yfir.
Verð samt að segja að námsmenn erlendis eiga samúð mína alla. Hvað ég er fegin að vera ekki í þeirri stöðu í dag.
Votta þér samúð mína vegna afa þíns.
Hafið það gott.
Með kærri kveðju,
Guðrún Hvergerðingur