Sunday, October 12, 2008

lífið og tilveran

Þá held ég að það sé löngu orðið tímabært að koma nokkrum stöfum á blað. Við höfum að sjálfsögðu verið einstaklega upptekin af kreppunni, gjaldeyris- og gengismálum og þeirri staðreynd að allir reikningarnir okkar voru frystir af dönsku bönkunum og ekki séns að millifæra íslenska peninga síðustu daga. En eins og ég hef sagt áður og ætla að halda fast í þá erum við samt ótrúlega heppin þjóð. Fyrir utan þær náttúruauðlindir sem við eigum (sem ég vil nú sem minnst þurfa að ganga á) þá eigum við líka bara ótrúlegan mannauð og því má ekki gleyma. Við eigum vel menntað fólk á öllum aldri. Allir kunna að lesa, allir eiga kost á ókeypis menntun og með slíkt bakland eigum við svo vel að geta komist í gegnum þetta ástand.

Já nú set ég punkt um þessi málefni öll - aldeilis búið að ræða þetta hérna í danska landinu fram og til baka og allir sammála um að það sé lítið hægt að gera annað en að vera bjartsýnn.... og fara síðan að leita sér að vinnu til eiga fyrir næstu leigu ;)

Það er nú líka þannig að lífið minnir sífellt á hversu hverfult það er og síðasta mánudag var dagurinn hans afa runnin upp. Lífið tók heldur betur U beygju þar sem ég stóð í háskólagarðinum í 18 stiga hita, sól og blíðu, með brosið út að eyrum eftir vel heppnaðann fund með kennaranum mínum og fékk síðan símhringingu um að afi hefði dáið. Ef ég byggi yfir ofurkröftum þá hefði ég hugsað mig heim á Ísland strax til að geta haldið utan um ömmu mína sem er að missa annan helminginn af sjálfri sér og knúsað mömmu mína sem er að missa pabba sinn. En einu ofurkraftarnir sem ég þekki eru lífið sjálft sem tekur og gefur til skiptist og við fáum yfirleitt engu ráðið um það hvenær við fáum eða hvenær við missum.

Nú erum við semsagt á leið heim til Íslands til að kveðja afa. Eins og ég skrifaði á bloggið mitt þá ætla ég að strjúka honum um skallann og kúra í hálsakotið hans í síðasta sinn. Ég legg af stað heim á fimmtudagskvöldið næsta og Lárus kemur á mánudeginum helgina eftir. Mestur tíminn fer í að knúsa fjölskylduna en ef einhver tími gefst til þá hittum við kannski á vinafólk...

Þessar tvær vikur hafa semsagt verið nokkuð rússíbanakenndar hjá okkur. Lárus meiddist á læri (fékk högg á lærvöðvann) fyrir um það bil tveimur vikum síðan og hefur ekki enn spilað leik í deildinni. Fyrsti leikurinn var á laugardaginn síðasta og leikur nr. tvö er í dag. Við vonum að hann verði orðinn betri fyrir þriðja leikinn sem er á sunnudaginn eftir viku. En hann er í sjúkraþjálfun, nuddi og góðri meðferð svo vonandi liggur leiðin bara upp á við. Hann er allavega farin að geta haltrað um en fyrst í stað þurfti að biðja leigubílstjóra að bera hann inn og út úr bílnum... svo hann er nú allur að koma til kallinn :)

Vona að lesturinn hafi ekki verið of niðurdrepandi því í raun veru erum við bara nokkuð góð og sátt með lífið og tilveruna. Allt hefur sinn gang og reynslan hefur kennt mér að það er mitt hlutverk í lífinu að reyna að gera það besta úr hverjum degi og öllum þeim aðstæðum sem við erum í. Við ráðum ekki við lífið en við ráðum svo sannarlega hvernig við tökumst á við það.

Knús á ykkur öll
E + L

5 comments:

Anonymous said...

Knús á ykkur líka frá okkur
Bjarney og Haddi

Anonymous said...

Elsku Eva mín samhryggist þér og þínum innilega. Ef þið hafið tíma þá eruð þið alltaf velkomin í heimsókn á Holtsgötuna.

ástarkveðjur og knús MUS og co

Eva Harðardóttir said...

takk snúllur við reynum sko pottþétt að finna tíma til að koma og knúsa ykkur öll!

Anonymous said...

hæhæ.. ég verð að hrósa þér fyrir alveg frábært blogg. gaman að heyra hvað þú hugsar jákvætt og tekur hlutunum með ró.. það skilar sér .. hef víst reynslu af því sjálf.. en hafðu það gott á Íslandi.. njóttu þess að vera með fjölskyldunni.. knús
kveðja
Ína Björg

Eva Harðardóttir said...

Takk Ína mín!!