Monday, July 23, 2007

La vida!!

Erum á fullu að undirbúa ferðina okkar með Guðrúnu og Viðari. Við erum klárlega búin að ofhugsa hana alltof oft og komin í marga hringi. Aumingja Guðrún og Viðar - við sendum þeim nýjar tillögur á hverjum degi. Höfum hingað til verið fullviss í fávisku okkar um það að við gætum ferðast til þriggja landa og á að minnsta kosti 5 staði. Verðum hins vegar að viðurkenna vanmátt okkar og draga verulega úr ferðaáætluninni.

Kemur allt betur í ljós á næstu dögum. Höfum fengið mörg góð ráð og erum komin með efni í margra mánaða ferðalög um suður ameríka. Álfan öll sem og landið Argentína hefur líka svo sannarlega fangað hug okkar og hjörtu og við gerum plön fyrir áframhaldandi ferðalög um Suður Ameríku á hverjum degi.

Fórum í fyrsta tangótímann okkar í gær. Heldur betur upplifun þar sem kennarinn var frábært karakter í alla staði. Ekta argentískur anarkisti sem finnst að tangóinn í dag sé orðinn að mafíu. Hann kyssti okkur rembingskossi þegar við löbbuðum inn og er mjög tilfinningaríkur og mikill karlmaður. Við vorum hundléleg en þetta var mun skemmtilegra og meira genuin upplifun heldur en tangótíminn okkar í Köben síðasta sumar. Þarna vorum við að dansa inn í pínulitlum sal á þriðju hæð í eldgömlu húsi. Umkringd myndum af frægum dönsurum og tónlistin var spiluð af plötuspilara - ekta klassísk tangólög. Tíminn gekk út á allt annað en að læra spor eða fiman fótaburð. Kennaranum var mest í mun um að við næðum vel saman og lét okkur faðmast innilega og hálf kela á gólfinu þangað til að hann var ánægður. Þrátt fyrir afar augljósa byrjendaörðugleika skemmtum við okkur frábærlega og ætlum pottþétt aftur. Ég hafði á orði við kennarann að tangóinn væri erfiður dans. Hann horfði hvasst á mig - dökkum argentískum augum og sagði: No! Tango no es difícil. La Vida es difícil. Endurtók svo með miklum þunga eins og aðeins reyndustu menn geta gert. LA VIDA!!

Við fórum síðan seinna um kvöldið (eða réttara sagt um miðja nótt, klukkan rúmlega 4) á mun léttvægari tangóstað. Sá staður var algjörlega frábær og við vorum hálf svikin að vera ekki með myndavélina á okkur. Förum samt pottþétt aftur og reynum að ná stemmingunni á filmu. Staðurinn leit nákvæmlega eins út og gamalt félagsheimili úti á landi. Risa stórt parketgólf með sviði fyrir endanum. Allt í kring voru stólar og borð. Staðurinn býður upp á gamalt rokk og diskó á milli þess sem spiluð eru 8 tangólög í röð. Þegar við komum inn var verið að dansa rokk og nokkrir frekar góðir dansarar en annars bara venjulegt fólk að hrista sig. Þegar tangóinn byrjaði hins vegar fylltist dansgólfið og fólkið breyttist allt í atvinnutangódansara - í mínum augum að minnsta kosti. Vinur okkar sem fór með okkur á staðinn (og er by the way mjög sleipur tangó dansari) plataði okkur út á gólfið og sagði okkur bara að fylgja næsta manni og ekki reyna neitt hættulegt!! Við vorum alveg eins og beljur á svelli að reyna að rekast ekki á alla sjóðheitu dansarana en meikuðum þó alveg heil fjögur lög. Þá panikaði ég og gat ekki meir!! Ég "dansaði" nú samt tvö aukalög við vin okkar. Eða með öðrum orðum hann dansaði og ég hreyfðist bara með :) Var samt frekar stolt af okkur Lalla svona eftir á að hyggja og við skemmtum okkur kongunglega. Mér varð nú bara hugsað til mömmu og pabba sem hefðu pottþétt fundið sig heldur betur vel á þessum stað!!

Jæja próf á morgun hjá okkur í skólanum - svona rétt til að athuga stöðuna. Hvort við erum ready í næstu bók eða hvort við erum ennþá bara í ruglinu. Vonum það besta - Suerte, suerte!!


Ekki vera feimin við að kommenta síðan, sérstaklega þið sem eruð kannski ekki í innsta hring. Skemmtilegast ef einhverjir fleiri en mamma og pabbi eru að lesa :)

No comments: