Þá erum komin heim frá Río de Janeiro - eða réttara sagt heim frá Sao Paulo.
Ferðin til Río de Janeiro var í einu orði sagt yndisleg. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því með orðum hversu fallegt borgarstæðið er og strendurnar eru gordjös. Við sóluðum okkur bæði á hinni fornfrægu Copacobana og líka á fjölskylduvænni og vinsælli Ipanama ströndinni.
Við vorum búin að lesa okkur til um Ríó og fá góðan skammt af varnarorðum frá öllum sem við töluðum við. Sömu helgi og við vorum í Ríó voru Pan American leikarnir sem eru nokkurs konar ólympíuleikar Suður Ameríku. Þess vegna var öryggisgæsla á afar háu stigi og vopnaðir hermenn gengu um göturnar á Copacobana. Við náðum einnig úrslitaleiknum í Cup America þar sem Brasilía burstaði Argentínu - okkur til mikillar mæðu.
Skoðuðum eitt af sjö undrum veraldar - styttuna af Jesú. Styttan stendur efst á fjallinu Corcovado og á Kristur að vaka yfir borginni. Það veitir kannski ekki af vökulu auga frelsarans þar sem Ríó er kölluð the crime capital of the world og við fengum þær upplýsingar að frá því um áramótin væri búið að myrða 1400 manns. Útsýnið er hins vegar glæsilegt og það var líka skemmtilegt að fylgjast með messu sem fór fram á bak við styttuna þar sem lítil kirkja hefur verið reist.
Fengum dágóðan skerf af útsýni í Ríó þar sem við fórum einnig upp á Pan de Azúcar sem myndi útleggjast á íslensku sem sykurreyrfjallið. Þar er ferðast upp mörg þúsund metra upp fjallið með tveimur kláfum. Ekki laust við að maður hafi fengið smá hroll á leiðinni upp þar sem kláfurinn liggur skuggalega nálægt fjallinu en upplifunin er alveg mögnuð.
Eftir fimm yndislega daga í Brasilíu héldum við heim á leið - við áttum fyrir höndum tæplega þriggja tíma beint flug til Buenos Aires um átta leytið um kvöldið. Eftir að hafa beðið til rúmlega 12 að miðnætti þá var okkur tilkynnt að flugvélin kæmi ekki að sækja okkur og við vorum því flutt á hótel. Flugvélin hafði þá átt að koma frá Sao Paolo en hafði þar eins og komið hefur fram í fréttum ekki náð að lenda á flugbrautinni, rann út af og lenti á bensínstöð. Þetta slys er eitt af þremur alvarlegum slysum hjá Suður Amerískum flugfélögum síðan 2001. Í slysinu fórust rúmlega 200 manns og í Brasilíu ríkir nú þriggja daga þjóðarsorg.
Eftir auka nótt í Ríó, margra klukkutíma bið á flugvellinum í Ríó og síðar á flugvellinum í Sao Paolo var okkur skilað heim til Buenos Aires frekar þreytt en ánægð að komast heil heim. Atvikið náði þó ekki að skyggja á ferðina nema rétt á meðan við skröngluðumst á milli hótela og flugvalla og svona rétt í lendingu - þar sem ég kreisti höndina á Lárusi extra fast.
Myndirnar koma hérna inn á eftir í einni salibunu og síðan er hægt að skoða fleiri myndir á flickr síðunni okkar FLERI MYNDIR
2 comments:
Hæ elskurnar mínar.
Mikið er gott að heyra af ykkur, fékk nettan sting þegar ég frétti af fluginu ykkar.
En hafið það gott.
Knús frá okkur til ykkar.
vá oft stutt á milli, hvað ef..össs þetta er/var hræðilegt slys
knús hildur og águst
Post a Comment