Þar sem þetta blogg hefur aldrei haft neinn sérstakan ristjóra, stíl eða tilgang annan en að færa fréttir af fjölskyldu sem flytur yfir meðallagi oft búferlum - hefur það fengið að fjalla um daglegt líf og vinnu í bland. Ég réttlæti vinnutengdar bloggfærslur byggt á töluverðri sannfæringu um að einhverjir lesendur hafi jafn mikinn áhuga og ég á menntamálum og lesi því ekki síður ítarlega, of langa og tæknilega pistla um þróunaraðstoð og skólamál.
Síðan ég hóf störf hjá UNICEF í september 2013 hefur menntamálaráðuneytið unnið að umsókn um styrk frá Global Partnership of Education (hef skrifað um þetta batterí áður en á
www.globalpartnership.org er hægt að læra meira). Umsóknarferlið er langt og strangt og að því koma flest allir sem vinna að þróunaraðstoð og menntamálum í landinu. Ég hef, ásamt yfirmanni mínum, haft hlutverk ráðgefanda aðili í gegnum umsóknarferlið og lært ótrúlega margt á þessum tíma. Nú er semsagt kominn heilmikill gangur í umsóknarferlið og styttist óðum í að aðalumsóknin, sem hljóðar upp á styrk að andvirði 44,5 milljónir bandaríkjadollara, verði lögð fyrir stjórn GPE (við stefnum á desember). Áður en hægt er að leggja inn umsókn af þessu tagi er ótrúlega margt sem þarf að vera til staðar í menntakerfinu.
Eitt af því sem er algjört frumskilyrði fyrir styrkveitingu frá GPE er tilvist menntaáætlunar til fimm ára. Okkur gæti þótt afar hversdagslegt og sjálfsagt að menntamálaráðuneyti búi yfir slíkri áætlun. En fyrir land eins og Malaví tók það bæði langan tíma og mikið erfiði að koma slíkri áætlun saman. Mikið af vinnunni minni árið 2013 og byrjun 2014 snérist einmitt um að útbúa, skrifa upp, leggja mat á og samþykkja slíka áætlun. Í dag er ég ótrúlega ánægð með að hafa fengið að vinna þessa vinnu, þrátt fyrir að oft á tíðum hafi mér fundist hún ganga fullhægt og erfiðlega fyrir sig.
Fyrir utan þá staðreynd að Malaví hefði ekki getað sótt um GPE styrkinn ef ekki hefði verið fyrir tilurð þessarar tilteknu stefnu og áætlun, hef ég líka orðið vitni að því hversu mikilvæg stefnumótunin var og er í tengslum við vinnulag og val á menntaverkefnum flestra stærri þróunaraðilanna hér í Malaví.
Þeir sem ekki hafa brennandi áhuga á stefnumótun gætu fussað og hugsað með sér hvernig á eitthvað plagg (sem örugglega enginn les) að breyta einhverju um raunveruleika barna í Malaví. Þurfum við ekki miklu frekar að fjölga skólastofum, mennta kennara og bjóða upp á skólamáltíðir. Jú við þurfum þess að sjálfsögðu... Reyndar þarf líka að mennta skólastjóra betur, bjóða upp á almenna símenntun, fá foreldra til þess að meta menntun umfram hjónabönd, tryggja öryggi allra barna í skólunum, útrýma líkamlegum refsingum, tryggja bækur í skólum, tryggja aðgengi að hreinu vatni, fækka nemendafjölda í hverjum bekk úr 150 í 30, sjá til þess að börnin læri raunverulega að lesa og svo framvegis og framvegis.
Það er nákvæmlega þetta sem er mergur málsins. Í landi eins og Malaví þar sem staðan í menntamálum er slík að það er ekki neitt eitt sem kemur til með að gera kraftaverk fyrir börn og möguleika þeirra á menntun þá skiptir í raun mestu máli að hafa stefnu um hvað skal gera. Skýr, einföld og raunhæf menntaáætlun sem gerir vel grein fyrir stöðu mála og forgangsraðar verkefnum í samræmi við ástandið er eitt það allra mikilvægasta fyrir menntamál í landi eins og Malaví.
Ráðuneytið hér í landi þarf nefnilega að sætta sig við það að eiga sama sem enga peninga. Það reiðir sig nánast að fullu á styrki frá hinum ýmsum velgjörðarsamtökum, stofnunum og þróunaraðilum. Þessir fjölmörgu aðilar og stofnanir (sama hvort þeir heita alþjóðabankinn, íslenska ríkið, USAID eða UNICEF) hafa oftast ákveðnar hugmyndir um hvað eigi að gera við peningana þeirra. Langoftast koma stofnanir með afar mótaðar hugmyndir eða jafnvel fyrirfram ákveðin verkefni að borðinu og bjóða þannig fram aðstoð undir mjög skýrum og oft á tíðum ósveigjanlegum formerkjum. Oftar en ekki vilja þróunaraðilar sanna ákveðna kenningu eða rannsóknarspurningu og vilja því gera eitthvað mjög afmarkað á litlu svæði, bjóða ákveðna aðstoð fram í tilteknum skólum eða setja af stað verkefni sem sinnir einhverju sem er efst á baugi og áhugavert að þeirra mati (gefa snjallsíma til dæmis).
Þetta er að mörgu leiti skiljanlegt þar sem þróunaraðilar hafa jú ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim sem veita peningana en þetta setur sárafátæk og oft á tíðum ekki mjög öflug ráðuneyti í töluverða klemmu. Það vita það flestir að of mörg markmið, mikill fjöldi verkefna og sundurleitar nálganir eru ekki vænleg leið til árangurs. Þetta er alltaf að koma betur og betur í ljós í öllu þróunarstarfi og get ég bent á
splunkunýja skýrslu NORAD á starfi alþjóðabankans og UNICEF í Malaví á árunum 2008 - 2011 sem dæmi.
Það er nefnilega gífurleg pressa á ráðuneytum í þróunarlöndum eins og Malaví að samhæfa og samræma þá aðstoð sem þeim býðst. Því miður hafa mörg ráðuneyti, menntamálaráðuneytið hér í landi þar á meðal, oftar en ekki afar litla burði til þess að gera það vel. Fyrir utan hefðbundin innanbúðar átök og pólitík þá vantar of sárlega skýra stefnu til þess að fara eftir og ráðuneytin eru oft á tíðum hrædd við að sveigja frá vilja þeirra sem bjóða fram aðstoð af ótta við að missa af peningunum. Forgangsröðunin verður lítil sem engin og ráðuneytin eiga erfitt með að ákveða hvert skal haldið.
Ef maður veit ekki hvert maður ætlar, þá er engin leið að komast þangað.
Þetta hefur því miður verið raunin hér í landi þar sem menntamálaráðuneytið hefur, að mínu mati, ekki veitt nægilega skýra stefnu eða stjórn þegar kemur að vali á verkefnum sem hinir ýmsu þróunaraðilar stinga upp á og framkvæma. Niðurstaðan er sundurslitið og ósamræmt menntakerfi þar sem úir og grúir af litlum verkefnum sem hafa litla eða enga tengingu við hvort annað eða þann veg sem menntakerfið er að reyna að feta.
Nú þegar ég sit fundi með ráðuneytinu og nokkrum af stærstu þróunaraðilum í menntamálum í landinu fyllist ég ákveðinni von. Stefnuáætlunin sem við unnum hörðum höndum að (oft var ráðuneytið við það að gefast upp og hætta við) á tímabilinu 2013 til 2014 er í raun og veru að breyta heilmiklu um það hvernig helstu þróunaraðilar í menntamálum í landinu vinna saman og að hverju er nú stefnt í tengslum við framvindu menntakerfisins. Menntaáætlunin sem nú er til staðar hefur (þrátt fyrir ýmsa vankanta) lagt grunn að afar ríflegum styrk GPE og öllu því prógrammi. Það verkefni tekur sem dæmi algjörlega mið af þeim forgangsatriðum sem ráðuneytið útlistaði í stefnu sinni til næstu fimm ára. Þegar jafn háum styrk og GPE styrkunum (fimm og hálfur milljarður íslenskra króna) er varið í afar skýr forgangsatriði í menntamálum er von til þess að áþreifanlegur árangur náist. Ekki bara það, heldur er líka óhjákvæmilegt fyrir alla þá þróunaraðila sem vilja að peningum sínum sé vel varið - það er að segja varið í heildarmyndina en ekki sértæk og óaðskilin verkefni, að samræma sín verkefni og styrki einnig að þeim forgangsatriðum sem menntastefna landsins bendir á. Ég er algjörlega á þeirri skoðun að sé ekki unnið fyrst og fremst eftir stefnu stjórnvalda í hverjum málaflokki fyrir sig (og þá er ég ekki að tala bara um gróflega heldur eins nákvæmlega og unnt er) með tengingu verkefna og ráðuneytið í ökusætinu er enginn möguleiki á sjálfbærri þróun mála.
Eitt af því fjölmörgu sem ég er búin að læra á sl. tveimur árum í vinnu minni sem menntasérfræðingur hér í Malaví er að samvinna og samhæfing aðgerða er eitt það allra mikilvægasta til þess að eiga möguleika á árangri sem endist. Þess vegna getur oft verið þörf á að eyða miklum tíma í að leggja góðan grunn. Grunn að forgangsröðun og grunn að því að hægt sé að samhæfa og samræma verkefni til þess að ráðuneytin geti orðið sjálfbær með þau á endanum.
Fyrir þá sem hafa ekki fengið nægju sína af þróunarhjali er hægt að kíkja á nýju
Sustainable Development markmiðin sem leggja einmitt gífurlega áherslu á sjálfbærni, samvinnu og samhæfingu þegar kemur að þróunaraðstoð og samvinnu.