Sunday, October 25, 2015

Forsetalínan

Litla fjölskyldan í Malaví hefur nú flutt búferlum innan borgarinnar. Við fluttum um hverfi og erum nú búsett í hverfi 12 í húsi númer 571. Við erum afskaplega sæl og sátt með flutningana sem voru frekar skrautlegir og án nokkurs vafa þeir allra óskipulögðustu. En allt hafðist þetta og viku seinna má segja að nánast allt sé komið á sinn stað... það þykir heldur betur gott hér í Malaví og meira að segja líka ef miðað er við íslenskan tíma :) 

Eitt af því sem stórbatnaði við flutningana er aðgengi okkar að rafmagni. Staðan er nefnilega þannig hér í landi að rafmagnsveitan skammtar íbúum borgarinnar rafmagn. Iðulega birtast auglýsingar í blöðunum þar sem tekið er fram hvenær tiltekin hverfi í borginni eiga að búast við rafmagnsleysi. Smá saman hefur okkur lærst að treysta sem minnst á þessar tilkynningar og búast frekar við því að rafmagnið sé yfir höfuð ekki á nema rétt fram að hádegi (þegar maður þarf minnst á því að halda). 

Byggt á þessari reynslu okkar úr hverfi 43 lögðum við sérstaka áherslu á að koma rafalnum okkar (auka rafstöð sem keyrir ljósin og ísskápinn í rafmagnsleysi) í stand í nýja húsinu. Við eyddum bæði tíma og peningum í að láta tengja hann sérstaklega þannig að við gætum startað honum innan úr húsi því ég er lítið fyrir það að fara út í kolniða myrkri til þess að snúa tryllitækinu í gang. 

Nema hvað, ég þori varla að skrifa þetta... viku seinna hefur ekki verið rafmagnslaust í eina mínútu (sjö, níu, þrettán og ég lamdi í borðið). Ástæðan ku vera sú að húsið okkar liggur á svo kallaðri forsetalínu sem þýðir að ef rafmagnið er tekið af okkar línu þá fer það af í forsetahöllinni líka. Það er því nánast óskrifuð regla að ef forsetinn er staddur í Malaví og á heimili sínu þá helst rafmagnið á þessari línu.

Þvílíkur lúxus að geta hitað kaffi, kveikt á viftunni, lýst upp kvöldin, hlustað á útvarpið og hlaðið símann án nokkurs vafsturs eða vesens. 

Nú vonum við bara að herra forseti fari ekki í löng ferðalög á næstunni...  

Saturday, October 17, 2015

Að eignast milljón og eitt barn...

Hugarheimur fjögurra ára stúlkna er jafnan afar frjór og skemmtilegur. Hera Fönn heldur okkur foreldrunum við efnið með því að spyrja krefjandi spurninga og ígrunda hin ólíkustu málefni. Þessa dagana er hún staðráðin í að eignast mörg börn. Helst milljón. Eða milljón og eitt, eftir að hún uppgötvaði að milljón er ekki stærsta tala í heimi. Við ræddum þessar fyrirhuguðu barneignir um daginn út frá hinum ýmsu hliðum. Ég spurði hana meðal annars hvernig hún ætlaði að hafa tíma fyrir öll börnin. Því svaraði hún til að hún yrði með fullt af fólki til að aðstoða sig. Hún gæti til dæmis sent börnin reglulega í pössun og þá helst yfir matartímann því þá yrði örugglega mjög flókið að vera með mörg börn í einu. Sjálf hafði hún örlitlar áhyggjur af baðferðum barnanna en sagðist bara ætla að eiga sundlaug og þá væri ekkert mál að setja þau öll í bað í einu. Þegar ég síðan spurði hvort hún héldi ekki að hún yrði þreytt á að vera stanlaust ófrísk því það væri nú ekkert grín - þá sagði hún kæruleysislega: iss mamma ég get bara ætleitt slatta af þessum börnum.  

Saturday, October 10, 2015

Þar sem þetta blogg hefur aldrei haft neinn sérstakan ristjóra, stíl eða tilgang annan en að færa fréttir af fjölskyldu sem flytur yfir meðallagi oft búferlum - hefur það fengið að fjalla um daglegt líf og vinnu í bland. Ég réttlæti vinnutengdar bloggfærslur byggt á töluverðri sannfæringu um að einhverjir lesendur hafi jafn mikinn áhuga og ég á menntamálum og lesi því ekki síður ítarlega, of langa og tæknilega pistla um þróunaraðstoð og skólamál.

Síðan ég hóf störf hjá UNICEF í september 2013 hefur menntamálaráðuneytið unnið að umsókn um styrk frá Global Partnership of Education (hef skrifað um þetta batterí áður en á www.globalpartnership.org er hægt að læra meira). Umsóknarferlið er langt og strangt og að því koma flest allir sem vinna að þróunaraðstoð og menntamálum í landinu. Ég hef, ásamt yfirmanni mínum, haft hlutverk ráðgefanda aðili í gegnum umsóknarferlið og lært ótrúlega margt á þessum tíma. Nú er semsagt kominn heilmikill gangur í umsóknarferlið og styttist óðum í að aðalumsóknin, sem hljóðar upp á styrk að andvirði 44,5 milljónir bandaríkjadollara, verði lögð fyrir stjórn GPE (við stefnum á desember). Áður en hægt er að leggja inn umsókn af þessu tagi er ótrúlega margt sem þarf að vera til staðar í menntakerfinu.

Eitt af því sem er algjört frumskilyrði fyrir styrkveitingu frá GPE er tilvist menntaáætlunar til fimm ára. Okkur gæti þótt afar hversdagslegt og sjálfsagt að menntamálaráðuneyti búi yfir slíkri áætlun. En fyrir land eins og Malaví tók það bæði langan tíma og mikið erfiði að koma slíkri áætlun saman. Mikið af vinnunni minni árið 2013 og byrjun 2014 snérist einmitt um að útbúa, skrifa upp, leggja mat á og samþykkja slíka áætlun. Í dag er ég ótrúlega ánægð með að hafa fengið að vinna þessa vinnu, þrátt fyrir að oft á tíðum hafi mér fundist hún ganga fullhægt og erfiðlega fyrir sig.

Fyrir utan þá staðreynd að Malaví hefði ekki getað sótt um GPE styrkinn ef ekki hefði verið fyrir tilurð þessarar tilteknu stefnu og áætlun, hef ég líka orðið vitni að því hversu mikilvæg stefnumótunin var og er í tengslum við vinnulag og val á menntaverkefnum flestra stærri þróunaraðilanna hér í Malaví.

Þeir sem ekki hafa brennandi áhuga á stefnumótun gætu fussað og hugsað með sér hvernig á eitthvað plagg (sem örugglega enginn les) að breyta einhverju um raunveruleika barna í Malaví. Þurfum við ekki miklu frekar að fjölga skólastofum, mennta kennara og bjóða upp á skólamáltíðir. Jú við þurfum þess að sjálfsögðu... Reyndar þarf líka að mennta skólastjóra betur, bjóða upp á almenna símenntun, fá foreldra til þess að meta menntun umfram hjónabönd, tryggja öryggi allra barna í skólunum, útrýma líkamlegum refsingum, tryggja bækur í skólum, tryggja aðgengi að hreinu vatni, fækka nemendafjölda í hverjum bekk úr 150 í 30, sjá til þess að börnin læri raunverulega að lesa og svo framvegis og framvegis.

Það er nákvæmlega þetta sem er mergur málsins. Í landi eins og Malaví þar sem staðan í menntamálum er slík að það er ekki neitt eitt sem kemur til með að gera kraftaverk fyrir börn og möguleika þeirra á menntun þá skiptir í raun mestu máli að hafa stefnu um hvað skal gera. Skýr, einföld og raunhæf menntaáætlun sem gerir vel grein fyrir stöðu mála og forgangsraðar verkefnum í samræmi við ástandið er eitt það allra mikilvægasta fyrir menntamál í landi eins og Malaví.

Ráðuneytið hér í landi þarf nefnilega að sætta sig við það að eiga sama sem enga peninga. Það reiðir sig nánast að fullu á styrki frá hinum ýmsum velgjörðarsamtökum, stofnunum og þróunaraðilum. Þessir fjölmörgu aðilar og stofnanir (sama hvort þeir heita alþjóðabankinn, íslenska ríkið, USAID eða UNICEF) hafa oftast ákveðnar hugmyndir um hvað eigi að gera við peningana þeirra. Langoftast koma stofnanir með afar mótaðar hugmyndir eða jafnvel fyrirfram ákveðin verkefni að borðinu og bjóða þannig fram aðstoð undir mjög skýrum og oft á tíðum ósveigjanlegum formerkjum. Oftar en ekki vilja þróunaraðilar sanna ákveðna kenningu eða rannsóknarspurningu og vilja því gera eitthvað mjög afmarkað á litlu svæði, bjóða ákveðna aðstoð fram í tilteknum skólum eða setja af stað verkefni sem sinnir einhverju sem er efst á baugi og áhugavert að þeirra mati (gefa snjallsíma til dæmis).

Þetta er að mörgu leiti skiljanlegt þar sem þróunaraðilar hafa jú ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim sem veita peningana en þetta setur sárafátæk og oft á tíðum ekki mjög öflug ráðuneyti í töluverða klemmu. Það vita það flestir að of mörg markmið, mikill fjöldi verkefna og sundurleitar nálganir eru ekki vænleg leið til árangurs. Þetta er alltaf að koma betur og betur í ljós í öllu þróunarstarfi og get ég bent á splunkunýja skýrslu NORAD á starfi alþjóðabankans og UNICEF í Malaví á árunum 2008 - 2011 sem dæmi.

Það er nefnilega gífurleg pressa á ráðuneytum í þróunarlöndum eins og Malaví að samhæfa og samræma þá aðstoð sem þeim býðst. Því miður hafa mörg ráðuneyti, menntamálaráðuneytið hér í landi þar á meðal, oftar en ekki afar litla burði til þess að gera það vel. Fyrir utan hefðbundin innanbúðar átök og pólitík þá vantar of sárlega skýra stefnu til þess að fara eftir og ráðuneytin eru oft á tíðum hrædd við að sveigja frá vilja þeirra sem bjóða fram aðstoð af ótta við að missa af peningunum. Forgangsröðunin verður lítil sem engin og ráðuneytin eiga erfitt með að ákveða hvert skal haldið.

Ef maður veit ekki hvert maður ætlar, þá er engin leið að komast þangað.

Þetta hefur því miður verið raunin hér í landi þar sem menntamálaráðuneytið hefur, að mínu mati, ekki veitt nægilega skýra stefnu eða stjórn þegar kemur að vali á verkefnum sem hinir ýmsu þróunaraðilar stinga upp á og framkvæma. Niðurstaðan er sundurslitið og ósamræmt menntakerfi þar sem úir og grúir af litlum verkefnum sem hafa litla eða enga tengingu við hvort annað eða þann veg sem menntakerfið er að reyna að feta.

Nú þegar ég sit fundi með ráðuneytinu og nokkrum af stærstu þróunaraðilum í menntamálum í landinu fyllist ég ákveðinni von. Stefnuáætlunin sem við unnum hörðum höndum að (oft var ráðuneytið við það að gefast upp og hætta við) á tímabilinu 2013 til 2014 er í raun og veru að breyta heilmiklu um það hvernig helstu þróunaraðilar í menntamálum í landinu vinna saman og að hverju er nú stefnt í tengslum við framvindu menntakerfisins. Menntaáætlunin sem nú er til staðar hefur (þrátt fyrir ýmsa vankanta) lagt grunn að afar ríflegum styrk GPE og öllu því prógrammi. Það verkefni tekur sem dæmi algjörlega mið af þeim forgangsatriðum sem ráðuneytið útlistaði í stefnu sinni til næstu fimm ára. Þegar jafn háum styrk og GPE styrkunum (fimm og hálfur milljarður íslenskra króna) er varið í afar skýr forgangsatriði í menntamálum er von til þess að áþreifanlegur árangur náist. Ekki bara það, heldur er líka óhjákvæmilegt fyrir alla þá þróunaraðila sem vilja að peningum sínum sé vel varið - það er að segja varið í heildarmyndina en ekki sértæk og óaðskilin verkefni, að samræma sín verkefni og styrki einnig að þeim forgangsatriðum sem menntastefna landsins bendir á. Ég er algjörlega á þeirri skoðun að sé ekki unnið fyrst og fremst eftir stefnu stjórnvalda í hverjum málaflokki fyrir sig (og þá er ég ekki að tala bara um gróflega heldur eins nákvæmlega og unnt er) með tengingu verkefna og ráðuneytið í ökusætinu er enginn möguleiki á sjálfbærri þróun mála.

Eitt af því fjölmörgu sem ég er búin að læra á sl. tveimur árum í vinnu minni sem menntasérfræðingur hér í Malaví er að samvinna og samhæfing aðgerða er eitt það allra mikilvægasta til þess að eiga möguleika á árangri sem endist. Þess vegna getur oft verið þörf á að eyða miklum tíma í að leggja góðan grunn. Grunn að forgangsröðun og grunn að því að hægt sé að samhæfa og samræma verkefni til þess að ráðuneytin geti orðið sjálfbær með þau á endanum.

Fyrir þá sem hafa ekki fengið nægju sína af þróunarhjali er hægt að kíkja á nýju Sustainable Development markmiðin sem leggja einmitt gífurlega áherslu á sjálfbærni, samvinnu og samhæfingu þegar kemur að þróunaraðstoð og samvinnu.






Saturday, October 03, 2015

Margt í mörgu

Jæja krakkar þá erum við mætt aftur til Malaví. Það stóð nú reyndar ansi tæpt vegna ýmissa örðugleika í tengslum við flugmálaskilmála, vegabréfaáritanir (eða vöntun þar á) og ósveigjanlegan yfirmann á Kaupmannahafnarflugvelli. Eftir ævintýralega björgun frá góðu fólki, sem reyndar er orðið ansi sjóað í að bjarga þessari litlu fjölskyldu úr klemmu, var okkur naumlega hleypt með í fyrsta flugið af fimm. Vegna seinkunnar settum við tímamet í flugvallarhlaupi þegar við lentum í Katar... Sjáið fyrir ykkur fjögurra manna fjölskyldu sem hleypur sveitt á eftir veifandi flugvallarstarfsmanni. Verst að geta ekki rölt í rólegheitum um gylltan og glitrandi Katarflugvöll en upp í vél komumst við (aftur síðust) og seinni hluti ferðarinnar hófst.

Í Malaví tók heit Afríkusólin á móti okkur og við flugum í gegnum landamæraeftirlitið þrátt fyrir vöntun á ýmsum stimplum og leyfum - enda við nú loksins á heimavelli og þá er mun auðveldara að tala sig út úr klemmu ;) Allar töskur skiluðu sér á áfangastað en því miður láðist okkur að tryggja að kerran hans Alexanders fengi nægilega góðar merkingar og því vantaði kerrustykkið í pokann sem kerrunni var pakkað í (búið að rífa gat á pokann og fjarlægja kerrustykkið frá hjólunum). Við lærum svo lengi sem við lifum og næst læt ég merkja allt sérstaklega sem er möguleiki á að taka í sundur. 

Þetta blessaða ólán elti okkur síðan alla leið heim í húsið okkar þar sem við fengum afar óvelkomna gesti í heimsókn aðra nóttina okkar heima. Þjófar brutu sér leið inn til okkar og náðu í eitt og annað úr stofu og eldhúsi. Okkur var að vonum brugðið og tókum nokkra daga í að jafna okkur á ónotatilfinninguni sem fylgir því að vita af einhverjum inni í húsinu sínu um miðja nótt. Til þess að róa alla vorum við alltaf örugg í svo kölluðu ´safe haven´í húsinu sem er aðskilið frá stofu og eldhúsi með stálhurð. Við fengum síðan mjög mikla og góða aðstoð og umhyggju frá vinum og samstarfsmönnum. Hjá UNICEF fór heilmikið batterí í gang og sama dag fékk ég símtal frá sálfræðingi og við höfðum öll aðgengi að aðstoð og áfallahjálp. Mestu máli skiptir að þjófarnir reyndu ekki að komast inn til okkar í svefnálmuna og við erum öll heil og í góðu jafnvægi. Síðan má gera örlítið grín að þessu þegar frá líður og undra sig á því hversu erlendan smekk þjófarnir virtust hafa í ljósi þess að þeir stálu bara innflutta víninu okkar og skildu malavíska ginið eftir. Ég sá þá fyrir mér drekka dýra rauðvínið mitt með bönununum sem þeir stálu líka! 

Þetta atvik hins vegar ásamt heilmiklu viðhaldi á húsinu síðastliðið ár og síhækkandi leigu varð til þess að við fórum að leita okkur að nýju húsi til að leigja hér í borginni. Við erum nú búin að finna hús sem okkur líst mjög vel á. Húsið er í hverfi hér rétt hjá og stendur beint á móti brasilíska sendiráðinu. Eigendurnir eru að taka það í gegn - meðal annars að setja upp nýja eldhúsinnréttingu en slíkt er algjör munaður hér í borg. Við stefnum á flutninga um miðjan mánuð og vonumst eftir ferskri og hressandi byrjun á nýjum stað. 

Annars hafa þessar fyrstu tvær vikur gengið óskaplega vel og við fundum strax hversu notalegt það er að vera komin aftur (þrátt fyrir miður skemmtilegar móttökur). Vð uppgötvuðum nefnilega í þessum hremmingum hversu rík við erum af frábæru og yndislega hlýju fólki hér í borginni. Við fengum strax hringingar, heimsóknir og pósta frá öllu þessu góða fólki. Nágrannar, vinnufélagar og hreinlega ókunnugt fólk úti á götu sem frétti af innbrotinu og vildi bara láta okkur vita að við værum ekki ein ef okkur vantaði eitthvað. Í Lilongwe er samfélagið nefnilega oft vandræðalega lítið en á sama tíma mjög náið og vinalegt - sérstaklega þegar á reynir. 

Vinnan fer vel af stað. Mannhæðarháir bunkar biðu mín að sjálfsögðu en ég er með góðan yfirmann og fæ þess vegna mikinn sveigjanleika og skilning. Við Alexander og pabbi hans erum búin að koma okkur upp ansi fínni rútínu þar sem ég gef brjóst á morgnanna, í hádeginu og síðan aftur um klukkan þrjú en þá er ég alkomin heim úr vinnu. Svona getum við haft þetta í amk mánuð í viðbót. Þeir feðgar eru að brillera saman og Alex er farinn að borða banana, avakadó og graut inn á milli gjafa. Hera Fönn var spennt, pínulítið kvíðin en óskaplega dugleg að byrja aftur í leikskólanum. Þar á bæ var mikil gleði að fá hana aftur og hún var knúsuð í kaf fyrsta daginn sinn. Enskan hennar hefur komið mun hraðar en við bjuggumst við og hún er orðin altalandi aftur - dugleg að spyrja ef hún skilur ekki og æfir sig á hverjum degi í forritinu sínu ´learning and playing with sounds´. Props til Védísar og mömmu hennar fyrir frábært forrit. 

Já kæru vinir það er margt í mörgu og við erum búin að vera í dágóðum rússíbana síðan við lentum. En þannig er lífið - upp og niður - aftur á bak og áfram. Við erum glöð og góð, æfum saman daglega (allir í familíunni hafa sitt hlutverk), borðum góðan mat, hittum gott fólk, innbyrðum ofgnótt af d-vítamíni, elskum hvort annað og gerum okkar besta til þess að njóta hverrar stundar. 

Pís át!