Eftir einungis vikudvöl í Malaví
er óhætt að segja að við litla fjölskyldan höfum öðlast nýja sýn á lífið – eða
að minnsta kosti fengið að kynnast nýju og ansi hreint öðruvísi lífi. Lífi sem
við hlökkum til að kynnast betur, læra betur á og lifa. Við lögðum af stað
fyrir rúmri viku síðan frá Íslandi, áttum yndislegt pitstop í Stokkhólmi hjá góðum vinum. Hlóðum batteríin í sænsku Indian summer. Við erum ennþá að taka fyrstu
skrefin hvað varðar vinnu, húsnæði, bílamál, leikskólamál og öllu því sem snýr
að daglegu lífi. Við tókum strax þá ákvörðun að anda afar rólega í gegnum þessa
fyrstu daga enda mikið að taka inn og margt að hugsa um. Þar að auki gerast
hlutirnir á örlítið öðrum hraða en við erum vön og því mikilvægt að „sýna
biðlund“ eins og Hera Fönn er vön að predika.
Fyrsta upplifun okkar af borginni
Lilongwe og íbúum hennar var mjög góð. Ég fékk reyndar örlítið í magann þegar
við flugum yfir Malaví og út um gluggann blasti við ekkert nema eyðimerkurlegt
rautt og bleikt landslag og síðan vatnið endalausa sem, meira að segja úr
lofti, lítur út fyrir að vera úthaf. En Malavívatn er einmitt 11 stærsta
stöðuvatn í heimi og það 3ja stærsta í Afríku. Við vatnið finnast hvítar
strendur og litlir sjarmerandi strandbæir. Við stefnum á að heimsækja það fyrr
en síðar – enda ekki nema um það bil klukkutíma akstur úr borginni og niður að
vatni.
Við lentum hér í Lilongwe um hádegisbil eftir töluvert langt
ferðalag frá Stokkhólmi til Eþíópíu og þaðan frá Eþíópíu til Malaví. Í Eþíópíu
var bæði kalt og rigning en í Malaví tók á móti okkur notalegur andvari og 25
stiga hiti. Okkur leið því strax mjög vel í landi eldanna – hjarta Afríku.
Hitinn hefur farið heldur hækkandi síðan við komum og við finnum ágætlega fyrir
því að vera frá Íslandi, alls óvön hækkandi hitastigi á þessum tíma árs.
Kvörtum ekki! En nóg af veðri – enda er það ekki sérstaklega krassandi
umræðuefni í landi þar sem veðrið breytist um það bil einu sinni á ári. Mannlífið,
umhverfið og menningin eru hins vegar óþrjótandi uppspretta umræðu hjá okkur
þessa fyrstu daga.
Við fengum allar töskur og
kerruna hennar Heru Fannar heilu og höldnu á vellinum í Malawi okkur til
mikillar gleði. Glæru loftþéttu geymslupokarnir okkar vöktu reyndar ákveðnar
grunsemdir og við vorum spurð að því hvort við ætluðum nokkuð að selja fötin á
svörtum markaði. Segir kannski eitthvað um það hversu mikið af fötum við töldum
okkur þurfa að taka með okkur (!) Við útskýrðum samviskusamlega að við værum að
flytja til landsins og værum í heiðvirðri vinnu hjá UNICEF. Þá fengum við bara
stórt bros og „Welcome to Malawi“ sem hefur heyrst mjög oft síðustu daga. Við
vorum síðan sótt af hinum yndæla og hlátumilda Steve sem er einn af bílstjórum
UNICEF. Steve skutlaði okkur heim til Huldar sem er íslensk splunkuný vinkona
okkar hér í Lilongwe. Huld bauðst til að hýsa okkur litlu fjölskylduna á meðan
við værum að koma undir okkur fótunum og fyrir það erum við henni óendanlega
þakklát. Það var einstaklega notalegt að koma strax inn á heimili í stað hótels
og að eiga strax fastan punkt í nýrri og örlítið ruglingslegri tilveru. Það
hefur líka verið yndislegt fyrir Heru Fönn að fá strax öruggt og vinalegt
umhverfi til að aðlagast í.
Það tók ekki nema hálftíma að
keyra frá flugvellinum heim að húsinu okkar - sem er til marks um hversu langan
tíma það tekur að breyta heimsmynd fólks. Litirnir, fólkið – ó allt fallega fólkið
– umferðin, tréin, fuglarnir, lyktin. Hlaupandi skólabörn í bláum búningum, konur
með stór vatnsílát og mörg kíló af bönunum á höfðinu, heil fjölskylda á einu
reiðhjóli, strákahópar undir tré, lítil börn á baki mæðra sinna, menn og konur
að elda við opinn eld, unglingar á mótórhjólum, breiður af fjólublám og rauðum
trjám, fólk að vinna, heilu fjölskyldurnar við vegkantinn. Orðin duga eiginlega
ekki til og lýsingin verður tæplega til marks um það sem fyrir augun bar. Við
vorum þreytt en ákaflega spennt fjölskylda sem kom sér fyrir í fallegu húsi uppi á hæð hér
í hverfi 43 í Lilongwe.
16 comments:
Yndislegt að lesa og gott. Knús á ykkur öll. Elska ykkur ossa mikið.
Júlía
Frábært að lesa þetta og ég bíð spennt eftir næstu lesningu. Knús á ykkur, litlu fjölskylduna.
Dásamlegt elskan, Elska ykkur
Kveðja, mamma
Gaman að lesa þetta, verið nú dugleg að skrifa svona pistla um að sem ykkur finnst sérstakt og skemmtilegt. Myndin af Heru Fönn með krökkunum minnir okkur óneitanlega á það þegar Helgi mætti til Malaví, ljóshærður og gjörsamlega hvítur á litinn eftir íslenskan vetur! Bæði börn og fullorðnir báðu um að fá að snerta hann aðeins.
Hafið það gott.
Jónas og Gunna
Yndislegt að "heyra" frá ykkur :) Var mikið hugsað til ykkar í dag þegar ég heyrði Halo lagið með Sigríði Thorla, það minnir mig bara svo á ykkur mæðgur ;) Myndin af Heru og krökkunum er algjör gullmoli!!
Yndislegt að heyra frá ykkur og fylgjast með litla fallega fjölskylda. Hera Fönn er greinilega fljót að aðlagast og e-ð svo fallegt við að sjá litlu ljósu stúlkuna með öllum dökku börnunum, svo gaman að sjá fjölbreytta menningu og enn skemmtilegra fyrir ykkur að fá að kynnast henni í þaula. Hafið það ofsa gott og takk fyrir að deila þessu með okkur, kys og kram :*
Kv.Hugrún, Kalli og Baltasar
Þvílík upplifun. Takk fyrir að deila henni með okkur. Knús að norðan. Valgý
Gaman að lesa og takk fyrir að deila. Gangi ykkur vel :)
Váhh hvað það er gaman að fá að heyra frá ykkur og hvernig fyrstu dagarnir hafa verið. Bíð spennt eftir að heyra meira. En myndirnar eru skemmtilegar og þá einmitt sérstaklega þessi þar sem Hera Fönn er með krökkunum :) RISA knús til ykkar allra og kossar. Luv frá Íslandi....
Frábær lesning og gott að heyra að Malaví taki svona vel á móti ykkur. Kær kveðja,
Guðrún Hafsteins
Gott að fá fréttir frá ykkur elsku vinir :)
Yndislegar myndir, og eins og allir segja er myndin af Heru Fönn með krökkunum algjörlega priceless! Þið eruð náttúrulega algjörar hetjur að leggja upp í þetta ferðalag.
Hlakka til að lesa miklu miklu meira :)
Ást og knús alla leiðina til ykkar :*
Vala
ÆÐI ;) Myndirnar eru frábærar og gott að fá að sjá umhverfið sem er dásamlegt! Myndin af HFL í barnahópnum segir svo margt ;) Knús til ykkar allra!
Takk Eva fyrir að leyfa okkur að vera með í þessu ævintýri. Gangi ykkur allt rosa vel.
Kær kveðja,
Ragný
Vá! Vá! Vá! En skemmtileg lesning, þetta verður fastur punktur hjá mér núna að lesa pistla frá Malawi fjölskyldunni :)
Gangi þér vel, Eva mín, að stimpla þig inn í Unicef. Tekur þig svona 5 mínútur ef ég þekki þig rétt.
Love
Védís & Co.
æðislegt að allt hafi gengið vel... hlakka til að fylgjast með ykkur :) knús Ragnheiður
Nice to read this lines! as far as google traductor works fine, I´ll keep on reading about your adventure!
Post a Comment