Thursday, August 04, 2011

Einstæð móðir...

...í 8 daga og mikið vildi ég ekki gera þetta að vana! Að eiga barn er tveggja manna (og kvenna) verk í það minnsta. Það er nú ekki mikið fyrir litlu Fönn haft en engu að síður hlakka ég óendanlega til að fá pabba hennar aftur heim til okkar. Fyrir utan hvað ég sakna þess bara að hafa einhvern að spjalla við á kvöldin og morgnanna þá er ótrúlegt hvað allt verður miklu flóknara og erfiðara ef það eru ekki fjórar lausar hendur á heimilinu. En síðan venst þetta kannski bara og maður lærir að plana aðeins fyrirfram, taka hlutina til, hugsa fram í tíman og gera ráð fyrir því að vera einn.

Ég er að minnsta kosti búin að lenda nokkrum sinnum í því að vera komin með barnið á skiptiborðið og úr fötunum en ekki búin að ná mér í blautþurrkur (eða blautan svamp) og þá er ekki hægt að kalla "Æ Lalli nenniru..." Þá er bara að taka barnið upp aftur, ná í svampinn og vonast til þess að hún pissi ekki á mig á meðan (sem er óraunhæf ósk því henni verður iðulega mál þegar hún er loksins laus við bleyjuna).

Í kvöld pantaði ég pizzu og var reyndar svo heppin að mamma leit inn stuttu seinna og gat linað samviskubitið sem ég fékk yfir því að hafa panta pizzu fyrir mig eina. Hin þrjú kvöldin sem við mæðgur erum búnar að vera einar heima borðaði ég ekki neitt í kvöldmatinn. Fyrsta kvöldið uppgötvaði ég klukkan 10 þegar Hera Fönn var sofnuð að ég var mjög svöng og skellti þá í mig einni skál af serjósi svona rétt áður en ég háttaði hin tvö kvöldin fór ég bara svöng að sofa. Ég er semsagt ekki búin að elda neitt síðan Lalli fór enda glatað að elda fyrir einn. Ætli fólk sem býr eitt eldi einhverntíman kvöldmat? Hera Fönn hefur talað við pabba sinn á Skype á hverju kvöldi síðan hann fór og verður orðin vel sjóuð í millilandarsamtölum áður en hún nær að verða 5 mánaða. Hún saknar pabba síns held ég óskaplega - eða amk þess að vera í félagsskap einhvers annars en móður sinnar enda mikil partýpía og finnst fátt skemmtilegra en að vera á meðal fólks. Thank god fyrir mömmuklúbb á morgun!

Saturday, July 16, 2011

Lífslán

Lánið leikur við okkur!

Sumir hafa sagt (oftar en einu sinni) að einhverskonar lukkustjarna fylgi okkur Lárusi. Við erum að minnsta kosti mjög þakklát fyrir margt í þessu lífi. Þar á meðal... (í engri sérstakri röð)

  • frítímann okkar saman í sumar sem fjölskylda
  • yndislega fallega íbúð á góðum stað
  • nálægð við fjölskyldu
  • góða vini
  • heilbrigða og yndislega stúlku
  • góða og skemmtilega vinnu
  • hvort annað

Við þökkum ekki nógu oft fyrir það sem lífið leyfir okkur :-)

Friday, July 08, 2011

Fyrsta blogg eftir barn

Börn breyta öllu. Eftir að litla daman fæddist lítum við án efa öðruvísi á lífið. Sumpart meðvitað og sumpart ómeðvitað. Margt er eins og ég bjóst við en mun fleira allt öðruvísi.

Í fyrsta lagi: Húrra fyrir öllum konum sem hafa fætt barn! Meðganga og fæðing eru án efa magnaðasta, erfiðasta, besta og skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í hingað til á ævinni. En þetta var víst bara byrjunin á ævilöngu verkefni sem felst að sjálfsögðu í skynsömu uppeldi, óeigingjarnri ást og skilyrðislausri umhyggju fyrir barninu okkar.

Eftir fyrstu vikurnar (og mánuðina jafnvel) sem fólust aðallega í því að horfa dreymandi á hvort annað er lífið við það að falla í fastar skorður aftur. Við erum nú flutt á æskuslóðirnar með tveggja ára plan í huga. Barnið dafnar vel og virðist sátt með nýja umhverfið. Við erum líka sátt við planið og hlökkum til að kynnast Hveragerði upp á nýtt. Síðan vantar auðvitað ekkert upp á gleðina hjá öfum og ömmum eiga nú töluvert greiðari aðgang að börnum og barnabörnum en áður.

Stefnan er einmitt tekin upp í sveit þessa helgi í faðm fjölskyldunnar.




Saturday, March 12, 2011

Hið passlega líf

Hef sagt það áður og kem til með að segja það áfram. Á Íslandi er alltaf allt í fimmta gír. Þetta hefur vissulega sína kosti og galla. Meðal "jóninn" á Íslandi sinnir yfirleitt ótal hlutverkum, tekur að sér of mörg verkefni, er í tveimur til þremur vinnum og með óteljandi hugmyndir, plön og verkefni í farvatninu.

Við erum engin undantekning þó svo að við höfum vanist örlítið rólegra lífi og ólíku mynstri í Kaupmannahöfn og Bilbao sl. tvö ár. Ég lít til baka óendanlega fegin og þakklát fyrir þennan tíma úti. Þar sem ég var (næstum því) "bara" í meistaranámi. Lalli fékk líka ágætis tíma til að sinna sínum MA skrifum ásamt því að spila körfubolta. Ég var hins vegar nánast fordekruð miðað við aðra stúdenta og þá sérstaklega seinna árið mitt á Spáni þar sem ég rétt svo druslaðist til að kenna ensku tvisvar í viku en sinnti annars engu nema MA ritgerðinni - sem var yndislegt!

Þið megið ekki misskilja mig, þrátt fyrir allan heimsins tíma þá lærði ég alls ekki mikið meira en ef ég hefði verið upptekin við hin ýmsu störf meðfram náminu. Ég eyddi hins vegar nægum tíma í að leita að góðum veitingastöðum, að þefa uppi söfn, í kaffihúsaferðir, strandferðir, gönguferðir og ýmsa aðra andlega nærandi iðju. Sem er í raun og veru það yndislegasta við MA ritgerðina. Þegar ég fletti í gegnum hana í dag finn ég hreinlega lyktina af góðu rauðvíni og tapasréttum. Ég heyri spænskuna flæða, sé fyrir mér litlu hellulögðu göturnar í Bilbao og finnst ég stödd í Guggenheimsafninu eða í grænum sporvagni.

Nú halda eflaust margir að ég sé að sálast úr útþrá og langi mest af öllu að flytja aftur til Bilbao en það er alls ekki svo. Þetta var nefnilega bara akkúrat passlegt og ég er í raun og veru himinsæl og glöð með að vera komin heim. Komin í tvær eða þrjár vinnur, þjótandi hingað og þangað, gerandi plön í gríð og erg, takandi að mér of mörg verkefni, lesa fréttirnar, kaupa bíl, skoða íbúð, eignast barn, horfa á Desperate Housewifes, hitta þennan og hitta hinn, bjóða í matarboð, vera boðin í matarboð, pexa yfir þjóðmálunum, hafa of mikið að gera og æ þið vitið allt þetta sem maður gerir þegar maður er orðin fullorðinn og býr í íslensku nútímasamfélagi.

Ég elska þetta líf og þetta land alveg eins og það er - en það er samt sem áður öllum nauðsynlegt að smakka á annarri menningu, lifa í öðru lífsmunstri og upplifa annan hversdagsleika. Ég held meira að segja að það sé nauðsynlegt að gera það öðru hvoru og helst reglulega. Að mínu mati er varasamt að festast um of í einu munstri eða einum raunveruleika - því í raun og veru eru þeir svo ótal margir og ólíkir hver frá öðrum. Hver öðrum skemmtilegri, fróðlegri og allir jafn nauðsynlegir.

Það getur síðan verið ákveðin kúnst að vita hvenær tíminn er kominn - að finna út úr því hvenær passlegt er passlegt. En ég efast ekki um að ég finni það... þegar að því kemur. Akkúrat núna og þangað til þetta verður alveg passlegt og eitthvað annað býðst ætla ég að njóta dagsins og lífsins alveg eins og það er í boðinu hérna á Fróni.

Sunday, February 27, 2011

Sunnudagsmorgnar

Rás 1 er klárlega besta stöðin á sunnudagsmorgnum.

Ég get alls ekki þolað teknó-píkupoppið (afsakið orðbragðið) á FM 957. Ég get ekki ímyndað mér að neinn sé í stuði fyrir þess konar tónlist á sunnudagsmorgnum nema þá helst þeir sem ekki eru ennþá farnir að sofa og eru að poppa síðustu E-pilluna svona upp úr hádegi á sunnudegi. Já já. Verði þeim að góðu.

Ég hef um það bil þriggja mínútna þolinmæði fyrir skelfilega yfirborðskenndu og hressu útvarpsfólki á Kananum. Kaninn spilar oft ágætis tónlist - en það er mjög vafasamt hversu ótrúlega hresst og frasakennt útvarpsfólkið er.

Þjóðarsálin hjá Sirrý gæti síðan auðveldlega drepið hvaða kósýstemmingu sem er "já góðan daginn mig langar að ræða um húðsjúkdóma og strætómál".... Sirrý sem er alltaf svo jákvæð ætlar aldrei að trúa því hvað ástandið í þjóðfélaginu er slæmt og sýpur hveljur yfir hverju stórmálinu á fætur öðru.

Þá hugnast mér betur "hrífandi svanasöngur Schuberts", útvarpsleikritið og lesnar tilkynningar í bland við tónlist sem spannar allt frá íslenskum karlakórum til rúmenskrar þjóðlagatónlistar.

Tuesday, February 22, 2011

Eitt og annað

  • Ég held að vorið sé að koma, þó svo að það spái snjókomu í næstu viku.
  • Ég er ennþá að skoða doktorsnám og mögulega styrki til doktorsnáms, þó svo að ég sé að fara eignast barn eftir mánuð.
  • Mér finnst algjör vitleysa að strauja öll föt, líka barnaföt, þó svo að mamma mín hafi alltaf gert það.
  • Ég vakna stundum klukkan fimm, þó svo að ég fari ekki að sofa fyrr en klukkan eitt.
  • Mig langar stanslaust til útlanda, þó svo að ég sé bara eiginlega nýflutt heim.
  • Ég er oft svöng þó svo að ég sé nýbúin að borða - sérstaklega ef ég borða epli.
  • Ég er alveg pollróleg með framtíðina þó svo að það sé ekkert planað hjá okkur frekar en fyrri daginn.


Friday, February 11, 2011

Lífsgæði

Reglulega tek ég góða umræðu um lífsgæði við sambýlismanninn minn. Hvað það er að njóta lífsgæða, hver þau eru og hvernig við getum skapað okkur lífsgæði í nútíð og framtíð. Við erum sammála um að þrátt fyrir að peningar skipti alltaf einhverju máli þegar kemur að lífsgæðum þá eru þeir á engan hátt forsenda fyrir þeim gæðum sem lífið hefur upp á að bjóða.

Það eru einfaldlega aðrir hlutir sem skipta meira máli. Ein helsta forsendan fyrir því að lífið geti talist gæfuríkt er til dæmis að vera í góðri, spennandi og krefjandi vinnu. Þess konar vinna getur verið hvaða vinna sem er og þarf ekki endilega að vera best launaðasta vinnan eða virtasta vinnan. Í nútímasamfélagi tíðkast að meta gildi og virði vinnu út frá peningum en í raun og veru felst gildi hverrar vinnu í þeim andlegu verðmætum sem hún veitir þeim sem leysir verkefnið af hendi. Persónulega þykja mér til dæmis þrjú atriði mikilvægari en önnur þegar kemur að vali á vinnu. Í fyrsta lagi þarf ég bæði að geta gefið af mér og lært af öðrum. Ef þessi forsenda væri ekki fyrir hendi ætti ég ekki mikla möguleika á að njóta mín í vinnunni eða að gera hana að hluta af mínum lífsgæðum - sama hversu vel launuð hún væri. Í öðru lagi finnst mér einstaklega gaman og gefandi að vinna með fólki og helst að vinna að verkefnum sem fela í sér einhverskonar umræður um nám, nýjungar og þekkingu. Því met ég það mikils að vinnan eða verkefnin sem ég tek að mér séu fólgin í því að leita lausna við krefjandi verkefnum. Í þriðja lagi er það ótvíræður kostur að mínu mati að hafa ákveðið frelsi, frumkvæði og sjálfstæði í vinnunni.

Lífsgæði er einnig fólgin í einfaldari en þó einstaklega mikilvægum atriðum eins og að eiga í góðum samskiptum við gott fólk - bæði vini og fjölskyldu. Að búa í notalegu og öruggu umhverfi og að hafa aðgengi að ákveðinni grunnþjónustu. Fyrst og fremst felast þó lífsgæðin í því að gera gott úr þeim aðstæðum sem við búum við - líta jákvæðum augum á hvert það verkefni sem fyrir liggur, setja sig sem oftast í spor annarra, sýna öllu fólki virðingu og takast þannig á við einn dag í einu ákveðin í því að njóta þeirra lífsgæða sem felast í hverju andartaki.

Tuesday, February 01, 2011

Þakklæti

Heitur og rjúkandi kaffibolli, glærur um samskipti í uppeldis og fræðslustarfi, súkkulaði með hnetum. Que bien!

Ég lifi rólegheitarlífi þessa dagana og þakka fyrir það á hverju kvöldi hversu heppin ég er að vera í þessari stöðu. Ég vinn skemmtilega vinnu sem ég elska að undirbúa og sinna, ég bý í rúmgóðri og kósý íbúð þar sem ofnarnir virka og heita vatnið bunar úr sturtunni. Ég á yndislegan maka sem er líka sálufélagi minn og besti vinur. Notalegir vinir og fjölskylda eru í nálægð við okkur og lífið er gott.

Útþráin er ekki eins mikil og vænta mætti í febrúarbyrjun. Held að vorið sem ríkir á einhvern undarlegan hátt innra með mér hafi mikið um það að segja. Ég stelst samt til að leiða hugann öðru hvoru að útlandaferðum... enda bara gott að fylla hugann af sól og sumaryl þegar úti er hvasst og hvítt.

Thursday, January 20, 2011

Undirbúningur

Það er einhvervegin hávetur þessa dagana. Frostið og vindurinn láta engan í friði og úlpurnar góðu sem keyptar voru í Svíþjóð koma sér einstaklega vel. Engu að síður finn ég öðru hvoru fyrir smá vori í kroppnum... svona innst inni.

Kannski er það vegna þess að að ég veit að vorið kemur með ófædda barninu okkar og það styttist óðum í það. Það fer ekki endilega mikið fyrir hinni klassísku hreiðurgerð en engu að síður erum við farin að huga að hinu og þessu sem breytist við komu barnsins. Jafnt veraldlegum sem andlegum hlutum.

Janúar hefur nýst mér vel í hverslags undirbúning þar sem ég verð að vinna töluvert meira í febrúar og mars (fram að settum degi) og því finnst mér upplagt að nýta þessa daga í janúar til að undirbúa kennslu, ganga frá lausum endum og hafa flesta hluti á hreinu. Í febrúar og mars ætla ég nefnilega að gera mitt besta til þess að njóta hverja lausa mínútu í að slaka á og undirbúa mig bæði líkamlega og andlega fyrir stóra hlutverkið.

Þetta tvennt helst nefnilega í hendur í mínu lífi - að vera vel undirbúin veraldlega og að líða vel andlega. Það skiptir ekki öllu máli fyrir hvaða viðburð eða í hvaða aðstæðum. Þetta gildir almennt fyrir mig. Ef ég hef það á tilfinningunni að ég sé með flesta hluti á hreinu í veraldlegum skilningi þá finnst mér ég líka vera tilbúin andlega - og öfugt auðvitað. Tvær hliðar á sömu krónunni.

Sunday, January 02, 2011

Baby-gadget

Hversu mikið eða lítið þarf eitt barn?

Það var að sjálfsögðu sterkur leikur hjá okkur að eignast barn svona í seinni kantinum miðað við vini og systkini. Ég treysti að minnsta kosti á að flestur sá útbúnaður sem ungabarni er nauðsynlegur sé til í geymslum og bílskúrum landsins.

Nauðsynjalistinn lengist engu að síður með hverjum deginum sem líður nær fæðingu og enn virðist ég hafa meiri áhyggjur af veðrinu heldur en þessum lista. Eða það er kannski ekki alveg satt við Lárus erum búin að fara í nokkrar vagnabúðir og velja eitt líklegt faratæki. Við fjárfestum síðan í tveimur "göllum" eða samfellum (er ekki alveg klár á muninum ennþá) úr H&M búðinni. Voðalega sætt - einn soldið stelpulegan og annan soldið strákalegan ef hægt er að tala um slíkt. Við fengum síðan æðislega falleg föt í jólagjöf frá Ítölskum vinum sem gætu sómað sér vel sem "heimferðarföt" en þau eru víst stórt og mikið atriði í þessu ferli öllu saman (að velja réttu fötin semsagt).

Bílstóll er eitthvað sem allar bækur segja að sé algjört nauðsynjatól - og ennþá nauðsynlegra að læra á gripinn áður en barnið er sett í hann í fyrsta skiptið. Þannig að það þyrfti jafnvel að huga að því. Veit um nokkrar góðar vinkonur og fjölskyldumeðlimi sem eiga stóla sem ekki eru lengur í notkun og næsta skref er þá væntanlega að skoða þessa gripi og ath hvernig okkur líst á.

Annars held ég að þetta reddist allt saman og yfirleitt finnur maður ef manni vantar eitthvað um leið og manni vantar það. Mikilvægast er að barnið komi og þá hef ég á tilfinningunni að það streymi að ýmislegt bæði stórt og smálegt sem kemur vafalítið að góðum notum.

Ég finn barnið sprikla og sparka allan liðlangan daginn (og nóttina líka ef því er að skipta) og það er bara jákvætt. Þetta barn byrjar að minnsta kosti tilveru sína í móðurkviði með tilþrifum og lætur taka vel eftir sér... spurning hvernig það verður þegar það kemur síðan í heiminn?