Sunday, January 02, 2011

Baby-gadget

Hversu mikið eða lítið þarf eitt barn?

Það var að sjálfsögðu sterkur leikur hjá okkur að eignast barn svona í seinni kantinum miðað við vini og systkini. Ég treysti að minnsta kosti á að flestur sá útbúnaður sem ungabarni er nauðsynlegur sé til í geymslum og bílskúrum landsins.

Nauðsynjalistinn lengist engu að síður með hverjum deginum sem líður nær fæðingu og enn virðist ég hafa meiri áhyggjur af veðrinu heldur en þessum lista. Eða það er kannski ekki alveg satt við Lárus erum búin að fara í nokkrar vagnabúðir og velja eitt líklegt faratæki. Við fjárfestum síðan í tveimur "göllum" eða samfellum (er ekki alveg klár á muninum ennþá) úr H&M búðinni. Voðalega sætt - einn soldið stelpulegan og annan soldið strákalegan ef hægt er að tala um slíkt. Við fengum síðan æðislega falleg föt í jólagjöf frá Ítölskum vinum sem gætu sómað sér vel sem "heimferðarföt" en þau eru víst stórt og mikið atriði í þessu ferli öllu saman (að velja réttu fötin semsagt).

Bílstóll er eitthvað sem allar bækur segja að sé algjört nauðsynjatól - og ennþá nauðsynlegra að læra á gripinn áður en barnið er sett í hann í fyrsta skiptið. Þannig að það þyrfti jafnvel að huga að því. Veit um nokkrar góðar vinkonur og fjölskyldumeðlimi sem eiga stóla sem ekki eru lengur í notkun og næsta skref er þá væntanlega að skoða þessa gripi og ath hvernig okkur líst á.

Annars held ég að þetta reddist allt saman og yfirleitt finnur maður ef manni vantar eitthvað um leið og manni vantar það. Mikilvægast er að barnið komi og þá hef ég á tilfinningunni að það streymi að ýmislegt bæði stórt og smálegt sem kemur vafalítið að góðum notum.

Ég finn barnið sprikla og sparka allan liðlangan daginn (og nóttina líka ef því er að skipta) og það er bara jákvætt. Þetta barn byrjar að minnsta kosti tilveru sína í móðurkviði með tilþrifum og lætur taka vel eftir sér... spurning hvernig það verður þegar það kemur síðan í heiminn?

No comments: