Tuesday, December 22, 2009

Ísland

Þá erum við komin heim.

Daginn sem við flugum frá Bilbao fór að snjóa þar og ég prísa mig himinsæla að vera stödd hér á Íslandi þar sem húsin eru upphituð og rúmlega það. Í íbúðinni okkar í Bilbao búum við nú ekki svo vel að vera með hita en getum þó stungið einum rafmagnsofn í samband ef svo ber undir. Það hefur hins vegar ekki gerst oft hingað til og ég vona að veðrið verði orðið betra þegar við lendum aftur á Spáni.


Ég hef líklegast ekki verið nægilega vel klædd miðað við aðstæður þessa fyrstu daga á landinu kalda því ég nældi mér hálsbólgu, hósta og hita. Ekki þó svínaflensu því mér skilst að maður verði svo ægilega veikur af henni, þannig að maður viti varla af sér. En ég er alls ekki það slæm, bara svona "inniveik" og kemst þar af leiðandi ekki í sund - en get eytt tímanum í að skrifa ritgerðir. Kannski eru þetta forlögin að hafa vit fyrir mér. Gera mig sæmilega veika til að vera inni en nógu hressa til að ljúka við lærdóminn. Enda ekki seinna vænna - margt að klára fyrir áramót.

Annars er þetta bara búið að vera notalegt, margir kossar (þannig nældi ég mér líklegast í flensu) og knús, vinamót og fjölskyldustundir. Yndislegt að hugsa til þess að dvölin er rétt svo hálfnuð, nóg eftir!

No comments: