Ég hugsa að daglega lífið okkar Lárusar sé ekki jafn hversdagslegt og líf annarra - eða jafnvel enn hversdagslegra?
Ég er að meðaltali í skólanum tvisvar sinnum í viku. Hina dagana rembist ég við að lesa eitthvað merkilegt og skrifa eitthvað enn merkilegra. Síðan fer ég á fund með leiðbeinanda og fæ ýmsar ráðleggingar sem ég reyni að botna eitthvað í þegar heim er komið og þá hefst ferlið aftur. Ég reyni að finna eitthvað af viti til að lesa sem síðan verður til þess að ég geti skrifað eitthvað vitsmunalegt.
Öðru hvoru hef ég dug og kjark í mér til að fara í ræktina. Ræktin sjálf er æðisleg en leiðin sem ég neyðist til að ganga til að komast að henni er ekki svo æðisleg. Gatan sem liggur að ræktinni er einfaldlega ekki sú álitlegasta og ég fæ ómælda og í alla staði óeftirsóknarverða (það er að segja ég sækist ekki eftir) athygli á meðan ég geng þennan um það bil 15 mínútna spotta. Þetta er kannski ekki svo alvarlegt og athyglin felst aðallega í saklausum hrópum og eftir á köllum. Algengustu frasarnir eru "rubia" sem þýðir bara einfaldlega ljóska og "guapa" sem er nú ekki amalegra en svo að það þýðir sæta (myndi kannski gleðjast ef það kæmi frá einhverjum öðrum en ókunnugum karlpeningi sem hefur því miður ekki mjög vinalegt yfirbragð á sér). Síðan færist stundum fjör í leikinn og strákarnir reyna að brúka ensku til þess að ná athygli þessarar rúbíu sem virðist vera ansi merkileg með sig, enda er hún búin að læra að stinga nefinu langt upp í loft og strunsa áfram eins og um hálfgert kapphlaup væri að ræða. Þá heyrast jafnvel setningar á borð við "hello darling", "how are you" og "see you later" (og þá þarf ég iðulega að bíta í tunguna á mér til að svara ekki "aligaiter"). En stundum getur hitnað aðeins í kolunum og orð eins og "puta", "puta madre", "sexo" sem og eitthvað muldur sem tengist rassi og brjóstum heyrast á götunni góðu - sem heitir því skemmtilega nafni San Fransisco.
En nú mega ættingjar og vinir ekki örvænta eða halda að ég sé ekki örugg hérna í baskaborginni. Þessi gata er nú yfirleitt mönnuð nokkrum lögreglumönnum og það var einmitt sagt frá því í fréttum í síðustu viku að nýbúið er að koma upp eftirlitsmyndavélakerfi á allri götunni.
Það er því aðallega þegar vantar upp á dug frekar en kjark þegar ég fer ekki í ræktina.
7 comments:
Enginn Lalli lífvörður á San Fransisco stræti?
Jú hann kemur stundum og sækir mig þegar honum þykir myrkrið úti aðeins of mikið :)
Er ekki hægt að fara aðra leið í ræktina?
...eða fara í aðra rækt?
mamma
uuu nei önnur leið yrði alveg svona ég veit ekki hálftíma lengra labb en það er ekkert svo hættulegt að fara þarna bara svona hangsandi hálfvitar úti á götu. Gatan er alltaf lýst og fullt af fólki. Ræktina er ég búin að borga fyrir þangað til í desember hún er æðisleg! Besta ræktin í bænum fyrir billegt verð. En ég sé til eftir áramót hvort ég held áfram þarna eða fer eitthvað annað. En ég endurtek þetta er ekkert mjög mjög hættulegt... kannski eins og að búa í Norrebro eða eitthvað ;)
Eg var kynferdislega areitt af munki i gaer.
Allamalla!!!! Það má ekki! Hvenær kemurðu til mín?
Post a Comment