Wednesday, October 29, 2008

...

Þeir sem fylgdust með á netinu í gærkvöldi vita nú þegar að Sisu tapaði afar mikilvægum heimaleik í gærkvöldi gegn Næstved. Ég nenni nú ekki að kryfja það til hlýtar en segi bara að þetta lagist allt saman þegar Lárus er orðinn leikhæfur. 

Hérna í Kaupmannahöfn er ennþá yndislegt veður, sólin skín ca annan hvern dag og hitinn ennþá í kringum 10-14 stigin. Ekki amalegt það, sérstaklega þar sem við fengum sko heldur betur forsmekkinn af vetrinum í Íslandsheimsókninni okkar í síðustu viku. Þá var nú gott að koma hingað í sól og gott veður. 

Vöruúrvalið í búðunum gefur hins vegar sterklega til kynna að jólin séu að nálgast! Alveg magnað hvernig tíminn getur liðið á þvílíkum ógnarhraða. Ótrúlegt til þess að hugsa að um jólin verður deildin og körfuboltatímabilið hálfnað, ég búin að skila tveimur stórum ritgerðum og 1/4 af náminu mínu lokið. 

Lokaritgerðirnar mínar fjalla um Citizenship Education. Ég verð með tvær mismunandi nálganir. Annars vegar ætla ég að skoða stefnur og tilmæli Evrópusambandsins og Evrópuráðsins er varða citizenship education í samhengi við stóra alþjóðlega rannsókn sem IEA lét gera á borgaravitund ungmenna í 30 löndum víðsvegar um heim. Hins vegar ætla ég að einbeita mér meira að einstaklingnum og setja námskenningar um mikilvægi þátttöku nemenda og mikilvægi opinna og þroskandi samræðna í citizenship education.  

Þetta er allt saman mjög skemmtilegt að skoða - sérstaklega þar sem citizenship education sem slík þekkist ekki í miklu mæli á Íslandi eða innan íslensk menntakerfis. Það er hægt að finna líkindi með citizenship education og lífsleikni eða þeirri kennslu sem fer fram í einhverjum samfélagsfræði tímum. 

Jæja nóg af akademískri umræðu, ætla að spara orðin í ritgerðirnar. Veitir víst ekki af enda um engar smá ritgerðir að ræða. Ég er hins vegar að leita að vinnu enda þýðir ekki að ætla að láta Lárus algjörlega sjá um að halda okkur uppi í krepputíðinni. Ég var svo einstaklega heppin að vera boðuð í starfsviðtal á föstudaginn í Copenhagen International School sem er grunn- og menntaskóli hérna í Kaupmannahöfn þar sem kennt er á ensku og mótast af mjög alþjóðlegu og multicultural umhverfi. Nú er bara að standa sig vel í viðtalinu og krossleggja putta :) 

Tuesday, October 28, 2008

Bein útsending

Í kvöld verður bein útsending á netinu frá tv-heimaleik Sisu gegn Næstved. Leikurinn byrjar klukkan 19:15 að dönskum tíma sem útleggst sem 18:15 að íslenskum tíma. Hægt er að horfa á beina útsendingu á heimasíðu sjónvarpsstöðvarinnar: 

www.dk4.dk 

Myndir

Setti nokkrar nýjar myndir síðan í október, meðal annars nokkrar afar hressandi af ofnavandamálum okkar Lárusar!

Við erum búin að gera nokkrar tilraunir til að taka myndir í vetur. Förum ævinlega með myndavélina batteríslausa, týnum hleðslutækinu eða erum ekki með það með okkur. En batnandi fólki er best að lifa... 

Physio-therapistinn hann Lárusar ráðlagði honum að spila ekki leikinn á morgun og skynsemin uppmálum tók Lárus þeim ráðum og ætlar að hvíla. Ég var voðalega glöð með það enda held ég að það margborgi sig "in the long run" eins og þeir segja ;) 

Sunday, October 26, 2008

...

Fyrst af öllu viljum við óska sætustu afmælisstelpu í öllum alheiminum til hamingju með afmælið!!  Elska Emma okkar við sendum kossa og knús til þín hérna í gegnum bloggið og vonandi áttu eftir að eiga frábæran afmælisdag!! 


Við vöknuðum í morgun og skidum ekkert í því að klukkurnur í tölvunum okkar voru einum tíma of seinar miðað við aðrar klukkur. Eftir smá þras um hvort klukkan væri hálf ellefu eða hálf tólf þá áttuðum við okkur á því að klukkan var færð aftur á bak um einn tíma í nótt. Frekar notalegt að græða klukkutíma og lengja daginn örlítið. 

Sisu spilaði 4 leikinn sinn á tímabilinu í gærkvöldi og töpuðu með 4 stigum eftir mjög spennandi og jafnan leik. Liðið sem þeir spiluðu við er búið að vinna alla sína leiki og er efst á meðan Sisu hefur unnið 1 leik en tapað 3 og er þar af leiðandi um miðja deild eða í 6. sæti af 10 liðum. Ef við lítum björtum augum á stöðuna þá er Sisu búið að spila 4 mjög erfiða leiki við þau fjögur lið sem skipa sér í efstu sætin þannig að næstu leikir ættu að verða auðveldari viðureignar. Fyrir utan þá staðreynd að Lárus verður auðvitað með í næstu leikjum sem mun breyta leiknum þeirra all verulega held ég. Í dag er engin vara pointguard sem getur tekið boltann almennilega upp - þannig að þeir verða eflaust voðalega fegnir strákarnir þegar Lalli verður orðinn góður í lærinu. Næsti leikur er stór sjónvarpsleikur og allir miðar uppseldir fyrir löngu. Leikurinn verður á þriðjudaginn á heimavelli Sisu gegn liðinu Næstved sem Lárus var líka að hugsa um í ágúst þegar við komum. 

Jæja þeir sem skilja ekkert í körfubolta geta byrjað að lesa hérna... Um næstu helgi er okkur boðið í partý sem kallast Hallo-Wali og samblanda af Halloween og Dewali sem er indversk hátíð sem snýst um að upphefja ljósið og góða anda innra með fólki. Krökkunum í bekknum mínum fannst sniðugt að blanda saman þessum tveimur hátíðum úr austri og vestri og úr því varð þessi hátíð sem þau kalla Hallo-Wali. Mér finnst þetta alveg stórkostleg hugmynd þar sem fólk verður í grímubúningum að kveikja á kertum og lofa ljósið og góða anda að indverskum sið. Svona er nú hægt að sameina mismunandi kúltúr og menningu á jákvæðan hátt :) 

Jæja snúðar og snúllur nú ætla ég að nýta tímann á meðan Lárus er úti að skokka og læra smávegis. 

Kiss og knús á ykkur öll...

Thursday, October 23, 2008

Heima og heiman...

Ahhh hvað var nú gott að koma heim á Matthæusgade aftur. Komum með trilljón töskur og hjól og þurfum næstum stærri íbúð fyrir allt dótið sem við drusluðum með okkur heim. Allt var þetta þó eitthvað gífurlega mikilvægt. Harðfiskur, vetrarföt, lýsi og ullarsokkar svo eitthvað sé nefnt. Fyrir utan allt nammið sem Hildur María pantaði... en ég borðaði áður en hún fékk helminginn af því. 

Athöfnin gekk ofsalega vel og við náðum að hitta fleiri heldur en við bjuggumst við en auðvitað ekki alla sem við hefðum viljað hitta samt. Svona er þetta bara - verst að allir sem höfðu ætlað sér að kíkja til Köben á næstunni er náttúrlega löngu hættir við öll slík plön... en engu að síður er nóg pláss í stofunni hjá okkur og við rukkum ekki svooo mikið. 

Nú tekur við skóli, æfingar og vinna. Ég er með nokkrar vinnur í deiglunni núna og fer vonandi í einhver viðtöl í næstu viku, læt vita betur þegar þetta fer að skýrast. Á meðan framfleytir Lalli okkur með því að skakklappast í vinnuna og hvetja hina strákana á æfingum. Annars er hann allur að koma til og fær vonandi að vera smávegis með á æfingu í dag og hann setur síðan stefnuna á að spila sjónvarpsleik þann 30. október nk. sem er heimaleikur á móti Randers. 

Við áttum annars bara ágætlega huggulegt Iceland Express flug heim. Við bjuggumst við að það yrði hálf tóm vél þar sem fæstir væru nú að smella sér til útlanda svona í miðri kreppunni. Á leiðinni til Íslands var það nefnilega raunin - vélin var svo fámenn að það var heil sætaröð á mann. Það var hins vegar ekki þannig í morgun og vélin var stútfull. Í vélinni voru semsagt við Lárus. Einn vinkonuhópur að fara í tjúttferð til Köben og voru heldur betur orðnar hressar strax um hálf sjö leytið í morgun - búnar að kaupa allt vínið í fríhöfninni til að spara og byrgja sig upp áður en komið væri í dýra útlandið! Fyrir aftan þær sat síðan Klovn (úr þáttunum) ásamt kærustu og síðan fullt af fólki sem hafði örugglega unnið einhverja ferð til Íslands í boði hans. Það fólk var með fulla poka af dóti og vöru frá Íslandi og hafði örugglega gert kjarakaup síðustu daga. Restin voru síðan erlendir verkamenn á leiðinni heim. Nánast ennþá í vinnugallanum, örugglega dauðfegnir að komast heim og geta farið að vinna fyrir decent kaupi.

Veit ekki hvort þetta flug endurspeglar Ísland í dag en það var allavega voðalega gott að koma heim og geta knúst alla fjölskylduna. Líka gott að geta komið aftur hingað heim á Matthæusgade 48.

 

Tuesday, October 21, 2008

tíminn flýgur

Stoppið á Íslandi er varla byrjað og nánast búið. 

Ég er þrátt fyrir allt búin að hitta nokkra vini og vinkonur og eiga ómetanlegar stundir með þeim. Við hittum fjölskylduna hans Lalla á einu bretti í gærkvöldi sem var alveg yndislegt og fengum síðan skammt af minni fjölskyldu í dag sem var líka gott þrátt fyrir að við værum saman komin til að kveðja afa gamla. Hefðum ekki getað fengið betra veður og athöfnin var í alla staði falleg og góð. 

Síðasti dagur heimsóknarinnar verður eflaust nýttur til að fara í sundlaugina í Laugarskarði og hlaða batteríin fyrir "heimkomu" til Danmerkur, lærdóm, ritgerðarskrif, körfuboltaæfingar og endurhæfingu. 

Næsti leikur hjá Lalla er síðan á laugardaginn næsta og við vonum auðvitað hið besta, semsagt að kappinn geti spilað nokkrar mínútur... Pakka í kvöld og svo flugrútan aðfaranótt fimmtudags. 
 


Thursday, October 16, 2008

Heim á leið

Ísland fagra Ísland eftir einungis nokkra klukkutíma - sjáum til hvernig ég fíla mig í ástandinu heima. Lalli kemur síðan á mánudaginn og við verðum fram á fimmtudag. 

Fengum gleðifréttir í gærkvöldi. Sátum yfir nokkrum rauðvínsglösum með stelpunni sem við leigjum af og hún framlengdi samningnum við okkur um nokkra mánuði svo núna þurfum við ekki að hafa áhyggjur af íbúðamálum fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta sumar. Gleði og glaumur!! 

Lalli er ennþá haltur og með afar ófunksjónelt læri og hné en mætir þrisvar í viku í nudd og sjúkraþjálfun svo vonandi verður hann góður fyrir þarnæsta leik. Liðið er auðvitað bara hálft lið án hans finnst mér - og reyndar mörgum öðrum líka :) 

En nú er að pakka og skrifa lista númer ég veit ekki hvað... Sjáumst kannski heima! 

Sunday, October 12, 2008

Fyrirmyndarforeldrar

Ég hef alla tíð tekið foreldra mína mér til mikillar fyrirmyndar. Þau eru stoð mín og stytta og mínir helstu aðdáendur. Þau hafa líka alið mig vel upp og kennt mér að hafa falleg og góð gildi að leiðarljósi í lífinu. Verandi mínir helstu aðdáendur og stuðningsmenn vilja þau auðvitað allt fyrir mig gera. 

Ég ræddi við mömmu á msn í dag þar sem hún spurði mig hvað væri í kvöldmatinn hjá mér. Ég er ekki mjög framtakssöm í eldhúsinu og sagði henni því sem satt var að það væri skúffukaka í kvöldmatinn hjá mér. Ég sagði jafnframt að mig langaði samt helst af öllu í fisk (vitandi það að tengdaforeldrar mínir ætluðu að hafa fisk í kvöldmatinn hjá sér). Mamma sagði við mig: Auðvitað elskan við höfum fisk þegar þið komið - allt fyrir ykkur. 

Um það bil 10 mínútum síðar tilkynnti hún mér að pabbi stæði brosandi út að eyrum með stærðarinnar fisk í hendinni fyrir utan gluggann hjá henni. Hann gerði sér nefnilega lítið fyrir og stökk niður að á og veiddi fisk um leið og prinsessan bað um fisk. Já það kostar ekki alltaf peninga að dekra litla barnið í fjölskyldunni!

Síðan voru sendar myndir af aflanum og þeim huggulega kvöldverði sem bíður okkar við heimkomu. 

Ég elska þau svo mikið. 




lífið og tilveran

Þá held ég að það sé löngu orðið tímabært að koma nokkrum stöfum á blað. Við höfum að sjálfsögðu verið einstaklega upptekin af kreppunni, gjaldeyris- og gengismálum og þeirri staðreynd að allir reikningarnir okkar voru frystir af dönsku bönkunum og ekki séns að millifæra íslenska peninga síðustu daga. En eins og ég hef sagt áður og ætla að halda fast í þá erum við samt ótrúlega heppin þjóð. Fyrir utan þær náttúruauðlindir sem við eigum (sem ég vil nú sem minnst þurfa að ganga á) þá eigum við líka bara ótrúlegan mannauð og því má ekki gleyma. Við eigum vel menntað fólk á öllum aldri. Allir kunna að lesa, allir eiga kost á ókeypis menntun og með slíkt bakland eigum við svo vel að geta komist í gegnum þetta ástand.

Já nú set ég punkt um þessi málefni öll - aldeilis búið að ræða þetta hérna í danska landinu fram og til baka og allir sammála um að það sé lítið hægt að gera annað en að vera bjartsýnn.... og fara síðan að leita sér að vinnu til eiga fyrir næstu leigu ;)

Það er nú líka þannig að lífið minnir sífellt á hversu hverfult það er og síðasta mánudag var dagurinn hans afa runnin upp. Lífið tók heldur betur U beygju þar sem ég stóð í háskólagarðinum í 18 stiga hita, sól og blíðu, með brosið út að eyrum eftir vel heppnaðann fund með kennaranum mínum og fékk síðan símhringingu um að afi hefði dáið. Ef ég byggi yfir ofurkröftum þá hefði ég hugsað mig heim á Ísland strax til að geta haldið utan um ömmu mína sem er að missa annan helminginn af sjálfri sér og knúsað mömmu mína sem er að missa pabba sinn. En einu ofurkraftarnir sem ég þekki eru lífið sjálft sem tekur og gefur til skiptist og við fáum yfirleitt engu ráðið um það hvenær við fáum eða hvenær við missum.

Nú erum við semsagt á leið heim til Íslands til að kveðja afa. Eins og ég skrifaði á bloggið mitt þá ætla ég að strjúka honum um skallann og kúra í hálsakotið hans í síðasta sinn. Ég legg af stað heim á fimmtudagskvöldið næsta og Lárus kemur á mánudeginum helgina eftir. Mestur tíminn fer í að knúsa fjölskylduna en ef einhver tími gefst til þá hittum við kannski á vinafólk...

Þessar tvær vikur hafa semsagt verið nokkuð rússíbanakenndar hjá okkur. Lárus meiddist á læri (fékk högg á lærvöðvann) fyrir um það bil tveimur vikum síðan og hefur ekki enn spilað leik í deildinni. Fyrsti leikurinn var á laugardaginn síðasta og leikur nr. tvö er í dag. Við vonum að hann verði orðinn betri fyrir þriðja leikinn sem er á sunnudaginn eftir viku. En hann er í sjúkraþjálfun, nuddi og góðri meðferð svo vonandi liggur leiðin bara upp á við. Hann er allavega farin að geta haltrað um en fyrst í stað þurfti að biðja leigubílstjóra að bera hann inn og út úr bílnum... svo hann er nú allur að koma til kallinn :)

Vona að lesturinn hafi ekki verið of niðurdrepandi því í raun veru erum við bara nokkuð góð og sátt með lífið og tilveruna. Allt hefur sinn gang og reynslan hefur kennt mér að það er mitt hlutverk í lífinu að reyna að gera það besta úr hverjum degi og öllum þeim aðstæðum sem við erum í. Við ráðum ekki við lífið en við ráðum svo sannarlega hvernig við tökumst á við það.

Knús á ykkur öll
E + L

Sunday, October 05, 2008

Hemmi Gunn

Hún Gústa mín póstaði þessu á Facebook og hér ljómar allt af gleði.

http://www.youtube.com/watch?v=-snDHxxuGSs

Friday, October 03, 2008

Svona er lífið...

Ég vogaði mér í fyrsta skiptið í langan tíma inn á heimasíðu Glitnis og alla leið inn á netbankann minn. Sat síðan í smá stund og grenjaði og vorkenndi okkur ógeðslega mikið og fannst lífið ótrúlega ósanngjarnt. Fannst ég algjörlega bjargarlaus og í vonlausri stöðu. Fór síðan í skólann og kvartaði þar yfir þessari ótrúlegu krísu sem væri nú á Íslandi. Peningarnir mínir væru nánast einskins virði og ég skuldaði helmingi meira í dag en í gær. 

Bekkjarfélagar mínir horfðu á mig stórum augum og spurðu hvort ég hefði ALDREI upplifað smá peningakreppu? Ég svaraði náttúrlega mjög móðguð að þetta væri ekkert SMÁ Ísland væri að fara á hausinn. Þau horfðu á mig vantrúuð og spurðu hvort við værum ekki ein af best settu OECD þjóðunum (hérna er OECD kallað "the rich countries club"). Jú ég hélt það nú svona á flestum sviðum en það gæti nú aldeilis breyst núna ef þetta ástand héldi áfram. Ég sagði síðan í löngu og mjög tilfinningaþrungnu máli frá því að nú kæmist ég ekki heim um jólin eða í brúðkaup bestu vinkonu minnar, ég ætti ekki einu sinni peninga til að borga næstu leigu og þyrfti að biðja um meira lán sem ég vissi ekkert hvort ég fengi eða ekki og svo framvegis og ef ég fengi það væri það á okurvöxtum sem ég yrði örugglega allt mitt líf að borga niður. 

Æ Eva sögðu þau, mikið er yndislegt hvað þú kemur úr vernduðu umhverfi. Ég setti upp skeifu og hélt áfram að reyna að sýna fram á alvarleika málsins. Þau spurðu þá hvort það væri AIDS faraldur í landinu mínu, eða hvort það væri stríð, eða hvort það hefði yfir höfuð einhvern tíman verið stríð á Íslandi, eða hvort ég gæti ekki fengið fjölskylduna mína í heimsókn vegna þess að þeim væri neitað um visa, eða hvort ég ætti bræður sem þyrftu að fara í herinn til að deyja fyrir "ættjörðina"....

Ég reyndi að snúa upp á mig en var á endanum réttilega farin að þakka fyrir að eiga foreldra sem komast fyrirhafnarlaust í heimsókn til mín, fyrir að þurfa ekki að taka þátt í stríði, fyrir að vera ekki með AIDS og fyrir að eiga heima í ótrúlega góðu landi þrátt fyrir allt og allt - og trúið mér, mér finnst þetta ekki réttlætanleg eða ásættanleg staða enda búin að skæla nokkrum sinnum í síðustu viku yfir þessu hörmungarástandi. Sem er þó í samanburði við margt annað ekki svo slæmt og kemur vonandi til með að ganga yfir á endanum.