Jæja gott fólk. Ég kem mér reglulega í bloggklípu. Hún felst í því að ég blogga ekki í lengri tíma sökum anna eða leti og þegar ég loksins kem mér í það vex mér verkið í augum... En ég ætla samt að reyna að segja frá í ekki of löngu eða leiðinlegu máli hvað á daga okkar hefur drifið síðan ég lét síðast heyra frá okkur.
Ferðin til Salta var algjörlega frábær. Við fórum með jeppa upp í fjöllin fyrir ofan Salta og ferðuðumst þá leið sem Tren a las nubes fór áður en hún hætti að ganga. Lestin til skýjanna eða Tren a las nubes er lest sem var byggð á árunum 1921 - 1927. Hún var upphaflega byggð til að ferja málma úr námum frá Chile yfir til Argentínu. Þegar byggingu lauk voru hins vegar námurnar tómar og því ákveðið að nýta lestina fyrir ferðamenn. Leiðin liggur að mestum hluta ca 4000 metrum yfir sjávarmáli sem er frekar þunnt loft eins og við fengum að kynnast. Í ferðinni heimsóttum við lítil þorp þar sem fólkið vinnur fyrir sér með lamadýraræktun og vefnaði. Við sáum líka mjög flottar og stórar frumbyggjarústir sem eru síðan fyrir tíma Inkanna. Sáum kirkjugarða þar sem trú Inkanna og kaþólska trúin höfðu blandast skemmtilega saman og margt fleira. Aðallega var þó útsýnið stórfenglegt og bílarnir buðu upp á að opnast alveg í toppinn þannig að hægt var að standa upp úr þakinu og fylgjast með fjallafegurðinni. Strákarnir stóðu mun lengur upp úr þakinu en við stelpurnar enda lét frostið og kuldinn alveg finna fyrir sér í þessari hæð.
Flugum tveimur dögum seinna (sem er alltof stuttur tími til að vera í Salta) aftur til Buenos Aires og fórum með Guðrúnu og Viðari á eitt flottasta tangóshow borgarinnar. Eftir stutt stopp í borginni var pakkað enn og aftur ofan í töskur og í þetta skiptið var flíspeysan alveg látin vera og bikini og stuttbuxur efst í töskunni. Klukkutímaflug til Iguazú leiddi okkur inn í einn fallegasta þjóðgarð sem fyrirfinnst. Iguazú fossarnir eru staðsettir í þjóðgarði sem liggur á landamærum Argentínu og Brasilíu. Við eyddum tveimur dögum á þessum stórfenglega stað þar sem náttúran sýnir og það og sannar hvers megnug hún er. Um það bil 75% af fossunum liggur Argentínu megin og 25% Brasilíu megin. Við heimsóttum báðar hliðar sem hafa hvor fyrir sig mikið aðdráttarafl. Ef ég yrði að velja á milli þeirra myndi ég að sjálfsögðu velja Argentínu ;) Það er þó ekki bara Argentínustoltið sem hefur áhrif á heldur er upplifunin meiri og sterkari Argentínumegin þar sem við fórum í bátsferð undir fossana og sigldum um strendurnar sem myndast við fossana, við lögðum bátnum við strönd og löbbuðum upp í jeppa sem keyrðu okkur síðan um Amazon frumskóginn. Allt þetta var algjörlega toppurinn á ferðalaginu og því vel við hæfi að enda þar.
Nokkrum flugubitum og sólargeislum síðar flugum við aftur til BA og eyddum helginni þar í að borða góðan mat, skoða helstu túristastaðinu og skemmta okkur með Guðrúnu og Viðari. Þau voru að fara rétt í þessu og ekki laust við að það sé hálf tómlegt í íbúðinni okkar núna. Það var algjört ævintýri að fá þau með okkur í ferðalagið og gerði upplifunina ennþá betri - að geta deilt henni með vinum sínum það er að segja.
Núna tekur við síðasta vikan okkar hérna í borginni - akkúrat þegar farið er að vora og mannlífið að byrja að blómstra. Við ætlum að njóta síðustu daganna í botn áður en við komum aftur heim í real life. Þangað til næst...
Kossar og knús - myndir væntanlegar (nú verð ég bara að fara að klæða mig og drífa mig út að borða)
No comments:
Post a Comment