Wednesday, February 18, 2015

Hið óvænta

Hér á bæ verður heimilisfólkið afar sjaldan veikt enda veðrátta með eindæmum góð þrátt fyrir einstaka rigningardaga og hressilegar vindhviður. Ein slík braut reyndar stóra grein af mun stærra tréi í garðinum okkar um síðustu helgi með þeim afleiðingum að greinin féll á trampólínið hennar Heru Fannar og reif það í sundur. Það var frekar leiðinleg uppgötvun en vonandi finnum við viðgerðarmann eða konu hér í borginni.

En semsagt... ég var að hreykja mér af almennum hraustleika fjölskyldunnar sem hefur varla fengið kvef síðan við fluttum til Malaví. Staðföst í þeirri trú að ég verði aldrei veik dró ég það því í nokkrar vikur að fara til læknis vegna óþæginda í eyra. Í nokkrar vikur, núna bráðum þrjá mánuði, var ég - og er enn - með reglulega hellu fyrir hægra eyra. Þegar ekkert lát virtist á þessum óþægindum drattaðist ég semsagt loksins til læknis. Aðallega þó til að fá úr því skorið hvort að eitthvað kvikt hefði tekið sér bústað í eyranu... Læknirinn sem ég heimsótti starfar á einkarekinni læknastofu í hverfinu mínu (sem þykir með því fínna hér í borginni). Hann var ekki við þegar ég kom en hjúkkurnar sem tóku á móti mér sögðust kalla hann á vakt. Á meðan við biðum eftir lækninum tók við hefðbundin skoðun þar sem ég var vigtuð, hitamæld og blóðþrýstingsmæld (SOP). Þegar læknirinn kom leit hann út fyrir að hafa verið truflaður við síðdegslúrinn sinn, úti í garði, því hann var bæði hálf illa áttaður og í félagsskap nokkurra maura sem skriðu um á skyrtukraganum hans. Ég greindi frá hellunni í eyranu og hann tók óðara til við að reyna að leita að einhverjum græjum til að skoða inní eyrað. Eftir mikið fum og fát við brotnar og batteríslausar græjur segir hann við mig: tækin á þessari stofu eru bara til sýnis, ekki til notkunar. Síðan teygði hann sig í eintak af gömlu dagblaði sem lá á borðinu hans, rúllarði því upp í lítinn kíkir og dró svo nýlegan snjallsíma upp úr mauraskyrtunni. Potaði svo dagblaðinu inní eyrað á mér og lýsti með símanum. "In Malawi you improvise" sagði hann og hvað upp þann dóm að ég væri með smá sýkingu og kannski vatn í eyranu. Ràðlagði sýklalyf og malaríupróf - ég afþakkaði bæði og er enn með hellu.

Aðrar læknisheimsóknir fjölskyldunnar hafa tengst væntanlegri viðbót í fjölskylduna. Við erum mjög sátt við læknirinn okkar þar. Hann starfar líka á einkarekinni læknastofu sem er afar þægilega staðsett við hlið heimilis íslenska sendiherrans, sem bakar heimsins bestu vöfflur... Læknirinn hefur yfir að ráða afar öflugu sónartæki sem gefur færi á að reikna út ýmislegt eins og stærð, hlutföll og aldur barnsins. Í þriðju skoðun, um það bil á 21. viku, ákváðum við að spyrja lækninn út í kyn barnsins. Ástæðan var einna helst sú að við vildum geta undirbúið stóru systur sem virtist ekki halda að það væri líffræðilegur möguleiki á því að barnið yrði neitt annað en "stúlka, stelpa eða girl" eins og hún sagði sjálf. Læknirinn skoðaði barnið vandlega og sagðist næstum því 100% viss um að Hera hefði haft rétt fyrir sér því þetta væri lítil stelpa. Við urðum voða glöð og ræddum það við Heru sem aðstoðaði við að finna nafn á litlu systur. Í fyrradag héldum við fjölskyldan öll saman í síðustu sónarskoðunina hér í Malaví, áður en við höldum heim. Læknirinn var ánægður með gang mála og sagði okkur að líklegast væri ég gengin aðeins lengra en hann hafði reiknað með upphaflega og bætti svo við: "Þetta er að verða stór strákur..."

Ha! ...já við vorum búin að tala um kynið var það ekki?

Það er skemmst frá því að segja að gera varð hlé á sónarskoðuninni því ég hló svo mikið á bekknum hjá honum. Hann þóttist nú alveg handviss um kyn barnsins og benti okkur á lítið typpi því til sönnunar (hefði getað verið hné, olnbogi eða bara hvít skella á sónarmyndinni í mínum augum). Við tóku heimspekilegar umræður við Heru Fönn á leiðinni heim sem enduðu reyndar mjög kasúalt á því að Hera sagði: Mamma ég var bara að grínast þegar ég sagðist ekki elska lita bræður ég geri það líka, við skulum skíra hann Zorró (sem síðan breyttist í Kári, af augljósum ástæðum, og síðan í Fagur).

Við erum himinlifandi með hvort kynið sem er og erum reyndar á þeirri skoðun að kannski er bara best að sjá til hvað verður þegar barnið kemur í heiminn. Ég hugsa að èg fari líka til læknis vegna hellunar í eyranu fljótlega eftir að við komum heim.

Sunday, February 08, 2015

og svo auðvitað fjölskyldulífið...

...sem gengur sinn vanagang í byrjun febrúar. Veðrið batnar óðum (ekki að það sé yfir miklu að kvarta) en bærilegri hiti og færri rigningardagar bjóða nú æ oftar upp á fleiri notalegar stundir í garðinum og á pallinum þar sem hvorki þarf að flýja úrhellisrigningu eða kæfandi hita. Það koma ennþá góðir skúrir sem leiða óneitanlega til leka á ótal stöðum, rafmagnsleysis og skordýrafaraldurs... En það er allt í góðu, eitthvað sem venst hvort sem þið trúið því eða ekki og núllast nánast út þegar hægt er að breiða út jógadýnuna á pallinum í skugga mangótrès, fylgjast með eðlunni sem býr undir pallinum og njóta fuglasöngsins. 

Það fækkaði um einn á stóra heimilinu okkar núna í febrúar þegar Huld vinkona okkar sem hefur búið og starfað hér í Malaví sl. 3 ár kláraði samninginn sinn við World Food Program og flaug til Zimbawbe. Fyrir utan Huld höfum við líka verið með yndislega norska stelpu í gestaálmunni okkar en hún er líka á förum í mars. Það verður því 'eingöngu' við litla fjölskyldan sem flytur aftur inní kisuhúsið (eins og Hera Fönn kallar það) þegar við snúum aftur til Malaví. Það fyrsta sem Guðrún vinkona tók eftir þegar þau komu í heimsókn var hálfgerður kommúnubragur á heimilinu sökum fjölda fólks sem annað hvort hefur aðgengi að húsinu eða býr hér. Það verður því heldur betur breyting á heimilisbragnum - sem er hið besta mál held ég. Það verður ekki bara notalegt að fá góðan tíma til að læra inn á það að vera fjögurra manna fjölskylda í Malaví heldur verður líka nóg pláss fyrir góða gesti sem hyggjast láta Afríkudrauminn rætast á komandi ári. 

En ef við lítum okkur nær í tíma þá erum við öll sem eitt vægast sagt spennt fyrir næstu mánuðum. Við komum heim í byrjun mars þar sem litla systir er væntanleg í apríl. Við vorum svo lánsöm að UNICEF lengdi barneignarorlofið í sex mánuði nýlega sem er afar óvenjulegt fyrir alþjóðleg samtök eða fyrirtæki en auðvitað mjög viðeigandi og í alla staði eðlilegt fyrir stofnun eins og UNICEF. Við getum þar af leiðandi notið þess að vera á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina alvega fram í september. Lukkustjarnan sem iðulega virðist fylgja okkur hefur ekki brugðist okkur núna og það virðist allt vera að smella fyrir komandi heimferð. Reyndar hefur lukkan okkar alltaf byggst á því afbragðsfólki sem í kringum okkur er. Ég er sannfærð um það að fátt fólk er jafn heppið með vini og fjölskyldu og við Lárus. Endalaus greiðvikni, hjálpsemi og góðir straumar hafa leitt til þess að við komum heim í fimm mánaða barneignarfrí sultuslök og áhyggjulaus. 

Hera Fönn er án nokkurs vafa sú spenntasta og það eru ekki bara jólin sem virðast fela í sér endalausa bið. Hún er reyndar ennþá að bisa við að setja skóinn út í glugga á kvöldin, bara svona ef ske kynni að það væru allt í einu komin jól. Við lásum jólasögu síðast í gærkvöldi og ræddum í hundraðasta skiptið um það að jólin koma bara einu sinni á ári. En það er fleira að brjótast um í litlu höfði þessa dagana, margt alveg óskaplega skondið og skemmtileg. Hún er að vonum mjög spennt að fá litlu systur sína í heiminn og hefur að viðmiði að fyrst þurfi hún að verða fjögurra ára. Þar er komin enn ein biðin - að bíða eftir afmælinu. Hún er afar upptekin af því að eldast og hefur varla jafnað sig af gleði eftir að hún uppgötvaði að að hún yrði alltaf, um aldur og ævi, eldri en litla systir sín. Hún tók sig til um daginn og bað um að fá að tala við litlu systur um eitt mikilvægt mál. Ég varð við óskinni og vippaði upp bolnum. Hún setti munninn alveg að naflanum (fyrir þá sem þekkja mig vita að ég þurfti að sýna styrk á því augnabliki) og kallaði hátt inn um naflann: "Litla systir ég er mjög spennt að fá þig út úr maganum, en það er eitt sem þú þarft að vita. Ég verð alltaf eldri en þú og þú verður alltaf yngri en ég því ég fæddist löngu á undan þér!"  

Síðan bætti hún reyndar við að hún væri líka ekki síður spennt að fá bæði skúter og prinsessu ipad en þess hefur hún óskað sér á hverjum degi núna í dágóðan tíma. Við höfum tekið langar og misheitar umræðu um það að börn eigi ekki sinn eigin ipad (við erum nýbúin að fjárfesta í einum fjölskyldu ipad sem inniheldur 2 leiki fyrir hana) og að hún eigi stórgott hjól svo kannski sé engin þörf á skúter. Þær umræður virðast engu skila og hún heldur staðföst áfram að bera upp þessa ósk við hin ýmsu tækifæri. Auk þessara óska hefur líka borið á miklum vilja og áhuga fyrir því að komast í skíðaskóla og á sundnámskeið (hvorugt í boði í Malaví þó svo að reglulega sé farið í sund). Því hefur henni nánast verið lofað báðum tómstundum á meðan á Íslandsdvölinni stendur. 

Foreldrarnir eru eins og gefur að skilja spenntastir fyrir því að komast heim til þess að taka á móti nýjum fjölskyldumeðlim, hitta góða vini, njóta íslenska vatnsins og eyða tíma með fjölskyldunni áður en síðasta árið okkar í Malaví rennur upp. 

Sunday, February 01, 2015

Vinnuskýrsla

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir litaðist janúarmánuður af neyðaraðstoð og yfirvinnu tengdri flóðaástandinu hér í Malaví. Fréttir um allan heim fjölluðu um flóðin og Ísland lagði í síðustu viku sitt af mörkum með rausnarlegum styrk til bæði Unicef og WFP hér í Malaví. Ég hef aldrei unnið í neyðarástandi fyrr og það er óhætt að segja að upplifunin og reynslan sé búin að vera ótrúlega áhrifamikil. Unicef skrifstofan mín bràst einna fyrst við ástandinu og skipaði strax á fyrsta degi flóðanna teymi sem voru send samdægurs út í þau héruð sem verst urðu úti. Flóðin hafa aðallega átt sér stað í suðurhluta landsins og í héruðum sem eiga landamæri að Mozambique. Hér í höfuðborginni hefur sannarlega rignt en ekki linnulaust eða með jafn miklum krafti eins og víða fyrir sunnan. Fyrstu Unicef teymin sàu um að meta ástandið og aðstoða fólk sem hafði flúið heimili sín og leitað skjóls í skólum, kirkjum eða tjaldbúðum. Með mikilli gagnasöfnun í fyrstu vikunni gátum við sent fyrstu hjálpargögn á þá staði sem þurftu mest á aðstoð að halda strax á fyrstu dögunum. Hátt í 200 skólar voru til að mynda nýttir sem búðir fyrir fólk sem hafði flúið heimili sín. Í mörgum þessara skóla, sem samanstanda yfirleitt af 2-5 afar einföldum kennslustofum og örfáum útikömrum... (semsagt engri stórri yfirbyggingu eins og við eigum að venjast), voru og eru í kringum 500 fjölskyldur að leita skjóls. Í Malaví samanstendur meðalfjölskylda af foreldrum með 5 börn. 

Það þótti ekki gott ráð að senda konu komna sjö mánuði á leið út í feltið en sem betur fer nýttust kraftar mínir vel hér í Lilongwe. Ég vann sl. 2 vikur með stóru teymi Malava frá National department of disaster management og teymi frá OCHA (Office for the coordination of humanitarian affairs) og UNDAC (United Nations disaster assessment and coordination). Á fyrstu rúmu vikunni unnum við að því að samhæfa alla viðbragðsaðila, bæði innanlands og utan. Ná utan um alla þætti aðgerða og alla aðila með því að skrifa upp eina stóra viðbragðsáætlun. Þessi vinna var ótrúlega lærdómsrík. Það var allt annað en einfalt að sameina aðgerðir á skynsamlegan og árangursríkan hátt í jafn stóru landi og Malaví er, með jafn mörgum aðilum, stofnunum og félögum sem vilja og þurfa að koma að aðgerðunum. Hver er þörfin mest fyrir mat, vatn, skjól, vernd, lyf, læknisaðstoð, klósettaðstöðu? Og síðast en ekki síst hvernig má sjá til þess að öll börn í þessum aðstæðum geti haldið áfram að eiga eins eðlilegt líf og unnt er með því að njóta áframhaldandi kennslu og fá skjól frá amstri dagsins í  gegnum nám og leik. Meðal þess sem við í Unicef gerðum í þessari viku var að veita hópi kennara ákveðinn 'crash' kúrs í hvernig á að halda úti skólastarfi í neyðarástandi. Þessir kennarar munu dreifast á mánudaginn í verst settu skólana og leiða skólastarfið þangað til að ákveðið 'normalítet' kemst á aftur. 

Nú þegar allt lítur út fyrir að við séum að komast í gefnum fyrsta stig neyðaraðstoðarinnar, það er að skipuleggja raunhæfar aðgerðir, safna peningum fyrir þeim og byrja að vinna eftir áætluninni tekur við ekki síður mikilvægt tímabil. Tímabil eftirfylgni og endurmats. Það þarf líka að huga að venjulega prógramminu okkar og sjá til þess að ekki verði of mikið rof í þeirri dagskrá. Ég fór einmitt til Zomba í síðustu viku í þeim erindagjörðum; til að undirbyggja frekara samstarf milli Unicef, upplýsinga- og tölfræðideildar menntamálaráðuneytisins og malavísku Hagstofunnar. Samstarfið felst í því að deildin fari í gegnum ákveðið sjálfsmat eða innra mat og njóti við það aðstoðar Unicef og Hagstofunnar og í kjölfarið hefjist markviss umbótavinna þar sem áherslan verður á að auka gæði tölfræðilegar úrvinnslu mennta gagna, greiningu og nýtingu upplýsinga.