Tuesday, October 15, 2013

Praktísku atriðin

Við höfum átt heima á ólíkum stöðum í heiminum: Íslandi, Spáni, Argentínu og Kaupmannahöfn sem dæmi. Í hvert skipti sem við flytjum og hefjum búskap í nýju landi fer um mig tilfnning sem er sambland af spennu, stressi, eftirvæntingu og gleði. Það er eitthvað alveg sérstakt við að koma sér upp heimili; innrétta, huga að stóru hlutunum jafnt sem smáatriðunum. Við höfum langoftast þurft að vera ansi úrræðagóð, nýta það sem til er, gera mikið úr litlu... Sjaldan höfum við hins vegar þurft að huga að jafn ólíkum hlutum og nú þegar við flytjum inn í nýtt hús í Malaví.

 Á "to do" listanum í þessari viku er til dæmis að hringja og panta mann til þess að fara yfir íbúðina með varnarúða gegn hvers kyns skordýrum. Þá þurfa einnig að koma menn til að taka út almennt öryggi á lóðinni með tilliti til UN reglna. Við þurfum líka að huga að loftkælingu og uppsetningu á slíkri græju því henni er ekki fyrir að fara í íbúðinni sem stendur. Okkur hefur hins vegar hitnað jafnt og þétt síðustu daga og erum nú á því stigi að merkja ósýnilega línu í mitt rúmið og biðja svo hvort annað afar vinsamlegast að fara ekki yfir þessa línu til þess að lágmarka klístraða og sveitta snertingu yfir nóttina. Loftkæling er þar af leiðandi nauðsynleg ef vel á að fara. Við þurfum síðan að huga sjálf að sorphirðu en slíkt fer yfirleitt í gegnum einkafyrirtæki. Klóakmál eru líka í höndum húseiganda og því þurfum við að skoða þau mál vandlega þegar við flytjum inn. Hefur verið hreinsað nýlega eða þarf að huga að því?  

Talin moskitóbit á húsfrúnni eru orðin um það bil 30 talsins og því er eitt af mikilvægari verkum fyrir flutninga að fjárfesta í góðum moskítómeðhöndluðum netum sem hægt er að sofa vært undir. Við viljum helst fá net sem ná vel utan um rúmið en liggja ekki þétt upp við andlit og útlimi (þær bíta mig til dæmis bara í gegnum netið ef handleggurinn liggur upp við það). Netin hef ég ekki ennþá séð í búðum og þarf því að leggjast í rannsóknarvinnu. Rúmdýnur virðast líka vera afar sjaldgæfar hér í borginni. Ítrekaðar leiðangursferðir Lárusar hafa lítinn sem engann árangur borið og við sjáum fyrir okkur að sofa á 90 cm vindsæng fyrstu dagana ef ekki fer að birta til. Á síðasta kvenfélagsfundi fékk Lalli þó einhverjar aukaupplýsingar og ætlar að láta reyna á það í vikunni. 

Já svona eru verkefnin bæði mörg og mismunandi þegar hugað er að flutningum. Við leyfum ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með þessum æsispennandi dögum sem framundan eru hér hjá okkur í Lilongwe.   

2 comments:

Telma said...

Jáhh svolítið ólíkir hlutir sem þarf að huga að. Krossa putta með að þið finnið góða dýnu og þú fáir gott net. Því ég finn mikið til mér þér og moskító bitunum sem þú ert að safna. Ég er líka rosa vinsæl hjá þeim.... og ég er með hrikalegt ofnæmi í ofanálag :( Knús til ykkar og hlakka til að fylgjast með!!

Laufey Sif said...

Omega 3-6-9 + b vítamín :-) Óendanlega skemmtilegt að lesa um ævintýri ykkar í Malaví! Kveðjur úr kuldanum í Hveragerði. Laufey Sif.