Við þeyttumst um borgina allan
fyrsta morguninn og reyndum eftir bestu getu að leggja helstu byggingar og
kennimerki á minnið enda lítið um skilti, hvað þá götuheiti. Nokkrar langar og
fjölfarnar götur bera reyndar heiti en það er líka nauðsynlegt að taka eftir og
þekkja ýmislegt annað eins og lit á húsum og gróður í görðum til þess að rata
um borgina. Ég segi til dæmis við UNICEF bílstjórann sem skutlar mér heim eftir
vinnu að ég eigi heima á malarveginum bak við Ufulu götu, í húsinu á hæðinni
með rauða hliðinu og pálmatrjánum.
Skipulagt kaos er eflaust ágæt
lýsing á borginni sem er í veruleikanum ekki eiginleg borg heldur frekar stór
bær sem skiptist í gamlan bæ, nýjan bæ og númeruð íbúðarhverfi. Hverfin og
húsin eru númeruð eftir aldri þannig að hús númer 1 í hverfinu er fyrsta húsið
sem var byggt þar og hús númer 2 annað húsið sem var byggt og svo koll af
kolli. Númerin eru því alls óháð staðsetningu á húsunum og því allt eins
líklegt að hús sem standa hlið við hlið beri númerin 2 og 99.
Við erum búin að nýta vikuna í að
skoða nokkur hús til þess að leigja. Erum með eitt í sigtinu en bökkuðum líka
ansi hratt – eða neituðum hreinlega – að fara inn í önnur. Hér er leiguverð
ansi hátt ef ætlunin er að búa í húsi sem kemst nálægt því að vera „vestrænt“ í
staðli. Smiðsdóttirin á örlítið erfitt með þá staðreynd að hurðar passa sjaldan
inn í falsið, rafmagnssnúrur liggja afar sjaldan inn í veggjum heldur mun frekar
utan á þeim og nákvæmni er eflaust ekki það sem er predikað þegar flísar eru
lagðar. Pabbi og mamma – sem eru búin að kaupa sér miða til Malaví um jólin, húrra
fyrir þeim – fá eflaust lista yfir hluti sem þarf að koma með úr smíðakassanum.
Pabbi er ekki örugglega pláss fyrir falshefil?
En staðlar og norm eru tilbúnar og lærðar
þarfir sem eiga eftir að breytast eins og heimsmyndin okkar. Við erum fyrst og
fremst að leita að húsi í hverfi sem verður ekki oft fyrir vatns- eða rafmagnsskorti.
Samkvæmt innherjaupplýsingum verða hús sem tengjast inn á sömu rafmagnslínu og
forsetahöllin sárasjaldan fyrir rafmagnstruflunum á meðan önnur hús og jafnvel heilu hverfin geta verið án
rafmagns marga klukkutíma á dag, oft í viku. Þá þarf líka að huga að því hvort
að húsið sem við leigjum sé búið vatnstanki ef að skortur yrði á vatni.
Lúxusinn sem við komum til með að leita eftir felst í því hvort að húsið hafi
góðan garð þar sem litlir fætur geta hlaupið um og þar sem hægt er að rækta
eigið grænmeti og ávexti. Enda góðri sprettu og fjölbreytni fyrir að fara í
þessum heimshluta. Margir sem við þekkjum geta hæglega náð sér í mangó, avakadó,
appelsínur og banana úr garðinum. Það heillar mig persónulega frekar en að
þurfa að prútta við sölumenn á götunum um verð. Prútt er ekki mín sterkasta
hlið. Sem betur fer höfum við verið í fylgd Huldar fyrstu dagana hér – annars hefði
ég líklega borgað hátt í 3000 íslenskar krónur fyrir bananaknippi um daginn.
5 comments:
skemmtilegt að lesa bloggið ykkar Eva :)
kv
Kristrún
Skemmtilegur pistill - áfram svona! Við fréttum einmitt á sínum tíma að þegar ljósin væri kveikt í forsetahöllinni þyrfti að taka rafmagnið af öðrum hverfum!
Já hahaha það gæti alveg staðist!
Þetta er nú meira ævintýrið og greinilegt hvað maður er góðu vanur. Er ekki viss um að ég væri jafn fljót að aðlagast og þið þessum gersamlega ólíka lífstíl en hugsanlega hefði maður gott af því :) Hafið það áfram gott og gangi ykkur vel með leitina að húsnæði!
Kv.Hugrún
Hahahahaha skemmtilegur pistill elsku hjarta. Knús á ykkur og litlu fæturnar mínar.
Júlía
Post a Comment