Síðastliðin ár hef ég ekki fundið beint fyrir einhverju jólaskapi, jólaanda eða jólafíling - allt eftir því hvað fólk kýs að kalla þetta hugarástand sem virðist grípa marga í desember eða nóvemberlok (eða jafnvel í október).
Ég velti því fyrir mér núna hvað valdi því að ég finni nú allt í einu fyrir einhverjum undarlegum tilfinningum sem ég held að ég verði að skrifa á "jólaskap" - ég er farin að hlakka til jólanna, ég hugsa um jólagjafir, jólaskraut og jólakort. Ég hef meira að segja velt því fyrir mér að gera aðventukrans (eitthvað sem ég hef aldrei á ævinni gert). Síðustu ár höfum við nefnilega verið búsett erlendis og ég held að það hljóti að hafa haft áhrif á þennan annars litla jólaáhuga fram að þessu. Að minnsta kosti virðist jólaandinn svífa yfir íslenskum vötnum og ég er sífellt minnt á það að jólin séu á næsta leyti.
Rjúpnaveiðitímabilið var fyrsta áminningin og ég fékk strax vatn í munninn þegar ég fór að heyra fréttir af rjúpnaveiðiskyttum í hættu upp á miðjum heiðum. Uuu þetta gæti misskilist - ekki það að ég hafi fengið vatn í munnin yfir óförum rjúpnaveiðimanna heldur auðvitað yfir bráðinni sem ég vissi að þeir væru að hætta lífi og limum fyrir.
Síðan eru það þessi lúmsku skilaboð sem smokra sér inn í undirmeðvitundina og fara þar að móta allskyns hugmyndir og langanir. Til dæmis er ekki farið að spila jólalög í útvarpinu ennþá - enda bara 16. nóvember og eins gott að reyna að draga þetta alveg fram í desember til þess að við fáum ekki öll ógeð af Helga Björns og "þó ég nenni" laginu hans. Hins vegar er farið að lesa smáauglýsingarnar með undirspili sem minnir æði margt á lagið "rúdolf með rauða nefið". Á stöð 2 er síðan auðvitað byrjað að auglýsa jóladagskránna með tilheyrandi hátíðarblæ og laginu "someday at Christmas" sem undirspili.
Þar sem ég er sísvöng þessa dagana og litla krílið í maganum virðist þurfa endalausa orku þá gaula garninar látlaust þegar mín er freistað með auglýsingum um hvert jólahlaðborðið á fætur öðru. Mig langar að minnsta kosti á fimm mismunandi jólahlaðborð og ég sem hef aldrei haft neitt sérstaklega gaman af slíkum borðum og ekki lagt það í vana minn að sitja við slík borð.
Mamma mín vinnur á vinnustað þar sem er sífellt verið að bjóða upp á eitthvað húllumhæ. Hún spyr mig til dæmis mjög reglulega hvort ég kunni ekki einhverja nýja og skemmtilega samkvæmisleiki - sem er mjög undarleg spurning þar sem ég stunda sjaldnast þess lags samkvæmi - það er að segja þau sem fólk fer í leiki og notar til þess blöðrur og kústsköft. Auk þess hef ég ekki unnið á föstum vinnustað í fleiri ár og hef því nánast enga reynslu af árshátíðum eða starfsmannaskemmtunum.
Um síðustu helgi sakaði ég mömmu meira að segja um að hafa bara örugglega ekkert merkilegra að gera í vinnunni en að skipuleggja skemmtanir, vöfflukaffi, leynivinaleiki, jóladagatal og föndurdaga en þær ásakanir voru eingöngu byggðar á öfund minni og áhyggjum yfir því að það yrði ekkert jólalegt gert í vinnunni minni. Ég tók því gleði mína á ný þegar ég sá að búið var að hengja blað upp á vegg í vinnunni í gær þar sem hverjum degi í desembermánuði var ætlað eitthvað jólalegt hlutverk. Það verður jólahlaðborð (sem ég reyndar kemst ekki í - en ég er að fara út að borða á svo góðan stað sama kvöld að ég græt það ekki - enda snýst þetta allt um matinn) og það verður jólahúfudagur, jólakaffi, jólabrunch og jólapakkadagur.
Þetta líst mér allt saman vel á og ætla sko heldur betur að rækta þessa skrýtnu tilfinningu sem minnir mann á það hvernig manni leið sem barni - að hlakka stanslaust til jólanna í næstum tvo mánuði!
2 comments:
ég skal borða með þér ég ELSKA að borða.
ást knús h
p.s sneddí að setja linkinn á face
Hahaha öfundin kom alveg í hausinn á þér aftur, engin smá jóladagskrá hjá ykkur! En þetta er voða notalegt ef maður hrúgar ekki of miklu á dagskránna hjá sér í desember eins og virðist stefna í hjá mér :)
Kv, Guðrún
Post a Comment