Saturday, May 08, 2010

Viðburðir og verkefni

Það vantar svo sannarlega ekki verkefnin í lífið hjá okkur Lárusi þessa dagana. Mastersverkefnið mitt er verkefni í stærri kantinum og tekur því ríflega af tíma, orku og anda sem annars færi til dæmis í að skrifa langar og innihaldsríkar færslur á netið.

Heljarinnar Ítalíuferð var líka stórt en mun skemmtilegra verkefni. Í andans ofboði tókst okkur að smala allri fjölskyldunni saman eftir lúxushremmingar (eins og að vera fastur á 5 stjörnu hóteli) í mismunandi löndum. Fjölskyldufaðirinn sýndi af sér einstakt hugprýði og ferðaðist aleinn yfir hafið stóra sem skilur að Ísland og alla hina í heiminum. Þar sem hann lenti í Skotlandi tókst honum að húkka sér far til höfuðborgar Bretlands og endaði þar í faðmi sinnar heittelskuðu. Ég er ekki frá því að mamma og pabbi hafi elskað hvort annað eins og einni gráðu heitar eftir aðskilnaðinn.

Að minnsta kosti fannst mömmu nauðsynlegt að segja mér í gegnum síma að sama hversu heitt og mikið hún elskaði mig (og finndist ég algjörlega frábær) þá væri hún samt ekki tilbúin til að eiga heima hjá mér ef að til þess kæmi að eldgosið myndi aftra för hennar um ókomna tíð til Íslands. Svo sagði hún með smá trega í röddinni "þá vil ég nú heldur bara vera föst að eilífu með pabba þínum".

Já, eldfjöll virðast geta komið ýmsum hugleiðingum af stað... Við Lalli áttum líka okkar rómantísku daga í boði eldfjallsins þar sem enduðum á því að dinglast ein um Milanó tveimur dögum lengur en áætlað var. Dagarnir voru vel nýttir í eldheita og rómantíska göngutúra sem fólu í sér mörg stopp á huggulegum veitingahúsum. Fjölskyldan sameinaðist svo að lokum í Milanó, dreif sig í að kaupa GPS tæki, leigja stationvagon og hélt af stað upp í ítölsku alpana. Brúðkaupið var sko ekki minna verkefni. Upp úr stendur auðvitað maturinn, annað væri ósæmandi í ítölsku brúðkaupi. Á sjálfan brúðkaupsdaginn fórum við samtals í þrjár mismunandi veislur þar sem við fengum "eitthvað smotterí" að borða. En vorum sem betur fer ennþá svöng þegar kom að lokaveislunni þar sem matseðillinn taldi 10 rétti. Brúðhjónin voru yfirmáta falleg bæði tvö og eru nú á brúðkaupsferðalagi um Kanada, USA og einhverjar tropical eyjar sem ég man ekki hvað heita.

Mamma fékk síðan smjörþefinn af því hvernig er að búa hjá mér, í 30 fermetra íbúðinni okkar, þegar þau komu með okkur til Bilbao og eyddu rúmri viku hérna í Baskalandi. Þau fengu líka vini sína frá Þýskalandi með sér í för og skoðuðu alla króka og kima hér í kringum Bilbao. Voru stórhrifin af Guggenheim safninu sjálfu en minna hrifin af gömlum ryðguðum reiðhjólum sem voru hluti af sýningunni. Ég fékk síðan stórskemmtilegt tækifæri til að kynnast Kiddu frænku minni og manninum hennar. En það vill svo til að þau búa hérna rétt hjá Bilbao.

Næsta vika og þarnæsta verða ekki síður stútfullar af viðburðum og verkefnum. Fleiri gestir eru væntanlegir ef eldfjallið setur ekki strik í reikninginn og ég verð með mitt annað ráðstefnuerindi. Í þetta skiptið í Barcelona - sem er einmitt næsti áfangastaður okkar Lárusar í leit okkar að lokaáfangastað.







Ást & Yndi.

5 comments:

Anonymous said...

Æi það er svo gaman að lesa pistlana frá þér, hleypir alveg nýju lífi í mig enda veitir ekki af í þessum yndislegu prófum.....Hafið það gott þið frábæra fólk.
kveðja
Láretta frænka (segi frænka svo þið vitið hvaða Láretta þetta er.....)

Anonymous said...

Tvennt sem ég skil ekki og nr .1 afhverju eruð þið ekki feitari þar sem þið virðist ekki gera neitt annað enn að vera á veitinastöðum þarna úti og svo annað...lokaáfangastaður .. loka loka hverslags leit er þetta?
Annars er nú alltaf jafn gaman að lesa pitslana þína Eva mín, sjáumst vonandi eftir nokkra!

Lalli og Eva said...

Láretta þú ert frænka! :-) Áfram áfram í prófunum og svo MEGA afslöppun á eftir, sendi góða strauma.

Elfa (held það sért þú amk) þú færð útskýringar á færibandi eftir nokkra!

Eyrún said...

Viltu veðja um hvor verður á undan, þú með mastersritgerðina eða ég með BA? Vantar ekki soldið keppnisskap í þessi ritgerðaskrif hjá okkur?

Lalli og Eva said...

Hahhaha ég skal veðja - að þú verðir á unda! Eða hvað...??

Alltaf til í smá keppni sæta, hvernig gengur þér annars. Eitt bréf á e-mailið væri glaðningur beint í hjartastað.