Wednesday, December 31, 2008

Fyrstu áramótin...

...ekki í faðmi foreldra, Möggu frænku og fjölskyldu. Engin áramótabrenna, engir flugeldar sem skotið er upp af hraðahindrun á Heiðmörkinni, ekkert ár sem feidar út í sjónvarpinu. En allt er breytingum háð og í ár ætlum við skötuhjú að eiga notalega kvöldstund tvö saman. Elda góðan mat og hitta síðan vini síðar um kvöldið. 

Matseðill kvöldsins er svohljóðandi: 

Forréttur: Brucettur með geitaosti, parmaskinku og kirsuberjatómötum

Aðalréttur: Beef Wellington (look it up ég er mega stressuð að elda þetta), með heimatilbúnni sveppamyrju, vafið inn í smjördeig og parmaskinku, kryddaðar kartöflur og salat. 

Næturréttur: (til að eiga þegar við komum heim af djamminu) Hvítlauks-pennepasta með ólívum, shallotlauk og chilli. 

Við eigum ekta kampavín inn í ískáp og hlökkum mikið til að prófa öðruvísi áramót ;) 

 

Tuesday, December 30, 2008

Annáll

Við enduðum síðasta ár í trylltu áramótapartý heima hjá meistara Jakobi í Hveragerði og dönsuðum okkur inn í nýtt ár með tilheyrandi harðsperrum og höfuðverk á fyrsta degi ársins 2008. Árið sem fylgdi í kjölfarið einkenndist af bæði taumlausri gleði, hausverk og harðsperrum og öllu þar á milli. Ég fagnaði 26 ára afmælinu mínu í janúar þrátt fyrir að Lalli reyndi að halda því fram að ég væri orðin 27 ára. Lárus hóf (óafvitandi) sitt síðasta tímabil í Hamri (í bili amk) og

Í febrúar góðærinu skelltum við kærustuparið okkur á farmiða til Mexico og upphófst mikil tilhlökkun og niðurtalning fram að vori. Í febrúar heimsótti ég líka höfuðstað norðurlandsins, fór á skíði í fyrsta skipti í langan tíma og hitti námskonuna systur mína, aðra ættingja og vini. Í febrúar tók ég tímamótaákvörðun og hætti sem fimleikaþjálfari. Ákvað að taka spennandi og krefjandi vinnu á rannsóknarsetri í háskólanum fram yfir og einbeita mér að því að klára kennslufræðina. Á svipuðum tíma og Kastró vék úr forsetaembætti á Kúbu var farin ógleymanleg fjölskylduferð að Rangá þar sem fólk flaug niður stiga, rotarar frá Siglufirði rotuðust sjálfir, fólk læsti sig úti um miðjar nætur og heitir pottar urðu kaldir.

Mars rann upp með vanalegu skólastússi og körfubolta hjá okkur báðum. Lárus í fullu að klára alþjóðasamskiptin og ég að reyna að uppeldisfræða unglinga í FÁ. Páskafrí í foreldrahúsum og huggulegheit sem því fylgja. Lærdómurinn og fall Hamars í 1. deild var allt saman bærilegt vegna fyrirhugaðrar Mexicoferðar.

Apríl hófst á frekari lærdómi, ritgerðar- og verkefnaskilum hjá bæði mér og Lárusi. Við styttum okkur stundir með nokkrum ferðum í Laugar Spa þar sem við fórum í gufubað og hrutum svo í takt í hvíldarherberginu. Apríl einkenndist einnig af endurminningum og örlítilli fortíðarþrá hjá mér. Seint í apríl fórum við skötuhjú einn eftirmiðdaginn út að skokka og tókum í kjölfarið þá ákvörðun að flytja til Danmerkur. Orsakasamhengið er enn töluvert óljóst.

Í maí sendi ég inn umsókn í mastersnám í Evrópskum menntunarfræðum, nánar tiltekið í Lifelong Learning sem ég kann ekki að þýða á góða íslensku. Í byrjun maí rann loksins upp Cancun ferðin góða sem farin var með góðum vinum. Hótelið var æðislegt, koktelarnir svalandi, hitinn æðislegur en á stundum óbærilegur, margt að skoða og margt að upplifa. Á síðasta degi ferðarinnar skók jörðin suðurlandið á Íslandi og hinn eini sanni suðurlandsskjálfti reið yfir. Það var frekar erfitt að vita af húsbanni, þyrlum sveimandi og fólkinu sínu heima fyrir þegar maður er staddur á bar í Mexico og getur lítið gert. En sem betur fer fór nú betur en á horfðist og flest allt tjón var bætanlegt þar sem engin missti líf eða limi í hamaganginum.

Í júní kláraði ég kennsluréttindin og útskrifaðist. Lalli kláraði líka öll fögin við alþjóðasamskiptin og fór að huga að ritgerð. Í júní vann ég á rannsóknarsetrinu við undirbúning rannsóknar og Lalli kenndi litlum pjökkum og píum körfubolta á milli þess að sinna starfi aðstoðarþjálfara hjá landsliðinu. Við skötuhjú fórum að huga að flutningum þar sem við höfðum tekið þá ákvörðun að flytja til Danmerkur hvort sem ég kæmist inn í námið eða ekki. Sumarið einkenndist því miður af svörtu skýi sem hékk yfir fjölskyldunni vegna veikinda Bjarna Páls hetjunnar okkar sem leyfði ljósinu að taka sig í júlí. Skarð í hjörtu og líf okkar allra. En sólin sest og hún rís að nýju og lífið heldur áfram í einhverri mynd. Í júlí fundum við íbúðina okkar sem við erum nú svo ánægð með og verðum í fram á sumar.

Um verslunarmannahelgina skelltum við okkur hringinn með mömmu og pabba sem var hin mesta skemmtun. Við heimsóttum staði sem annað hvort voru týndir í bernskuminningum eða við höfðum aldrei komið á. Ísland er svo fallegt og sumarið, veðrið og náttúran lék við okkur. Í ágúst héldum við áfram að kynnast landinu okkar þegar við fórum í eitt mesta stuð brúðkaup ársins til Hrefnu og Stebba í Reykhólasveit. Um miðjan ágúst var síðan förinni heitið til Kóngsins Köben og við hófum nýja áfanga í lífi okkar beggja. Kaupmannahöfn tók á móti okkur með sól og blíðu og Lalli samdi við úrvalsdeildarliðið SISU hérna í Kaupmannahöfn.
Í september byrjðai ég í masters náminu og Lalli á fullu í körfuboltanum. Við komum okkur vel fyrir á Matthæusgade 48 og urðum strax Vestrebro fólk í húð og hár. Nýr skóli, nýtt nám, nýjir vinir, nýr klúbbur, ný vinna... allt svo spennandi og framandi og lífið varð töluvert meira krefjandi en oft áður. Í lok september ákvað ég mitt í allri hringiðunni að taka þátt í keppni um tillögu að nýjum miðbæ í Hveragerði og kynntist fyrir vikið Tinnu frænku minni enn betur ásamt fleira afskaplega góðu og hæfileikaríku fólki. Lárus varð fyrir því óhappi að meiðast í lok undirbúningstímabils og var því miður óleikhæfur í næstum tvo mánuði.

Mitt í öllu nýjabruminu, gleðinni og hamingjunni minnir lífið á sig og afi kvaddi óvænt í október. Sólin sem skein í Köben í október gat ekki lýst upp þann daginn og við flugum heim í jarðaför og fjölskyldustundir. Kreppan skall á um svipað leyti og fór nú svona í fyrstu fram hjá okkur þar sem lífið er mikilvægara en peningar. Engu að síður fengum við aðeins að finna fyrir því þegar mjólin fór að kosta okkur 500 kall og húsaleigan farin að telja nokkur hundruð þúsundin. En eins og fyrr sagði þá heldur lífið áfram og við fengum okkur meiri vinnu og héldum ótrauð áfram að vinna að okkar hugðarefnum. Staðráðin í því að hingað værum við komin til að læra og lifa og þá skyldi það halda.

Eftir þrotlausa sjúkraþjálfun og æfingar fór Lárus að geta spilað aftur og í nóvember fór lífið að taka á sig rútínukennda mynd aftur. Skólinn, karfann og allt þetta venjulega. Ég fór á ráðstefnu til Bilbao og skoðaði borgina og skólann sem ég kem til með að stunda í september á nýju ári. Ég spreytti mig einnig sem forfallakennari í nóvember með eftirminnilegum hætti. Í desember veltum við fyrir okkur að halda jólin í Köben en tókum síðan ákvörðun að koma heim og knúsa vini og ættingja.

Já árið var svo sannarlega litað af bæði gleði og sorg eins og flest önnur ár. Hvert ár kennir manni að meta lífið og tilveruna upp á nýtt og skoða hlutina í víðara samhengi. Þetta ár er engin undantekning á því. Næsta ár verður eflaust enn lærdómsríkara og framundan eru skemmtilegir tímar held ég :)

Lent í Köben

Þá erum við mætt á Matthæsugade aftur eftir afskaplega stutt en einstaklega notalegt jólafrí á Íslandinu góða. Það er óhætt að segja að við höfum notið tímans vel og í raun og veru náðum við að hitta ótrúlega marga vini okkar og ættingja þrátt fyrir afar stutta dvöl. Hluti tímans fór samviskusamlega í að læra og huga að ritgerðarsmíðum en annars fór mestur tíminn í að innbyrða mat og drykk og ferðast á milli staða til að láta dekra við sig. Við höldum að við þurfum ekki mikið að borða fyrr en í fyrsta lagi í febrúar eða mars.... 

Engu að síður var það okkar fyrsta verk að kaupa pítsu af uppáhalds ítalska bakaranum okkar á Vesterbrogade um leið og við stigum fæti inn í Kaupmannahöfn, borða hana og taka síðan góðan lúr í notalega rúminu okkar hérna í huggulegu íbúðinni okkar. Alltaf gott að finna fyrir *notó* tilfinningu þegar maður kemur aftur heim. 

Alltaf flykkjast fleiri Íslendingar til Köben. Við komum með fyrstu leiguna hennar Hlínar Guðna með okkur hingað út og Jónas bróðir hennar kíkti í kaffi til okkar áðan, tók við peningunum. Það verður spennandi fyrir þau systkin Hlín og Helga að flytja til borgarinnar eftir áramótin. Við plönuðum að hitta á Jónas og Lísu á morgun og fylgjast saman með skaupinu og jafnvel kíkja eitthvað út í partý þegar líða færi á nóttina. 

Hérna eru byrjað að sprengja flugelda út um allt líkt og heima. Það verður víst rosa show á morgun víðs vegar um borgina og við erum nokkuð spennt að sjá hvernig Danir fagna nýju ári og hlökkum til að taka þátt í hátíðarhöldunum. Hversdagsleikinn og rútínan eru nú samt fljót að segja til sín og Lalli á að mæta á æfingu strax í kvöld. Eins gott að taka vel á því fyrir fyrsta leik sem er 7. janúar nk. 

Ný önn byrjar ekki fyrr en í febrúar hjá mér en skilin og prófin eru á næsta leyti. Það verður heldur betur huggulegt þegar fyrstu önninni líkur og ég get farið yfir hvernig þetta stendur allt saman hjá mér. Nauðsynlegt að nota fyrstu önnina í nýjum skóla til að læra af henni og sjá hvernig maður stendur í samanburði við aðra og svona. 


Tuesday, December 16, 2008

Jólin nálgast

Við skötuhjúin vöknuðum upp við jarðskjálfta snemma í morgun. Það virðist sem óalgeng og nánast ómöguleg tíðindi fylgi okkur þegar við förum erlendis. Snjór í Buenos Aires, jarðskjálftar í Danmörku. 

Skondið að segja frá því líka að þegar við fluttum inn í íbúðina okkar í haust, sáum við að fyrir ofan rúmið er hilla og í henni er olíuljós, svona kar með olíu og kveikiþræði í. Ég spurði Lárus í smá kaldhæðni hvort það væri ekki vissara að fjarlægja þetta kerti úr hillunni, ef það kæmi mögulega jarðskjálfti... ástæðan er sú að Lárus er ógeðslega paranoid yfir jarðskjálftum heima og það má ekkert vera fyrir ofan höfðagaflinn. Kertið var náttúrlega ekki fært, vegna þess að það koma ekkert jarðskjálftar í Danmörku... fyrr en í nótt. 

Við búum nú ekki í nýjustu íbúðinni eða húsnæðinu og leiðslurnar í húsinu okkar hrukkur eitthvað til, það tók daginn að koma heita vatninu á aftur. Jarðskjálftinn var samt hið mesta grey miðað við það sem við eigum að venjast. Við rétt svo rugguðum til í rúminu og þjófavarnakerfið í nokkrum bílum fór í gang fyrir utan. Meira var það nú ekki. 

Annars styttist í okkur. Það er klárlega alltof mikið að gera hjá okkur fram að heimför og líklegast verðum við bæði að vinna eitthvað á Íslandinu. En við minnum hvort annað á það hversu gott það er að hafa mikið að gera, og hversu heppin við erum að hafa nóg fyrir stafni. Manni leiðist þá ekki á meðan :) 

Síðasti leikurinn hjá Lárusi á fimmtudaginn næstkomandi og ég klára skólann formlega á morgun, miðvikudag. Fór í smávegis próf í gær sem heppnaðist bara ágætlega held ég... Hvernig mér gengur kemur nú reyndar ekki í ljós fyrr en seint í janúar - þetta er soddan ferli. Fyrst er það að skila ritgerðum, svo er næstum mánaðarfrí sem á víst að fara í undirbúning fyrir vörn sem fer fram 23. og 25. janúar. Ég er að vona að ég fái að kenna aðeins hjá CIS í þessu mánaðarfríi... væri ekki verra að eiga fyrir leigunni :) 

Annars erum við Lárus í góðum málum vinnulega séð, ég tók 12 tíma vakt í DPU um daginn. Stóð heilan dag og hellti jólabjór og snafs ofan í prófessorana mína, það var semsagt julefrokost hjá kennurum og starfsliði skólans. Síðan hef ég þurft að segja nei oftar en já við forfallakennslu, þar sem akkúrat í augnablikinu verð ég að vinna að verkefnunum mínum í skólanum. Fimleikarnir ganga þrusu vel og ég kenni 20 krökkum einu sinni í viku að fara í handahlaup og arabastökk. Lárus er síðan farinn að kenna badminton einu sinni í viku við sama skóla, CIS. Hann lætur krakkana fara í runu og allir eru hamingjusamir :) 

Svo ég monti mig nú aðeins af Hr. Jónssyni þá var honum líka boðin meira vinna hjá SISU. Vinna sem felst í því að vera manager yfir öllum leikjum hjá SISU, það er að segja öllum körfuboltanum, ekki bara elítuliðinu. Hann kemur þar af leiðandi til með að stýra öllu keppnistengdu fyrir allt SISU liðið. Síðan var hann tilnefndur sem fyrirliði SISU Copenhagen í síðustu viku og spilar nú sinn annan leik sem fyrirliði á fimmtudaginn næsta :) 

Þegar ég les yfir færsluna þá sé ég að líf okkar tengist óneitanlega hinum ýmsu skammstöfunum. Bara svona til að fólk glöggvi sig á þessu þá stendur SISU fyrir körfuboltafélagið sem Lárus keppir með, SISU Copenhagen er elítuliðið eða semsagt meistaraflokkur karla, sem er sérstakt félag með sérstakan framkvæmdarstjóra og stjórn. DPU er skólinn minn www.dpu.dk fyrir þá sem hafa áhuga og stendur fyrir Danmarks Pædagogiske Universitet. CIS stendur fyrir Copenhagen International School og það er semsagt skólinn sem við Lalli erum bæði að vinna hjá við að kenna fimleika og badminton og sem forfallakennarar. 

Já þá er það semsagt komið á hreint... Við hlökkum ofsalega til að koma heim og eiga notalegar stundir með vinum og fjölskyldu. Efast um að ég skrifi staf í fríinu á Íslandi, því ég ætla svo sannarlega að njóta þess að kúpla mig algjörlega út úr netheimum, tölvunotkun og öllu slíku. 

Þess vegna segi ég bara: Gleðileg jól, takk fyrir að lesa og takk fyrir allar kveðjurnar og kommentin - við kunnum ofslega vel að meta það að fólk sé að fylgjast með okkur. Megi nýja árið færa ykkur öllum ógrynnin öll af gleði og gæfu, hamingju og heilsu. 

Ást & Kossar
E+L


Thursday, December 11, 2008

Sjónvarpsleikur

Minnum alla vini og vandamenn nær og fjær á sjónvarpsleikinn í kvöld. Leikur á móti Horsholm, heldur betur spennandi viðureign þar á ferð þar sem Horsholm situr í 6. sæti deildarinnar og SISU í 8. sæti. Eftir hrikalega hittni í síðasta leik er vonandi að skytturnar í liðinu hjá SISU komist í gang og þá ætti þetta að verða alvöru leikur. Leikurinn verður sýndur í sjónvarpinu klukkan 19:15 að dönskum tíma og 18:15 að íslenskum tíma. Þeir sem eru með sjónvarpsstöðina DK4 geta fylgst með í sjónvarpinu og hinir á netinu á heimasíðu DK4 www.dk4.dk 

Annars gengur allt sinn vangagang hérna í Vesterbro. Ég er alveg í spreng að reyna að klára sem mest áður en ég kem heim um jólin til að geta nú örugglega átt notaleg og stress frí jól. Fer í próf á mánudaginn og síðustu "supervision" tímana mína á þriðjudaginn nk.  Eftir það lýkur skólanum og þá verð ég vonandi langt komin með seinni ritgerðina. 

Góðar stundir þangað til næst.

Saturday, December 06, 2008

*ESSAY WRITING*

Allt á fullu hérna á Matthæusgade í ritgerðarskrifum. Lárus skrifar um íþróttir, þróunaraðstoð og alþjóðasamskipti og ég skrifa um borgaravitund, kennsluaðferðir, þekkingarsamfélagið og það að læra fyrir lífið. Ég er að keppast við að skrifa sem mest í dag til að geta kíkt á leik með Lalla í Aarhus á morgun. Sisu er að keppa við lang sterkasta liðið í dönsku deildinni, Bakken Bears svo það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman. 

Líka spennandi fyrir mig borgarbarnið að komast aðeins út fyrir miðborgina þar sem ég hef ekki nema tvisvar sinnum á ævinni farið eitthvað annað en um miðsvæði Köben. Fyrir mörgum árum heimsótti ég Ollerup (sem ég held að sé einhverstaðar á Jylland) til að læra fimleika. Þar voru bara risa stór græn engi, einn risa stór fimleikaskóli og mörg lítil svínabú. Í gær fór ég síðan í ca klukkutíma ferðalag út fyrir miðborgina í lítinn bæ sem heitir Horsholm til að skoða heimavistar - efterskole í tengslum við námið mitt. Skólinn stendur við ofsalega fallegt vatn og mikinn skóg og í svakalega fallegri náttúru, ekki amalegt að vera 14 til 18 ára unglingur í svona umhverfi að læra á óhefðbundin og skemmtilegan hátt. Þeir sem hafa áhuga þá er þetta heimasíðan þeirra www.isteroed.dk. 

Annars erum við bara ennþá í skýjunum með skemmtilega afmælishelgi og góðan félagsskap. Tusund tak til ykkar sem voruð með okkur og líka þeirra sem sendu kveðjur og pakka og voruð eflaust með okkur í anda :)