Tuesday, September 30, 2008

hlýjindi

Það hefur verið frekar hlýtt og gott veður hérna síðan við komum. Í gær og í dag fór þó að draga fyrir sólu og blása hressilega. Við fórum því að huga að ofnum og kyndingu hérna í íbúðinni. Ofnarnir tveir voru því skrúfaðir í botn og kaldar tærnar settar í ullarsokka á meðan beðið var eftir hitanum í íbúðina... sem kom ekki. Engin hiti á ofnanna.

Minnug þess að í Argentínu síðasta sumar keyptum við rafmagnsofn og sváfum í flíspeysum í tvær vikur áður en við uppgötvuðum gólfhitakerfið ætluðum við að hafa samband við Trine sem við leigjum af og spurja hvort það væri ekki örugglega hiti í samningnum okkar. Í dag fékk ég síðan óvænta heimsókn frá Hildi og Ágústi. Þau komu með brauð og sætabrauð með sér. En komu líka með ómælda þekkingu á ofnum og hitakerfi Danmerkur. Ágúst gerði sér lítið fyrir og tappaði af ofninum í stofunni og taaaraaa! eins og eldingu væri veifað kom hiti á allan ofninn! Okkur hafði klárlega ekki dottið þetta í hug - fyrr hefðum við keypt annan rafmagnsofn líkt og í Argentínu forðum daga. Hildur gerði sér síðan lítið fyrir og uppgötvaði að í raun og veru eru þrír ofnar en ekki tveir í íbúðinni. Þriðji ofninn er vandlega falin við loftið í forstofunni. Hildur er greinilega örlítið stærri en meðalhæð heimilisfólksins er hér á bæ (eða bara svona athugul) og sá því þennan forláta ofn sem var auðvitað skrúfaður í bont líka...

Nú er bara tropical stemming í Matthæusgade 48. Heitt og gott og huggulegt.

Sunday, September 28, 2008

Annasöm vika framundan

Já það verður mikið að gera í næstu viku hjá okkur skötuhjúum. Lárus er á fullu að undirbúa fyrsta leik tímabilsins sem er á móti Bakken Bears nk. laugardag. Æfingaleikurinn á móti Grindavík tapaðist því miður með 4 stigum en auðvitað fannst mér Sisu þrátt fyrir tapið betra liðið. Sisu spilaði mjög fínan körfubolta og Lalli átti góðan leik. Þeir voru hins vegar ekki með fullskipað lið þar sem þá vantaði einn kana, einn Serba og einn Litháa sem koma allt til með að verða lykilmenn í liðinu að Lalla sögn. Þeir voru ekki komnir með leikheimild og verða líklegast ekki heldur með á móti Bakken. Leyfi, reddingar og skriffinska gengur aðeins hægar fyrir sér hér í landi heldur en á Íslandi! 

Þannig að útlitið er bjart og við vonumst auðvitað bara til að Sisu skipi sér í raðir bestu liða Danmerkur í vetur! 

Ég er síðan á fullu að vinna að tillögu um nýtt skipulag Hveragerðisbæjar. Er í góðum félagsskap í þessari vinnu þar sem Tinna Ottesen hönnuður (tinnaottesen.blogspot.com) og Haukur Þórðarson arkitekt vinna hana með mér - eða ég með þeim öllu heldur ;) Mjög spennandi verkefni og ég hef fulla trú á að við getum komið með margar skemmtilegar, skynsamlegar og spennandi hugmyndir fyrir nýjan miðbæ í Hveragerði. 

Annars er það skólinn og allt á fullu þar. Ritgerðarskrif eru að komast í góðan farveg vona ég þar sem ég hitti leiðbeinendurnar í næstu viku. Er komin með góða hugmynd að efni en það er svo sem alltaf breytilegt og á eflaust eftir að mótast eftir fyrsta fundinn við leiðbeinendur - til þess eru þeir nú :) 

Krónan er náttúrlega komin í 19 og það kostar hreinlega peninga að draga andann hérna á meðan við lifum ennþá á íslenskum peningum. Hvílík dýrðarstund sem það verður þegar við fáum fyrsta launaumslagið í dönskum krónum!! En á meðan lífið er svona ljúft og hitinn ennþá 18 gráður 28. september þá er varla yfir neinu að kvarta er það? 

Kossar og knús frá Köben 

ps. mér finnst pínu leim að biðja um kvitt í commentakerfið en það er samt alltaf voða gaman að sjá hverjir eru að lesa ;) 

pps. Set inn nýjar myndir eftir "to sekunder" eins og danir segja... 

Wednesday, September 24, 2008

Sisu vs. Grindavík

Spennandi leikur framundan á laugardaginn. Sisu spilar við Grindavík sem er í æfingaferð hérna í Danmörku. Leikurinn verður nokkurs konar generalprufa fyrir leiktíðina sem byrjar síðan formlega á laugardaginn þarnæsta. Leikurinn verður örugglega mjög spennandi þar sem Grindavík er heldur betur búið að bæta við sig mannskap og er með mjög öflugt lið. Hlakka mjög til að sjá leikinn en verður eflaust soldið skrýtið að sjá Lalla spila á móti þessu strákum hérna í Kaupmannöfn en ekki með félögum sínum úr Hamri.

Lísa og Jónas eru væntanlega í mat til okkar í kvöld. Eitt mjög gott sparnaðarráð sem Hrund samstarfskona mín af rannsóknarsetrinu kenndi mér er að þegar fátækir námsmenn bjóða í mat þá er ódýrast að vera með lasagnea og rauðvín. Rauðvínið er ódýrara en bæði gos eða bjór og hakkið kostar ekki svo mikið heldur. Svo það er víst það sem Jónas og Lísa þurfa að sætta sig við í kvöld. Hrund var námsmaður hérna í Köben í mörg mörg ár og kann sko heldur betur að gefa góð ráð í þeim efnum. Við ætlum að sýna Jónasi myndir frá Argentínu því hann er að fara þangað til að rannsaka einhverja steina fyrir MA verkefnið sitt. Get ég ekki valið mér eitthvað tengt Argentínu í MA ritgerðina mína??

Tuesday, September 23, 2008

Örlitlar útlitsbreytingar

Ég fékk smá kennslu í að breyta til og bæta við fídusum á bloggið okkar. Tinna frænka er nefnilega aðeins tölvuklárari en ég og hún á líka þessu flottu heimasíðu á blogspot þar sem hægt er að sjá hvað hún er að sýsla - sem er aldeilis margt spennandi og áhugavert. 

www.tinnaottesen.blogspot.com 

Breytingarnar fela aðallega í sér möguleika á því að smella á myndina af okkur og fá þá fleiri myndir - þannig að nú er komin beinn linkur á myndirnar. Síðan setti ég inn heimilisfangið okkar, e-mail adressu og símanúmer. 

Friday, September 19, 2008

Helgin framundan

og hér er ekkert sérstakt helgarstuð í gangi! Hvernig getur þetta verið? Kannski dagarnir fari bara allir á flakk í höfðinu á manni þegar það er ekki vinna eða skóli frá 9-5. Meira svona læra alltaf alla daga þegar maður getur.
Ég er reyndar komin á nokkuð gott flug í skólanum og gæti jafnvel þurft að viðurkenna að vera komin "á undan" í lestri ef það er hægt að tala um svoleiðis. Já keppnisskapið lætur nú kræla á sér öðru hverju. En annars snýst þetta nú aðallega um lokaverkefnin og ég hef nógan tíma til að hugsa um þau. Lárus er nú samviskusamlega byrjaður á MA ritgerðinni sinni eftir langa og frekar spaugilega ferð í Norðurbrú til að sækja heimildir. Lalli hafði semsagt skrifað staðsetningu bókarinnar (æ þið vitið svona bókasafns númer PP. 77.03 eða eitthvað álíka) sem hann leitaði að og þegar við komuna á bókasafnið (sem var í stærra lagi) ákvað hann að leita strax aðstoðar og spurði bókasafnsfræðinginn (sem var ekta dönsk kona í víðu pilsi og með hvítt hár) hvar þessa bók væri að finna. Konan leit á miðann, brosti hálf skringilega og bað okkur um að fylgja sér. Við eltum konuna eins og hlýðin og góð börn og komum síðan að hillunni þar sem bókin átti að vera staðsett. Konan benti á hillu fulla af bókum um kynlíf, kynlífsleiki og kynlífsdót og sagði: Já þið finnið hana semsagt örugglega hérna og svo flýtti sér burt og brosti góðlátlega til okkar.
Við stóðum hins vegar fyrir framan hilluna, horfðum síðan á hvort annað og ypptum öxlum. Ég spurði Lalla til öryggis hvort hann væri ekki örugglega að fara að skrifa um íþróttir og þróunarmál?? Eftir mikla leit í kynlífsbókarhillunni þá ákváðum við að fara aftur og leita ráða. Þá kom í ljós að Lalli hafði skrifað DP sem mátti allt eins taka sem PP og konan las sem slíka skamstöfun. PP á dönskum bókasöfnun stendur semsagt fyrir bækur um kynlíf - og þá vitið þið það!
Ég sagði nú ekkert frá því í síðasta bloggi, til að eyðileggja ekki stemminguna, en ég brann líka þessi ósköp í ljósalampa sem ég fór í eftir gufuna og spa-ið. Hver fer eiginlega í ljós núna á þessari vel upplýstu öld? Hmmm ég allavega og það í fyrsta skiptið í ca 7 ár (fór síðast í þeim tilgangi að verða brún og stöðluð fyrir fegurðarsamkeppni suðurlands). Núna eru meira að segja fegurðardrottningar hættar að fara í ljós - en það stoppaði mig nú ekki. Ég get varla verið í fötum svo brunnin er ég en þetta hefur skapað ómælda kátínu hérna á heimilinu því ég er rooosalega flekkótt og mjög hlægileg á að líta.
Já það er vert þess að reyna að sjá spaugilegu hliðarnar á hversdagslífinu þegar mjólkurlíterinn kostar okkur rúman 400 kall og allt annað er í samræmi við það. Downloadaði Dont worry, be happy með Bob Marley og ætla að hlusta á það á rípít í allt kvöld.

Thursday, September 18, 2008

Miðvikudagskvöldin

...eru kósýkvöld hjá mér og Lárusi. Á miðvikudögum er nefnilega körfuboltafrí og þá eigum við séns á að borða saman kvöldmat og jafnvel kíkja í bíó eða gera eitthvað svona sem kærustupör gera. Í kvöld fórum við í DGI byen í spa og huggulegheit. Höfðum áður prófað spa og kurbad í Frederiksberg Svommehallen þannig að við ákváðum að prófa þetta núna. Fórum í þemasánu klukkan 9 þar sem þemað var indjánar. Sánan virkar þannig að nokkurs konar sánameistari eða sá sem stjórnar sánunni hækka hitann með mismunandi vatni (appelsínu, sídrusviði og svo framvegis) þannig að sánan lyktar mjög vel og verður mjög heit. Síðan fengum við smá pásu og var hún notuð til að bera á sig papaya olíu og drekka vatn, eftir það var farið aftur í gufuna og hún hituð enn frekar. Í annari pásunni er farið í ískalt baðkar með um það bil 5° k-ldu vatni og síðan aftur í gufuna. Sánameistarinn sveiflar handklæði um gufuna og færir þannig hitann til og frá og beinir honum að hverjum og einum í gufunni. Í lok gufunnar er hún síðan hituð all verulega og eftir það hellir gufumeistarinn ísmolum yfir alla í gufunni (sem eru á þeim tímapunkti afar kærkomnir). Að lokum fá allir ávexti, djús og vatn. Frekar næs!! Við eigum örugglega eftir að fara aftur og prófa franska þemað eða finnska þemað :)

Nú sitjum við yfir miðnætur lasagnea og rauðvínsglasi... Já stundum er gott að geta sagst vera "í útlöndum" og leyft sér ýmisleg huggulegheit í miðri viku.

Monday, September 15, 2008

Ný vinnuvika...

Við skötuhjú vorum frekar þreytt í morgun eftir annasama helgi. Mér er þó kannski minnst vorkunn þar sem ég þurfti ekki að vakna fyrr en 8:30 og slappaði af alla helgina. Lárus keppti hins vegar þrjá æfingaleiki og ferðaðist 8 tíma í rútu milli Svíþjóðar og Danmerkur og vaknaði síðan um 7 til að vera komin í lestina klukkan 8.

Jónsson var semsgt fjarverandi alla helgina sökum körfubolta en mér leiddist þó alls ekki þar sem ég fékk góða heimsókn frá Bjarneyju og Hadda. Haddi var einmitt sjálfur í keppnisferðalagi og fengu þau að krassa á stofugólfinu hjá mér - strax komin góð reynsla á vindsængina og tvöföldu sænginga sem ég fjárfesti í fyrir framtíðarheimsóknir. Það var bara notalegt að hafa þau í heimsókn og ég fór og horfði á fyrsta körfuboltaleikinn minn í vetur - en klárlega ekki þann síðasta :)

Varðandi gengi á æfingamótinu hans Lalla getum við bara sagt að honum hafi gengið ágætlega, síðan er aftur annað mál með gengi liðsins. En þetta var góð reynsla og gott mót til að fá hópinn saman skildist mér á honum. Hann verður síðan bara að blogga sjálfur ef honum finnst ég rangtúlka staðreyndir :)

Vinnan hjá Lalla gengur vel og það er sko nóg að gera alltaf - ekki slegið slöku við hjá mr. Money Maker - yfirmanninum hans. Skólinn minn gengur líka vel. Ég þarf bráðlega að fara að velja mér efni í lokaritgerðirnar mínar tvær sem allt stendur og fellur með á þessari önn. Ég er opin fyrir öllum hugmyndum þar sem efnið er frjálst og hugurinn minn fer ekki nema í þúsund hringi á hverjum degi með þetta! Eina kríterían er að önnur þarf að tengjast The knowledge society og hin þarf að tengjast The learning individual... Já látið ykkur nú detta eitthvað sniðugt í hug :)

Set inn nokkrar myndir hérna fyrir þá sem lifa ekki á 21. öldinni og eru þar af leiðandi ekki með Facebook (sem er reyndar algjör tímaþjófur og alls ekki holl afþreyging - mæli ekki með að fólk fái sér aðgang).

http://www.picasaweb.google.com/evahardar

Ást og kossar

Tuesday, September 09, 2008

Frá útlandinu

Er allt fínt að frétta - þetta helst þó:

Ég fór á dönskunámskeið í skólanum. Svokallaðan crash course og kann núna að segja Jeg hedder Eva og jeg er fra Island.

Kennarinn á dönskunámskeiðinu gerði óspart grín að Íslendingum og tilkynnti hátt og snjallt (með ómældri kaldhæðni) að það væri ótrúlegt að Íslendingar væru svo menningarlegir að eiga meira að segja sinfóníu og dansflokk og svo lét hann alla í bekknum klappa fyrir mér og fannst hann ótrúlega sniðugur. Þá bætti Alex (stelpa frá Svartfjallalandi) við að Íslendingar hefðu líka unnið Dani í handbolta og þá hætti hann að hlægja. Hann gerði eina tilraun enn til að gera lítið úr Íslandi með því að nefna hversu heimskuleg stefna væri við lýði á Íslandi að búa til íslensk orð fyrir allt og ekkert og nefndi dæmi sínu til stuðning orðið pocket disco (vasadiskó auðvitað - en ekki hvað??) sem væri í öllum öðrum löndum walk man (sem kemst ekki í hálfkvisti við vasadiskó). Krökkunum fannst pocket disco miklu betra orð og nú er engin með ipod í bekknum mínum heldur ganga allir með pocket disco :)

Lalli er að fara að keppa í Svíþjóð um helgina. Nú verða æfingaleikir hjá honum allar helgar fram að móti. Mikill metnaður og spenna í gangi í liðinu held ég. Ég er orðin mjög spennt að kíkja á leik og hlakka mikið til að sjá hvort ég fái ekki VIP sæti í höllinni. Lalli vinnur líka eins og versti íslendingur (en ekki Dani) sem á vonandi eftir að sjá okkur fyrir salti í grautinn næstu mánuðina.

Höfum aðeins verið að velta fyrir okkur jólunum - hvar og hvernig - en það kemur nú allt betur í ljós þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig gengur með ritgerð, vinnu, bikarkeppni og fleiri þætti sem allir hafa áhrif á ferðalög, fjárráð og svo framvegis.

Þangað til næst...






Saturday, September 06, 2008

Kósý kvöld í kvöld...


Sitjum núna í rólegheitum í sófanum að horfa á Noregur - Ísland... Döfuls!! Noregur voru að komast yfir!!
Vorum að koma af frekar kósý veitingastað sem heitir Toves have eða garðurinn hennar Tove. Tove Ditlevsen er/var (dó 1976) einn frægasti rithöfundur Dana og heita bæði skólar og verslunarmiðstöðvar í höfuðið á henni núna. Í Toves Have er boðið upp á ekta danskan mömmu-mat með bernessósu og huggulegheitum.
Lárus spilaði fyrsta æfingarleikinn í dag og komst að sjálfsögðu í byrjunarliðið. Þeir unnu leikinn með 30 stigum og voru bara nokkuð sáttir. Ég hélt smá partý fyrir bekkinn minn í gærkvöldi þar sem við hittumst yfir nokkrum drykkjum áður en við fórum á Vega til að dansa smávegis. Gærkvöldið var hin mesta skemmtun hjá okkur báðum þar sem Lalli fór á svokallað karlakvöld sem er haldið reglulega hérna af nokkrum afar hressum strákum. Þar var mikið sungið, borðað og spilað á gítar....nýjasta updeit af leiknum: Við erum búin að jafna!

Vinnan hjá Lalla gengur svona líka vel. Yfirmaðurinn hans er frekar fyndinn gaur. Þvílíkt ríkur og vinnur eins og geðsjúklingur... Lalli sagði í dag að hann héldi að hann væri einn mesti kapitalisti Danmerkur. Hann er engu að síður að fíla sig vel í vinnunni og fær nóg að gera og nóga ábyrgð. Þeir fóru saman í vikunni að skoða snekkjuna hans (yfirmaðurinn á semsagt snekkju) og nú bíðum við Lalli spennt eftir að vera boðið í snekkjuna einn daginn. Lalli keyrir síðan um á 350 hestafla Benz jeppa í vinnuni og fékk þau vinsamlegu skilaboð frá yfirmanninum að hafa báðar hendur á stýri - þar sem síðasti aðstoðarmaður hans klessukeyrði bílinn tvisvar...

Allt gott að frétta og myndir eru væntanlegar bráðum fyrir fjölskyldumeðlimi og vini sem bíða í ofvæni. Við erum bara eitthvað ægilega löt við að taka myndir. Skóli, vinna og karfa taka allan okkar tíma núna en við bætum úr því bráðlega. Læt tvær myndir af okkur fylgja með - svona til að þið munið hvernig við lítum út.
Ég með nýja Indverska skrautið mitt - fékk fullt af ótrúlega fallegu svona andlits- og handarskrauti gefins frá Tariku vinkonu minni.

Lalli að chilla fyrir framan sjónvarpið í stofunni.








Tuesday, September 02, 2008

...

Tíminn flýgur og þessi vika markar "alvöru lífsins" hjá okkur skötuhjúum hérna í Danaveldi.
Ég fór í fyrsta eiginlega tímann minn í gær og lærði heilmargt um the learning individual in a Lifelong perspective. Ég verð í skólanum þrisvar í viku og í study groups þar á milli. Allt námiðá þessari önn miðast við tvö lokaverkefni sem felst í tveimur nokkuð stórum ritgerðum (64.000 orð) í sitt hvoru faginu. Ég fæ leiðbeinanda með hvorri ritgerð fyrir sig - sem mér finnst algjör lúxus by the way. Skiladagur er 2. janúar og síðan þarf ég að verja þær 23. og 24. janúar. Þetta virkar allt hálf öfugsnúið finnst mér þar sem ég á að vera í skólanum til 15. desember (fer í stutt próf þá) og fæ síðan frí allan janúar nánast.
Lalli fór í VINNUNA í morgun. Já hann "negldi einn feitann" (svo maður vitni nú í Ásdísi Rán). Spurning hvort ég verði jafn vinsæl körfuboltafrú og hún fótboltafrú? Ég gæti nú unnið eitthvað í þessu - eða hvað finnst ykkur? (þetta blogg hennar er sko næstum uppáhalds bloggið okkar Lalla - dæmi nú hver fyrir sig).
Uuu já aftur að alvöru lífsins - þá bauðst Lárusi semsagt vinna hjá liðinu og byrjaði í morgun. Starfið felur í sér að sjá um allt sem snýr að liðinu þegar kemur að leikjum, starfsfólki, sölu á varningi og svo framvegis. Hann á semsagt að halda utan um umgjörðina fyrir liðið út á við. Ég er æsispennt að heyra hvernig fyrsti dagurinn í vinnunni hjá honum lukkaðist en mér heyrðist á honum í gær að hann fengi eigin skrifstofu og fartölvu sem er nú heldur betur fullorðins á okkar mælikvarða :)
Annars höfum við alveg haft tíma líka í að kanna hverfið, rölta um í góða veðrinu og njóta þess að vera í pínu útlanda gír. Um helgina var 25 stiga hiti og sunshine og við spottuðum fullt af góðum veitingarstöðum, búðum og börum til að bjóða vinum og fjölskyldu á (eða láta þau bjóða okkur á) þegar þau koma í heimsókn. Við chilluðum líka í Íslendinga-garðinum hjá Hildi og Ágústi og grilluðum síðan BBQ rif og kjúlla um kvöldið. Já þetta líf er ekki eintóm vinna og skóli - líka huggulegheit að hætti dana.
Síðan er von á tölvunni okkar á morgun svo þið getið öll andað léttar ;) Ragga og Stebbi eru á ferðinni og ætla að vera svo yndisleg að taka hana með. Þau eru að fara á REM tónleika hérna í Parken og það er ekki laust við að okkur langi pínu pons... sjáum til hvað vísa skvísa segir við mig á eftir þegar ég fer að taka út.
Hafið það annars bara öll huggulegt og eigiði góða viku!!