Við erum nú búin að eyða bróðurpartinum af fæðingarorlofinu hér á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina. Það hafa verið sannkölluð forréttindi að fá að njóta tíma með sínum nánustu, hafa afnot af fullkomnu heilbrigðiskerfi á viðkvæmasta skeiði nýrrar manneskju, drekka ferskt kranavatn á hverjum degi, borða hollan og góðan fisk, taka lýsi og anda að sér ferska loftinu.
Tíminn líður að vanda óvenju hratt og það styttist í Afríkuævintýrin okkar að nýju. Ég fæ að læra og þroskast í vinnu hjá UNICEF í að minnsta kosti í eitt ár í viðbót. Það er dýrmæt reynsla sem við munum öll í fjölskyldunni búa að um ókomna tíð. Við erum orðin spennt að komast heim því heima er svo sannarlega á fleiri stöðum en bara á Íslandi. Heima er líka þar sem morgnarnir anga af brenndum viði, þar sem fólk brosir breiðar en annars staðar í heiminum, þar sem ávextirnir vaxa á trjánum og þar sem börnin hlaupa berfætt allt árið um kring.