Friday, January 31, 2014

Moli #1 um Malaví 

(fyrir 9. bekkinga á Selfossi og aðra sem hafa áhuga...) 

Áður en að ég flutti til Malaví vissi ég lítið um landið. Ég gúgglaði því allt sem ég gat mögulega fundið um landið og las mér til. Það fyrsta sem kom mér á óvart var að landið er um það bil jafn stórt og Ísland (að flatarmáli). Þetta skiptir máli þegar maður uppgötvar að í Malaví búa rúmlega 16 milljónir manns. 

16 milljónir... hugsið ykkur! Í landi sem er jafn stórt og Ísland (og helmingur landsins er meira að segja þakin vatni - sem er afar stórt (þriðja stærsta í Afríku). Ég hugsaði mikið um þetta áður en ég flutti og reyndi að ímynda mér hvernig það væri ef að það byggju jafn margir á Íslandi.  

Þessi ótrúlega tala þýðir að það það er fólk alls staðar. Þessu er ég ennþá að venjast. Hvert sem maður lítur er fólk úti á götu allan sólarhringinn, alls staðar, út um allt. Alls konar fólk, alls staðar! 

Fyrstu dagana var ég að vonum nokkuð gáttuð og reyndi stöðugt að setja þennan veruleika í samhengi við eitthvað heima fyrir. Til dæmis ef að það væri alltaf allt fullt af fólki meðfram þjóðveginum á milli Selfoss og Hveragerði. Fólk að spjalla saman, fólk á gangi, konur að bera fötur og mat á höfðinu, karlar á hjóli, konur með börn á bakinu, hlaupandi börn á leið í skóla, heilu fjölskyldurnar á gangi... 

  

Þannig eru allar götur hér í Malaví. En þetta stafar auðvitað ekki bara af því að það er svo margt fólk í Malaví heldur líka af því að meirihluti alls fólks í Malaví ferðast á tveimur jafnfljótum eða á hjóli þó svo að þau þurfi að fara langa leið. Flest fólk býr í litlum þorpum þar sem er engin þjónusta eins og búðir, skólar, heilsugæsla og svo framvegis. Það þurfa því margir að ganga daglega langa leið til þess að fara í skóla, vinnu eða koma vörunum sínum á markað nærri borg eða þéttbýli.  



No comments: