Sæl elsku vinir.
Nú eru þessar tvær afvötnunarvikur frá því að mamma og pabbi snéru aftur heim liðnar og lífið bæði bjartara og fastara í skorðum. Vinnan fer vel af stað eins og þeir sem fylgjast með Facebook síðunni minni hafa eflaust tekið eftir. Í desember lofaði ég pistli um helstu verkefnin í vinnunni á nýju ári. Nú er heldur betur komið nýtt ár - janúar nánast liðinn og línur teknar að skýrast á skrifstofunni.
Þegar ég hóf vinnuna hjá UNICEF í september á síðasta ári tók það mig nokkra mánuði að átta mig nákvæmlega á því hvað ég væri að fást við. Fyrir því voru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi kom ég inn á skrifstofuna á frekar hektískum tíma þar sem prógramið var komið vel af stað (við erum með prógram sem nær frá 2012 - 2016) en engu að síður vantaði gríðarlega fólk. Við vorum til að mynda þrjú alveg splunkuný á skrifstofunni að fylla upp í stöður sem höfðu verið lausar í næstum hálft ár. Því voru ansi margir lausir enda og göt sem þurfti að byrja á því að stoppa upp í svona fyrst til að byrja með. Í annan stað var umhverfið afar ólíkt því sem ég hef vanist áður og því tók það mig heilmikinn tíma að átta mig á hversu mikið frelsi ég hefði, hversu mikla ákvarðanatöku ég væri fær um og hvernig væri best að nálgast hlutina. Í ofan á lag var ekki alveg víst í upphafi hver væri yfirmaður minn. Tveir aðilar gerðu tilkall til þess og þeir höfðu afar ólíkar hugmyndir um hvert hlutverk mitt og verksvið væri innan deildarinnar.
Þegar allt þetta fór að skýrast fann ég betur og betur hvernig ég sá fyrir mér að geta lagt mitt af mörkum til menntunar barna og ungmenna í Malawi. Ég tók fljótlega eftir því að flestar deildirnar unnu afar einangrað og virtust ekki koma mikið saman til að skipuleggja,framkvæma eða vinna úr niðurstöðum. Eitt og eitt verkefni virtist liggja (stundum af tilviljun) á milli deilda en að öðru leyti virtust flestir vera að gera (góða) hluti hver í sínu horni. Ég ákvað strax að reyna að skoða hvernig við gætum unnið betur saman.
Annað sem ég hjó eftir og vissi strax að ég vildi bæta var rannsóknar- og eftirlitshluti deildarinnar. Öll verkefnin innan menntadeildarinnar höfðu sinn eigin "monitoring and evaluation" ramma. Sem er eðlilegt vegna þess að hvert verkefni sem UNICEF framkvæmir er framkvæmt af ólíkum aðilum og þessir aðilar sjá sjálfir um að meta árangur af verkefnunum með gildum aðferðum. Ég sá hins vegar strax að ef við værum fær um að meta árangur allra þessara ólíku verkefna (byggingar, borholur, menntun stúlkna, kennaramenntun, þjálfun mæðrahópa, skólastyrkir o.fl.) samtímis þá hefðum við sterkar heimildir í höndunum fyrir því hvað væri að virka og hvað ekki.
Ég var strax komin hálfa leið inn í SPSS forritið í huganum þar sem ég gæti tengt saman ólíkar breytur, stjórnað fyrir ákveðnum þáttum og metið þannig áhrif ákveðinna inngripa! Þannig, strax í október fór 100 skóla verkefnið að verða til í höfðinu og rúlla af stað. Í UNICEF prógramminu, sem var jú byrjað áður en ég kom til sögunnar, var búið að ákveða að á núverandi tímabili myndi UNICEF einbeita sér að 10 héruðum í Malaví sem hafa komið einna verst út í ýmsum mælingum (læsi, aðgengi að skólum o.s.frv.). Þegar ég fór að grennslast fyrir um hvar við værum að veita aðstoð þá virtist sem að ekkert kerfi væri til staðar sem sæi til þess að allar framkvæmdir, aðstoð og inngrip færu fram í þessum tilteknum héruðum eða jafnvel enn nákvæmara, í ákveðnum skólum. Ég fór því að spyrjast fyrir um hvort að við gætum gert lista (!!) Enda vita öll skipulagsfrík eins og ég að listar eru alltaf fyrsta skrefið í átt að árangri :)
Fundir innan deildarinnar minnar í nóvember og desember leiddu til þess að flestir voru nú orðnir nokkuð meðvitaðir um hvar hvert og eitt prógram væri staðsett, hvar við værum að vinna og hversu mikil þjónusta væri í hverju héraði fyrir sig. Eftir að slíkur listi lá fyrir fór ég að "lobbía" fyrir því að við þyrftum að gera hlutina á enn skipulagðri hátt. Ég fór því að spurja fólk einslega hvort það væri ekki frábært ef við gætum til dæmis sýnt fram á það með tölfræðilegum hætti að brottfall stúlkna væri minna úr skólum þar sem UNICEF hefði bæði styrkt kennaramenntun og framfleytt stúlkum í námi frekar en í skólum þar sem við hefðum til dæmis bara borgað fyrir skólagjöldin þeirra (rökin sú að kennaramenntun er lykilþáttur í menntun stúlkna). Þetta féll að vonum í góðan jarðveg og í desember fékk ég að halda kynningu á hugmyndinni - ég fékk í lið með mér eina frábæra stelpu í deildinni minni sem hefur miklar hugsjónir fyrir símenntun kennara. Hún var nýbúin að vera að segja mér frá góðum hugmyndum um klasakerfi þar sem hver og einn skóli er tengdur við nærliggjandi skóla og gegnir sem slíkur leiðtogahlutverki á sínu svæði hvað varðar kennslu og nám. Ég sá þetta allt smella í huganum, við skoðuðum reynslu annarra landa, litum til rannsókna á Malaví og öðrum löndum inna og utan Afríku og héldum áfram að þróa verkefnið.
Þeir sem þekkja mig vita að ég skrifaði mastersritgerðina mína með þeim hætti að í gegnum tveggja ára tímabil (og átta mismunandi námskeið) sá ég til þess að ég væri alltaf að skrifa beint eða óbeint um sama efnið. Að tveimur árum liðnum átti ég átta ólíkar ritgerðir um sama efnið sem mynduðu uppistöðuna í meistararitgerðinni minni. Ég er því afar mikið fyrir að tengja saman hluti, ná fram sameiginlegri línu og mynda þannig heildarafurð. Þannig fór ég strax að huga að því hvernig væri hægt að tengja þetta verkefni á raunsæan hátt út fyrir veggi menntadeildarinnar. Næstu skref fólust því í að spjalla við fólk innan ólíkra deilda í UNICEF og styrkja það samstarf sem var þegar til staðar og mynda ný sambönd. Ég vona að við fáum deildir sem snúa að hreinlætis- og vatnsaðstöðu, HIV og barnavernd til liðs við okkur. Það lítur vel út og flestir eru afar spenntir! Annað verkefni sem ég vinn að á skrifstofu UNICEF er að leiða hóp ólíkra UN stofnanna um menntamál. Þarna sá ég tækifæri um leið og fór fljótlega að hugsa hvernig aðrar UN stofnanir gætu komið að verkefninu. Eins og ég sagði frá um daginn er ég í afar jákvæðum samningarviðræðum við WFP sem er stofnun sem bæði útdeilir og styður við matargjöf fólks um allan heim. Fleiri stofnanir eru á listanum mínum....
Eins jákvæð og ég er núna þá veit ég að ég á eftir að lenda á fleiri en einum vegg því verkefnið er hreinlega af þeirri stærðargráðu að það getur ekki allt gengið snuðrulaust fyrir sig. Það sem skiptir líka máli í þessu er að allt þetta verkefni viljum við gera með fullkomnu samþykki og að frumkvæði sveitarfélaganna sjálfra. Það sem skiptir nefnilega mestu máli (og ekki bara þegar unnið er að þróunaraðstoð heldur bara ALLTAF í öllum verkefnum sem snúa að fólki) er að hafa alla hagsmunaaðila við borðið. Leita ráða hjá þeim sem eiga að njóta þjónustannar, þeirra sem eiga að veita hana, þeirra sem eiga að viðhalda henni o.s.frv. Næsta skref er því að halda stóra vinnustofu þar sem allir sem hafa hagsmuna að gæta í skólunum sem valdir hafa verið til að taka þátt í verkefninu (og þeir voru ykkur að segja valdir með afar lýðræðislegum hætti af fólkinu sjálfu í héruðunum en ekki UNICEF).
Þá hefur verkefnið líka verið þróað með fullkominni aðild og út frá hugmyndum menntamálaráðuneytis (ófáir fundir í afar óloftkældri skrifstofu upp í ráðuneyti hafa verið þess virði) og héraðanna tíu sem um ræðir. Verkefnið fer þá frá því að vera einungis afmarkað UNICEF verkefni yfir í að vera merkingarbær og sjálfbær kerfisstyrking þar sem ólíkir aðilar leggjast á eitt til að ná öflugri árangri.
Meira um kerfishlutann næst - er nefnilega æsispennt að hitta tölfræði- og gagnafulltrúa allra héraða á vinnustofunni okkar til að ræða við þá um hvernig við getum styrkt kerfið enn frekar.