Nú er ég aftur komin á ról vinnulega séð eftir
ferðalög síðustu viku. Eins og ég hef sagt frá áður eru verkefnin mín á skrifstofu
UNICEF hér í Malaví æði mörg og krefjandi. Eitt af stærri verkefnunum sem ég tók að mér er að sinna ráðgefandi hlutverki fyrir menntamálaráðuneytið sem vinnur þessa dagana að stefnumótun um menntun án aðgreiningar eða Inclusive Education. Hér sýnist mér helsta áskorunin vera fólgin í því að fjalla um börn með fatlanir á upplýstan og ábyrgan hátt og móta síðan skólastefnu sem byggir á slíkri umfjöllun og umræðu.
Í fyrradag hitti ég félaga mína úr ráðuneytinu,
tvo menn á miðjum aldri, og fékk að heyra af áætlunum þeirra. Áætlanir þeirra um upphaf slíkrar stefnumótunar fólust í góðum hugmyndum um þrjá
samráðs- og vinnufundi í hverjum landshluta fyrir sig en landinu er skipt upp í
norður-, mið- og suðurhluta. Mér leist strax mjög vel á slíkt fyrirkomulag en setti þó
spurningarmerki við tvennt. Í fyrsta lagi fjárhagsáætlunina sem hljóðaði upp á
ansi háa reikninga fyrir akstur og hótelgistingu ýmissa aðila og í öðru lagi boðaða þátttakendur á fundina.
Í tengslum við akstur og hótelkostnað sem áætlaður var á hvern einasta héraðsmenntafulltrúa (24 talsins) og aðra fyrirmenn fékk ég einfaldlega þá
skýringu að ekki væri hægt að ætlast til þess að fólk í jafn háum stöðum kæmi sér sjálft á áfangastað og því einungis eðlilegt að útvega bílstjóra
og tilheyrandi. Ég er hrædd um að það muni taka uppeldis- og menntunarfræðing ofan af Íslandi nokkuð langan tíma að venjast þessari hugsun (ef einhverntíman). Ég sá hins vegar strax að þetta væri ekki til frekari umræðu og snéri mér því bara að næsta atriði sem skiptir líka meira máli. Það tengdist lista þátttakenda. Á fundinn voru boðaðir fjölmargir hagsmunaaðilar sem tengjast hugtakinu menntun án aðgreiningar. Til dæmis kennarar, skólastjórar, menntafulltrúar héraða eins og áður sagði og fleiri sem tengjast rekstri og utan um haldi skólanna. Þá voru einnig boðuð á fundinn hin ýmsu félagasamtök og stofnanir (NGO's) sem tengjast fötluðum börnum á einn eða annan hátt. Á listann vantaði hins vegar afar mikilvægt fólk að mínu mati: Foreldra og börn!
Ég viðraði þetta á mjög svo diplómatískan hátt og benti á að það væri lítil stoð í því að móta stefnu um menntun án aðgreiningar ef ekki væri haft samráð við þá sem virkilega eiga að njóta góðs af slíkri stefnu - foreldra barna með fatlanir og sérþarfir og börnin sjálf. Það eru þau sem þekkja það best á eigin skinni að hafa ekki aðgengi að menntun, að vera útilokuð eða aðskilin frá öðrum. Þau hljóta því að hafa mest um málið að segja.
Félagar mínir í ráðuneytinu voru fyrst í stað ekki mjög spenntir fyrir því að "bæta fleira fólki á listann" eins og þeir orðuðu það. En eftir smá spjall urðum við sammála um að samráðs- og vinnufundir þar sem umfjöllunarefnið er aukið aðgengi að menntun fyrir ÖLL börn ættu að gera ráð fyrir börnum og forráðamönnum þeirra. Sérstaklega þeirra sem búa við fatlanir eða skerðingar. Börn í þeirri stöðu hér í Malaví hafa afar takmarkaða möguleika á menntun sökum aðgengis, úrræðaleysis, þekkingarleysis eða fordóma. Þess vegna skiptir gífurlegu máli að hlusta á - og taka mið af - skoðunum þeirra og reynslu.
Eða eins og slagorðið segir: "Nothing about us without us". Tékkið endilega á þessu myndbandi þar sem réttindi barna með fatlanir eru í brennidepli hjá UNICEF nú sem aldrei fyrr. Fyrir þá sem vilja fræðast enn betur þá er þessi kynning líka stórgóð. Hvet alla kennara til þess að kíkja á myndböndin líka þar sem þau nýtast vel í kennslu í margs konar samhengi (félagsfræði, samfélagsfræði, þróunarfræði, lífsleikni, enska...)
4 comments:
Það eru helfur betur áskoranir sem þú þarft að takast á við elskan mín og ég er alveg viss um að það tekur tíma að venjast hugsanahætti þeirra og er ekki viss um að hann eigi endilega að venjast. Annað mál hvað maður verður að sætta sig við í byrjun allavegana.
knús og kossar, mamma
váá, æðislegar myndir og gaman að heyra frá ykkur.Frábært að UNICEF hefur fengið þig í vinnu til sín sem er með réttu sýnina á hvernig er best að komast á móts við foreldra og fötluð börn þeirra innan skólakerfisins. En yfirleitt gleymist að hlusta á þau þegar hugsað er um hvernig eigi að móta þjónustuna við þau og þeirra þarfir!
kisskiss, Elísa
Takk Eva, fyrir skemmtilegan og fróðlegan pistil. Þetta myndband er mjög áhugavert og ég hyggst sýna það í lífsleikni hér í FSu. - Knús á ykkur öll. - Vera
Frabaert Vera - bid ad heilsa i lifsleiknina a Selfoss! Knus til baka.
Post a Comment