Sunday, October 06, 2013

Að mánuði liðnum...

er óhætt að segja að Malaví hafi komið við þrjú hjörtu frá Íslandi. Endalaus uppspretta vinalegaheita af hálfu fólksins hér, bæði Íslendinga og Malava, er auðvitað forsendan fyrir því hversu vel okkur hefur liðið frá fyrsta degi. Það hefur til að mynda verið ómetanlegt að búa á góðu heimili - að hafa fastan punkt í tilverunni - á meðan við komum okkur fyrir. Eins og ég hef komið að áður taka hlutirnir hér í Malaví sinn tíma og það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu að geta andað rólega, hugað vel að hlutunum og tekið góðan tíma í að byggja upp stoðirnar í kringum okkur. Það er heldur ekki alltaf sem kerfið hér í Afríku segir sig sjálft eða virkar eins og við ætlumst til. Þá er mikilvægt að geta leitað til þeirra sem þekkja betur til, kunna á kerfið og geta miðlað af reynslu til okkar nýbúanna.  

Í síðast liðinni viku hélt ég til á sveitasetri í Nairobi, Kenya. Þar var haldin svo kallaður Regional Education Meeting þar sem fulltrúar frá menntasviði UNICEF frá öllum löndum í suður- og austurhluta Afríku komu saman til að ræða nýjustu stefnur og strauma, deila hugmyndum og læra af hvort öðru. Fundurinn var ansi langur og en vikan leið hratt því efnistökin voru bæði spennandi og krefjandi. Fallegu feðgin undu sér hins vegar heima í Malaví - við ekki síður mikilvæg verkefni sem fólust í að reisa stoðirnar í lífinu okkar. Hera Fönn byrjaði í leikskólanum First Steps þar sem hún virðist una sér vel. Leikskólarnir hér í Malaví leggja meiri áherslu á formlegt nám en leikskólar í Skandinavíu gera. Sem dæmi læra börnin strax frá 2 ára aldri mjög markvisst stafi, tölur og form. Kennarnir höfðu í fyrstu ákveðnar áhyggjur af því að Hera Fönn væri ekki tilbúin í þetta form af leiksóla komandi frá Skandinavíu. Við foreldrarnir höfum hins vegar litlar áhyggjur vitandi það að þessi formlegi og skýri rammi hentaði okkar stúlku eflaust betur en nokkuð annað. Enda unir hún sér vel og lærir nú stafina á ensku - sem hún kunni alla fyrir á íslensku. Kennararnir hennar eru afar ánægðir með hana. Hún er farin að segja nokkur orð á ensku í leikskólanum (segir fleiri heima í öruggu umhverfi) og virðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með að taka þátt í leik eða nálgast hin börnin þó svo að þau tali ekki ennþá sama málið. Um daginn kallaði hún til dæmis "lets go" á öll börnin þegar þau áttu að koma inn í tíma. 

Nú bindum við vonir við að flytja inn í húsið okkar í næstu viku. Húsið sem er í eigu tóbakssamtaka (tóbak er helsta útflutningsvara Malava) þarfnast töluverða viðgerða sem við óskuðum eftir að yrðu gerðar. Nú erum við að bíða eftir því að fyrirtækið taki ákvörðun um hvort og hversu mikið þau telja sig tilbúin að gera við áður en við flytjum inn. Það er reyndar ágætt að við höfum smá tíma fyrir okkur þar sem okkur vantar nákvæmlega allt inn í húsið. Þegar ég segi allt, þá meina ég allt. Húsinu fylgir til að mynda hvorki eldavél, þvottavél eða ísskápur. Í Lilongwe er ein búð sem selur tæki af þessu tagi og þau fást sko ekki á neinum afslætti. Við erum þess vegna búin að leita hingað og þangað til fólks sem er að flytja og gæti mögulega verið að selja dótið sitt fyrir örlítið hagstæðari kjör - það gengur ágætlega.... en hratt gengur það ekki! Við höfum fest kaup á eftirfarandi hlutum: Ísskáp, gervihnattadisk, bastsófasetti og ketti. 

Okkur hlakkar óskaplega til að fá kisuna í hendurnar en hún á heima í húsinu okkar núna og fær að fylgja með í stað þess að fara aftur í Kattholt þaðan sem fyrri eigendur fengu hana. Hera Fönn veit að hún mun eignast kisu þegar við flytjum og þið getið rétt ímyndað ykkur spenningin.  


2 comments:

Unknown said...

Skemmtilegar fréttir! Ég tel þetta algjörlega basic kaup í húsið og ég sé sko fyrir mér kisu spennta stelpu ;)Hún er yndi og ég efast ekki um að hún eigi eftir að mastera þennan leikskóla :) Við vorum einmitt að fara yfir 4 ára skoðun með Kára og þá spurði hann hvort læknirinn myndi líka spyrja hvort hann kynni að telja á ensku!
Gangi ykkur velj að flytja en hvað er að frétta af kössunum ykkar?
Ég panta svo skype date með ykkur fljótlega.

Berglind said...

lets go! hahahah snillingur:)