Flestir í fjölskyldunni eru spenntastir að vita hvernig litla daman (sem í dag kallar sig skrímsla prinsessu af því að hún klæðist skrímslabol frá Kjörís) plummar sig hér í landi eldanna, hinu heita hjarta Afríku. Afdrif foreldranna virðast einhvern vegin skipta töluvert minna máli og mun sjaldnar spurt um aðlögunarhæfni okkar hvernig sem stendur á því...???
En það verður að segjast að við erum óskaplega stolt af litlu stelpunni okkar sem tekur hverjum degi fagnandi og spreytir sig í nýju umhverfi alls óhrædd og yfirleitt alveg pollróleg. Hún skilur mjög vel að fólk talar ekki tungumálið hennar og við reynum að æfa okkur reglulega bæði með því að lesa bækur á ensku og með því að horfa á Dóru vinkonu okkar allra (!) Hún kann núna að telja upp á 10 á ensku og segir "see you" "my name is Hera" og "thank you".
Yfirleitt er hún mjög mannblendin og heilsar þegar fólk talar við hana en stundum verður athyglin (sem nóg er af) henni ofviða og hún neitar að tala við allt fólkið sem vill klípa í kinnarnar, koma við hana og kjá framan í hana. Hera Fönn spyr margra skemmtilegra spurninga um Afríku og á oft nokkuð margar og skondnar athugasemdir á dag um það sem fyrir augu og eyru ber.
Í morgun spurði hún til dæmis þegar hún leit út um gluggann hvort að það væri alltaf sumar í Afríku. Við útskýrðum þá árstíðirnar hér og muninn á þurrka og regntímabilinu. Hún hefur líka verið áhugasöm um flugur og pöddur hvers konar og hefur flokkað þær í tvo flokka: 1) sætar og 2) ógeðslegar. Hún er óhrædd við nánasta umhverfi og pempíuskapurinn sem var nokkur heima fyrir virðist vera búin að skolast af henni (eða kannski grafist undir skítugum fótunum sem verða ekki hreinir þó svo að farið sé í sturtu tvisvar á dag).
Hera hefur mikilvægu hlutverki að gegna í daglegri rútínu öryggisvarðanna hér í húsinu. Hún færir þeim kaffið sitt nokkrum sinnum á dag og þeir launa henni með því að leika við hana og gæta hennar þegar hún nálgast sundlaugina. Hún dundar sér ótrúlega vel hér með pabba sínum og ein síns liðs. Það verður vafalaust mun skemmtilegra fyrir hana að komast á leikskóla og vonandi er ekki langt að bíða en þangað til þá lætur hún sér ekki leiðast!