Sunday, September 22, 2013

Hera Fönn

Flestir í fjölskyldunni eru spenntastir að vita hvernig litla daman (sem í dag kallar sig skrímsla prinsessu af því að hún klæðist skrímslabol frá Kjörís) plummar sig hér í landi eldanna, hinu heita hjarta Afríku. Afdrif foreldranna virðast einhvern vegin skipta töluvert minna máli og mun sjaldnar spurt um aðlögunarhæfni okkar hvernig sem stendur á því...??? 

En það verður að segjast að við erum óskaplega stolt af litlu stelpunni okkar sem tekur hverjum degi fagnandi og spreytir sig í nýju umhverfi alls óhrædd og yfirleitt alveg pollróleg. Hún skilur mjög vel að fólk talar ekki tungumálið hennar og við reynum að æfa okkur reglulega bæði með því að lesa bækur á ensku og með því að horfa á Dóru vinkonu okkar allra (!) Hún kann núna að telja upp á 10 á ensku og segir "see you" "my name is Hera" og "thank you".

Yfirleitt er hún mjög mannblendin og heilsar þegar fólk talar við hana en stundum verður athyglin (sem nóg er af) henni ofviða og hún neitar að tala við allt fólkið sem vill klípa í kinnarnar, koma við hana og kjá framan í hana. Hera Fönn spyr margra skemmtilegra spurninga um Afríku og á oft nokkuð margar og skondnar athugasemdir á dag um það sem fyrir augu og eyru ber. 

Í morgun spurði hún til dæmis þegar hún leit út um gluggann hvort að það væri alltaf sumar í Afríku. Við útskýrðum þá árstíðirnar hér og muninn á þurrka og regntímabilinu. Hún hefur líka verið áhugasöm um flugur og pöddur hvers konar og hefur flokkað þær í tvo flokka: 1) sætar og 2) ógeðslegar. Hún er óhrædd við nánasta umhverfi og pempíuskapurinn sem var nokkur heima fyrir virðist vera búin að skolast af henni (eða kannski grafist undir skítugum fótunum sem verða ekki hreinir þó svo að farið sé í sturtu tvisvar á dag).

Hera hefur mikilvægu hlutverki að gegna í daglegri rútínu öryggisvarðanna hér í húsinu. Hún færir þeim kaffið sitt nokkrum sinnum á dag og þeir launa henni með því að leika við hana og gæta hennar þegar hún nálgast sundlaugina. Hún dundar sér ótrúlega vel hér með pabba sínum og ein síns liðs. Það verður vafalaust mun skemmtilegra fyrir hana að komast á leikskóla og vonandi er ekki langt að bíða en þangað til þá lætur hún sér ekki leiðast! 










  

Friday, September 20, 2013

Eitt og annað

"Er aftur kominn föstudagur?" spurði Lalli mig í morgun... "já ég veit" sagði ég innilega sammála því sem ég vissi að hann væri að hugsa. Vikan hreinlega þaut framhjá okkur. Mín vika einkenndist af ótal fundum enda margt fólk að hitta og mikið að læra þegar maður er nýr í stórri stofnun líkt og UNICEF. Fyrsti fundurinn minn var svo kallaður All staff meeting þar sem starfsmenn allra deilda mæta og ræða um ýmislegt sem er á döfinni. Eftir um það bil 5 mínútur af fundinum (sem var 3 klukkutímar) áttaði ég mig á því að ég skyldi ekki nema annað hvert orð sem fram fór því tungumálið sem er talað innan UN er svo sannarlega ekki hin hefðbundna enska sem við eigum að venjast. Ég hef aldrei á ævinni heyrt jafn mikið af skamstöfunum og jargonum á ævinni. Yfirmaður minn sagði til dæmis við mig á fyrsta fundinum okkar:

"The CFS will only be able to feed into the SIP if the M&E are in order, thats why we want it to be a part of MORES".  

Yes, I totally understand that - var svarið mitt!

Hera Fönn og Lalli eru búin að fara sér örlítið hægar en ég - á meðan við erum bíllaus fara þau ekki langt enda lítið hægt að fara hér um nema í bíl. Í dag fengu þau hins vegar lánaðann bíl hjá Huld og rúntuðu þá um allan bæ, skoðuðu leikskóla og fóru í búðir. Þeim leist best á leikskóla sem margir expatar (útlendingar) hér í Lilongwe hafa mælt með en þar er því miður biðlisti. Sá leikskóli er yndislega fallegur og með mikið og metnaðarfullt starf í gangi. Garðurinn er auðvitað alveg ævintýraheimur út af fyrir sig þar sem alls konar ávextir og grænmeti eru ræktuð. Síðan eru haldin ýmis dýr í hluta af garðinum. Við vonumst til að komast inn fyrr en síðar.

Okkur hlakkar mikið til helgarinnar en við ætlum að hitta fólk í brunch á morgun á svo kölluðum "farmers market". Þau eiga lítinn strák á sama aldri og Hera Fönn en þau hafa hist einu sinni áður og okkur kom öllum mjög vel saman. Seinnipart laugardags ætlum við síðan að heimsækja hefðbundið Malavískt þorp hér í nágrenninu en þar spila nokkrir strákar fótbolta - og Lalli er auðvitað kominn í liðið!
Góða helgi elskurnar.   
   

Tuesday, September 17, 2013

Í leit að húsi með garði

Daginn eftir komuna til Lilongwe var ekki eftir neinu að bíða og ég byrjaði að vinna á skrifstofunni daginn eftir. Ég samdi reyndar um að fá að koma eftir hádegi til þess að ná andanum. Fyrsta morguninn okkar í Lilongwe fengum við annan hjálplegan og yndælan Íslending (þeir leynast víða) til þess að fara með okkur á rúntinn. Hún Gulla kom og sótti okkur í fyrra fallinu enda byrjar dagurinn snemma hér í Malaví – sólin kemur upp um fimm leytið og sest aftur klukkan sex. Birtan ákvarðar daginn. Flestir vakna á milli fimm og sex og börnin byrja í skólanum klukkan sjö.

Við þeyttumst um borgina allan fyrsta morguninn og reyndum eftir bestu getu að leggja helstu byggingar og kennimerki á minnið enda lítið um skilti, hvað þá götuheiti. Nokkrar langar og fjölfarnar götur bera reyndar heiti en það er líka nauðsynlegt að taka eftir og þekkja ýmislegt annað eins og lit á húsum og gróður í görðum til þess að rata um borgina. Ég segi til dæmis við UNICEF bílstjórann sem skutlar mér heim eftir vinnu að ég eigi heima á malarveginum bak við Ufulu götu, í húsinu á hæðinni með rauða hliðinu og pálmatrjánum.   

Skipulagt kaos er eflaust ágæt lýsing á borginni sem er í veruleikanum ekki eiginleg borg heldur frekar stór bær sem skiptist í gamlan bæ, nýjan bæ og númeruð íbúðarhverfi. Hverfin og húsin eru númeruð eftir aldri þannig að hús númer 1 í hverfinu er fyrsta húsið sem var byggt þar og hús númer 2 annað húsið sem var byggt og svo koll af kolli. Númerin eru því alls óháð staðsetningu á húsunum og því allt eins líklegt að hús sem standa hlið við hlið beri númerin 2 og 99.

Við erum búin að nýta vikuna í að skoða nokkur hús til þess að leigja. Erum með eitt í sigtinu en bökkuðum líka ansi hratt – eða neituðum hreinlega – að fara inn í önnur. Hér er leiguverð ansi hátt ef ætlunin er að búa í húsi sem kemst nálægt því að vera „vestrænt“ í staðli. Smiðsdóttirin á örlítið erfitt með þá staðreynd að hurðar passa sjaldan inn í falsið, rafmagnssnúrur liggja afar sjaldan inn í veggjum heldur mun frekar utan á þeim og nákvæmni er eflaust ekki það sem er predikað þegar flísar eru lagðar. Pabbi og mamma – sem eru búin að kaupa sér miða til Malaví um jólin, húrra fyrir þeim – fá eflaust lista yfir hluti sem þarf að koma með úr smíðakassanum. Pabbi er ekki örugglega pláss fyrir falshefil?

En staðlar og norm eru tilbúnar og lærðar  þarfir sem eiga eftir að breytast eins og heimsmyndin okkar. Við erum fyrst og fremst að leita að húsi í hverfi sem verður ekki oft fyrir vatns- eða rafmagnsskorti. Samkvæmt innherjaupplýsingum verða hús sem tengjast inn á sömu rafmagnslínu og forsetahöllin sárasjaldan fyrir rafmagnstruflunum á meðan önnur hús  og jafnvel heilu hverfin geta verið án rafmagns marga klukkutíma á dag, oft í viku. Þá þarf líka að huga að því hvort að húsið sem við leigjum sé búið vatnstanki ef að skortur yrði á vatni. Lúxusinn sem við komum til með að leita eftir felst í því hvort að húsið hafi góðan garð þar sem litlir fætur geta hlaupið um og þar sem hægt er að rækta eigið grænmeti og ávexti. Enda góðri sprettu og fjölbreytni fyrir að fara í þessum heimshluta. Margir sem við þekkjum geta hæglega náð sér í mangó, avakadó, appelsínur og banana úr garðinum. Það heillar mig persónulega frekar en að þurfa að prútta við sölumenn á götunum um verð. Prútt er ekki mín sterkasta hlið. Sem betur fer höfum við verið í fylgd Huldar fyrstu dagana hér – annars hefði ég líklega borgað hátt í 3000 íslenskar krónur fyrir bananaknippi um daginn.

Monday, September 16, 2013

Ferðalagið og fólkið

Eftir einungis vikudvöl í Malaví er óhætt að segja að við litla fjölskyldan höfum öðlast nýja sýn á lífið – eða að minnsta kosti fengið að kynnast nýju og ansi hreint öðruvísi lífi. Lífi sem við hlökkum til að kynnast betur, læra betur á og lifa. Við lögðum af stað fyrir rúmri viku síðan frá Íslandi, áttum yndislegt pitstop í Stokkhólmi hjá góðum vinum. Hlóðum batteríin í sænsku Indian summer. Við erum ennþá að taka fyrstu skrefin hvað varðar vinnu, húsnæði, bílamál, leikskólamál og öllu því sem snýr að daglegu lífi. Við tókum strax þá ákvörðun að anda afar rólega í gegnum þessa fyrstu daga enda mikið að taka inn og margt að hugsa um. Þar að auki gerast hlutirnir á örlítið öðrum hraða en við erum vön og því mikilvægt að „sýna biðlund“ eins og Hera Fönn er vön að predika.


Fyrsta upplifun okkar af borginni Lilongwe og íbúum hennar var mjög góð. Ég fékk reyndar örlítið í magann þegar við flugum yfir Malaví og út um gluggann blasti við ekkert nema eyðimerkurlegt rautt og bleikt landslag og síðan vatnið endalausa sem, meira að segja úr lofti, lítur út fyrir að vera úthaf. En Malavívatn er einmitt 11 stærsta stöðuvatn í heimi og það 3ja stærsta í Afríku. Við vatnið finnast hvítar strendur og litlir sjarmerandi strandbæir. Við stefnum á að heimsækja það fyrr en síðar – enda ekki nema um það bil klukkutíma akstur úr borginni og niður að vatni.

Við lentum hér í  Lilongwe um hádegisbil eftir töluvert langt ferðalag frá Stokkhólmi til Eþíópíu og þaðan frá Eþíópíu til Malaví. Í Eþíópíu var bæði kalt og rigning en í Malaví tók á móti okkur notalegur andvari og 25 stiga hiti. Okkur leið því strax mjög vel í landi eldanna – hjarta Afríku. Hitinn hefur farið heldur hækkandi síðan við komum og við finnum ágætlega fyrir því að vera frá Íslandi, alls óvön hækkandi hitastigi á þessum tíma árs. Kvörtum ekki! En nóg af veðri – enda er það ekki sérstaklega krassandi umræðuefni í landi þar sem veðrið breytist um það bil einu sinni á ári. Mannlífið, umhverfið og menningin eru hins vegar óþrjótandi uppspretta umræðu hjá okkur þessa fyrstu daga.

Við fengum allar töskur og kerruna hennar Heru Fannar heilu og höldnu á vellinum í Malawi okkur til mikillar gleði. Glæru loftþéttu geymslupokarnir okkar vöktu reyndar ákveðnar grunsemdir og við vorum spurð að því hvort við ætluðum nokkuð að selja fötin á svörtum markaði. Segir kannski eitthvað um það hversu mikið af fötum við töldum okkur þurfa að taka með okkur (!) Við útskýrðum samviskusamlega að við værum að flytja til landsins og værum í heiðvirðri vinnu hjá UNICEF. Þá fengum við bara stórt bros og „Welcome to Malawi“ sem hefur heyrst mjög oft síðustu daga. Við vorum síðan sótt af hinum yndæla og hlátumilda Steve sem er einn af bílstjórum UNICEF. Steve skutlaði okkur heim til Huldar sem er íslensk splunkuný vinkona okkar hér í Lilongwe. Huld bauðst til að hýsa okkur litlu fjölskylduna á meðan við værum að koma undir okkur fótunum og fyrir það erum við henni óendanlega þakklát. Það var einstaklega notalegt að koma strax inn á heimili í stað hótels og að eiga strax fastan punkt í nýrri og örlítið ruglingslegri tilveru. Það hefur líka verið yndislegt fyrir Heru Fönn að fá strax öruggt og vinalegt umhverfi til að aðlagast í. 

Það tók ekki nema hálftíma að keyra frá flugvellinum heim að húsinu okkar - sem er til marks um hversu langan tíma það tekur að breyta heimsmynd fólks. Litirnir, fólkið – ó allt fallega fólkið – umferðin, tréin, fuglarnir, lyktin. Hlaupandi skólabörn í bláum búningum, konur með stór vatnsílát og mörg kíló af bönunum á höfðinu, heil fjölskylda á einu reiðhjóli, strákahópar undir tré, lítil börn á baki mæðra sinna, menn og konur að elda við opinn eld, unglingar á mótórhjólum, breiður af fjólublám og rauðum trjám, fólk að vinna, heilu fjölskyldurnar við vegkantinn. Orðin duga eiginlega ekki til og lýsingin verður tæplega til marks um það sem fyrir augun bar. Við vorum þreytt en ákaflega spennt fjölskylda sem kom sér fyrir í fallegu húsi uppi á hæð hér í hverfi 43 í Lilongwe.  






   

Sunday, September 01, 2013

Lokaundirbúningur

Vikan sem nú gengur í garð verður að öllum líkindum síðasta vikan okkar hér á landi. Við höfum nú lokið við að pakka niður í tvo "tröllakassa" sem munu fylgja okkur út. Í þá fékk að fara ýmislegt dót sem okkur hefur verið tjáð að sé erfitt að verða sér úti um úti í Malaví. Meðal annars bækur, barnadót, sjónvarpstæki, föt og annað smálegt. Við tökum einnig þetta helsta sem þarf til að reka heimili - enda óþarfi að byrja á því að versla allt upp á nýtt. Það er ekki endilega mikið um lúxusvörur á borð við raftæki ýmiskonar, leikföng, búsháhöld osfrv. og það sem er til er að jafnaði mjög dýrt.  

Við vitum ekki ennþá hvernig húsakosturinn okkar verður - en vitum þó að við munum fá góða aðstoð frá starfsfólki UNICEF til þess að skoða og velja okkur hús eða íbúð. Þeir Íslendingar sem búa nú í Lilongwe hafa verið okkur einstaklega hjálplegir líka í sambandi við ýmsar upplýsingar, undirbúning og góð ráð. Við fáum meira að segja að gista fyrstu næturnar (óráðið hversu margar) hjá íslenskri konu sem vinnur fyrir World Food Program. Það er sérlega góð tilfinning að vita af fólki sem þekkir hvern krók og kima af borginni og er tilbúið að vera okkur innan handar.

Nú bíðum við eftir því að fá svokallað "security clearance" frá UNICEF og þá hoppum við upp í flugvél og hefjum ferðalagið mikla.