Börn breyta öllu. Eftir að litla daman fæddist lítum við án efa öðruvísi á lífið. Sumpart meðvitað og sumpart ómeðvitað. Margt er eins og ég bjóst við en mun fleira allt öðruvísi.
Í fyrsta lagi: Húrra fyrir öllum konum sem hafa fætt barn! Meðganga og fæðing eru án efa magnaðasta, erfiðasta, besta og skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í hingað til á ævinni. En þetta var víst bara byrjunin á ævilöngu verkefni sem felst að sjálfsögðu í skynsömu uppeldi, óeigingjarnri ást og skilyrðislausri umhyggju fyrir barninu okkar.
Eftir fyrstu vikurnar (og mánuðina jafnvel) sem fólust aðallega í því að horfa dreymandi á hvort annað er lífið við það að falla í fastar skorður aftur. Við erum nú flutt á æskuslóðirnar með tveggja ára plan í huga. Barnið dafnar vel og virðist sátt með nýja umhverfið. Við erum líka sátt við planið og hlökkum til að kynnast Hveragerði upp á nýtt. Síðan vantar auðvitað ekkert upp á gleðina hjá öfum og ömmum eiga nú töluvert greiðari aðgang að börnum og barnabörnum en áður.
Stefnan er einmitt tekin upp í sveit þessa helgi í faðm fjölskyldunnar.