Hef sagt það áður og kem til með að segja það áfram. Á Íslandi er alltaf allt í fimmta gír. Þetta hefur vissulega sína kosti og galla. Meðal "jóninn" á Íslandi sinnir yfirleitt ótal hlutverkum, tekur að sér of mörg verkefni, er í tveimur til þremur vinnum og með óteljandi hugmyndir, plön og verkefni í farvatninu.
Við erum engin undantekning þó svo að við höfum vanist örlítið rólegra lífi og ólíku mynstri í Kaupmannahöfn og Bilbao sl. tvö ár. Ég lít til baka óendanlega fegin og þakklát fyrir þennan tíma úti. Þar sem ég var (næstum því) "bara" í meistaranámi. Lalli fékk líka ágætis tíma til að sinna sínum MA skrifum ásamt því að spila körfubolta. Ég var hins vegar nánast fordekruð miðað við aðra stúdenta og þá sérstaklega seinna árið mitt á Spáni þar sem ég rétt svo druslaðist til að kenna ensku tvisvar í viku en sinnti annars engu nema MA ritgerðinni - sem var yndislegt!
Þið megið ekki misskilja mig, þrátt fyrir allan heimsins tíma þá lærði ég alls ekki mikið meira en ef ég hefði verið upptekin við hin ýmsu störf meðfram náminu. Ég eyddi hins vegar nægum tíma í að leita að góðum veitingastöðum, að þefa uppi söfn, í kaffihúsaferðir, strandferðir, gönguferðir og ýmsa aðra andlega nærandi iðju. Sem er í raun og veru það yndislegasta við MA ritgerðina. Þegar ég fletti í gegnum hana í dag finn ég hreinlega lyktina af góðu rauðvíni og tapasréttum. Ég heyri spænskuna flæða, sé fyrir mér litlu hellulögðu göturnar í Bilbao og finnst ég stödd í Guggenheimsafninu eða í grænum sporvagni.
Nú halda eflaust margir að ég sé að sálast úr útþrá og langi mest af öllu að flytja aftur til Bilbao en það er alls ekki svo. Þetta var nefnilega bara akkúrat passlegt og ég er í raun og veru himinsæl og glöð með að vera komin heim. Komin í tvær eða þrjár vinnur, þjótandi hingað og þangað, gerandi plön í gríð og erg, takandi að mér of mörg verkefni, lesa fréttirnar, kaupa bíl, skoða íbúð, eignast barn, horfa á Desperate Housewifes, hitta þennan og hitta hinn, bjóða í matarboð, vera boðin í matarboð, pexa yfir þjóðmálunum, hafa of mikið að gera og æ þið vitið allt þetta sem maður gerir þegar maður er orðin fullorðinn og býr í íslensku nútímasamfélagi.
Ég elska þetta líf og þetta land alveg eins og það er - en það er samt sem áður öllum nauðsynlegt að smakka á annarri menningu, lifa í öðru lífsmunstri og upplifa annan hversdagsleika. Ég held meira að segja að það sé nauðsynlegt að gera það öðru hvoru og helst reglulega. Að mínu mati er varasamt að festast um of í einu munstri eða einum raunveruleika - því í raun og veru eru þeir svo ótal margir og ólíkir hver frá öðrum. Hver öðrum skemmtilegri, fróðlegri og allir jafn nauðsynlegir.
Það getur síðan verið ákveðin kúnst að vita hvenær tíminn er kominn - að finna út úr því hvenær passlegt er passlegt. En ég efast ekki um að ég finni það... þegar að því kemur. Akkúrat núna og þangað til þetta verður alveg passlegt og eitthvað annað býðst ætla ég að njóta dagsins og lífsins alveg eins og það er í boðinu hérna á Fróni.
1 comment:
Flottur pistill og mjög áhugaverður. Sérstaklega þegar þú hefur tengingu við MA ritegerðina þína svona góða meðan flestir hafa blóð svita og tár sem tengingu...allavega eitthvað af áðurnefndu. Við héldum að við mundum detta inn í svona rómantísk rólegheit hér í Stokkholmi en það er sko alls ekki. Alltaf brjálað að gera :) En mun minna af heimboðum og skírnarveislum osvfrv. :)
En við erum búin að heyra frétttirnar að lítil stúlka hafi komið í heiminn og bíðum spennt eftir meiri fréttum.
Knús í hús!
Post a Comment