Sunday, February 27, 2011

Sunnudagsmorgnar

Rás 1 er klárlega besta stöðin á sunnudagsmorgnum.

Ég get alls ekki þolað teknó-píkupoppið (afsakið orðbragðið) á FM 957. Ég get ekki ímyndað mér að neinn sé í stuði fyrir þess konar tónlist á sunnudagsmorgnum nema þá helst þeir sem ekki eru ennþá farnir að sofa og eru að poppa síðustu E-pilluna svona upp úr hádegi á sunnudegi. Já já. Verði þeim að góðu.

Ég hef um það bil þriggja mínútna þolinmæði fyrir skelfilega yfirborðskenndu og hressu útvarpsfólki á Kananum. Kaninn spilar oft ágætis tónlist - en það er mjög vafasamt hversu ótrúlega hresst og frasakennt útvarpsfólkið er.

Þjóðarsálin hjá Sirrý gæti síðan auðveldlega drepið hvaða kósýstemmingu sem er "já góðan daginn mig langar að ræða um húðsjúkdóma og strætómál".... Sirrý sem er alltaf svo jákvæð ætlar aldrei að trúa því hvað ástandið í þjóðfélaginu er slæmt og sýpur hveljur yfir hverju stórmálinu á fætur öðru.

Þá hugnast mér betur "hrífandi svanasöngur Schuberts", útvarpsleikritið og lesnar tilkynningar í bland við tónlist sem spannar allt frá íslenskum karlakórum til rúmenskrar þjóðlagatónlistar.

Tuesday, February 22, 2011

Eitt og annað

  • Ég held að vorið sé að koma, þó svo að það spái snjókomu í næstu viku.
  • Ég er ennþá að skoða doktorsnám og mögulega styrki til doktorsnáms, þó svo að ég sé að fara eignast barn eftir mánuð.
  • Mér finnst algjör vitleysa að strauja öll föt, líka barnaföt, þó svo að mamma mín hafi alltaf gert það.
  • Ég vakna stundum klukkan fimm, þó svo að ég fari ekki að sofa fyrr en klukkan eitt.
  • Mig langar stanslaust til útlanda, þó svo að ég sé bara eiginlega nýflutt heim.
  • Ég er oft svöng þó svo að ég sé nýbúin að borða - sérstaklega ef ég borða epli.
  • Ég er alveg pollróleg með framtíðina þó svo að það sé ekkert planað hjá okkur frekar en fyrri daginn.


Friday, February 11, 2011

Lífsgæði

Reglulega tek ég góða umræðu um lífsgæði við sambýlismanninn minn. Hvað það er að njóta lífsgæða, hver þau eru og hvernig við getum skapað okkur lífsgæði í nútíð og framtíð. Við erum sammála um að þrátt fyrir að peningar skipti alltaf einhverju máli þegar kemur að lífsgæðum þá eru þeir á engan hátt forsenda fyrir þeim gæðum sem lífið hefur upp á að bjóða.

Það eru einfaldlega aðrir hlutir sem skipta meira máli. Ein helsta forsendan fyrir því að lífið geti talist gæfuríkt er til dæmis að vera í góðri, spennandi og krefjandi vinnu. Þess konar vinna getur verið hvaða vinna sem er og þarf ekki endilega að vera best launaðasta vinnan eða virtasta vinnan. Í nútímasamfélagi tíðkast að meta gildi og virði vinnu út frá peningum en í raun og veru felst gildi hverrar vinnu í þeim andlegu verðmætum sem hún veitir þeim sem leysir verkefnið af hendi. Persónulega þykja mér til dæmis þrjú atriði mikilvægari en önnur þegar kemur að vali á vinnu. Í fyrsta lagi þarf ég bæði að geta gefið af mér og lært af öðrum. Ef þessi forsenda væri ekki fyrir hendi ætti ég ekki mikla möguleika á að njóta mín í vinnunni eða að gera hana að hluta af mínum lífsgæðum - sama hversu vel launuð hún væri. Í öðru lagi finnst mér einstaklega gaman og gefandi að vinna með fólki og helst að vinna að verkefnum sem fela í sér einhverskonar umræður um nám, nýjungar og þekkingu. Því met ég það mikils að vinnan eða verkefnin sem ég tek að mér séu fólgin í því að leita lausna við krefjandi verkefnum. Í þriðja lagi er það ótvíræður kostur að mínu mati að hafa ákveðið frelsi, frumkvæði og sjálfstæði í vinnunni.

Lífsgæði er einnig fólgin í einfaldari en þó einstaklega mikilvægum atriðum eins og að eiga í góðum samskiptum við gott fólk - bæði vini og fjölskyldu. Að búa í notalegu og öruggu umhverfi og að hafa aðgengi að ákveðinni grunnþjónustu. Fyrst og fremst felast þó lífsgæðin í því að gera gott úr þeim aðstæðum sem við búum við - líta jákvæðum augum á hvert það verkefni sem fyrir liggur, setja sig sem oftast í spor annarra, sýna öllu fólki virðingu og takast þannig á við einn dag í einu ákveðin í því að njóta þeirra lífsgæða sem felast í hverju andartaki.

Tuesday, February 01, 2011

Þakklæti

Heitur og rjúkandi kaffibolli, glærur um samskipti í uppeldis og fræðslustarfi, súkkulaði með hnetum. Que bien!

Ég lifi rólegheitarlífi þessa dagana og þakka fyrir það á hverju kvöldi hversu heppin ég er að vera í þessari stöðu. Ég vinn skemmtilega vinnu sem ég elska að undirbúa og sinna, ég bý í rúmgóðri og kósý íbúð þar sem ofnarnir virka og heita vatnið bunar úr sturtunni. Ég á yndislegan maka sem er líka sálufélagi minn og besti vinur. Notalegir vinir og fjölskylda eru í nálægð við okkur og lífið er gott.

Útþráin er ekki eins mikil og vænta mætti í febrúarbyrjun. Held að vorið sem ríkir á einhvern undarlegan hátt innra með mér hafi mikið um það að segja. Ég stelst samt til að leiða hugann öðru hvoru að útlandaferðum... enda bara gott að fylla hugann af sól og sumaryl þegar úti er hvasst og hvítt.