Sunday, December 05, 2010

Spænskir siðir = íslenskur vandræðagangur

Alla tíð hef ég staðið mig að því að hlægja pínulítið inní mér að fólki sem er að flytja aftur til Íslands eftir að hafa búið um tíma í útlöndum og er þá allt í einu komið með rosa hreim, segist ekki muna íslensk orð eða talar í sífellu um hvernig hlutirnir voru nú gerðir í útlandinu... Það er semsagt eins og aumingjans fólkið eigi í ægilegum erfiðleikum með að aðlaga sig að íslenskri menningu (þrátt fyrir að hafa átt heima hér á landi bróðurpartinn af lífinu).

Síðan gerist það, eftir að við komum heim til Íslands eftir einungis rúm 2 ár í útlegð, að ég stend mig í sífellu að því að sletta einhverju á spænsku eða ensku og finnst ég ekki finna íslensku orðin. Ég roðna alveg niður í tær og hundskammast mín þegar ég heyri sjálfa mig segja: “Æ ég man ekki alveg íslenska orðið”. Ég fékk líka smá hnút í magann þegar Lalli spurði mig að því um daginn hvort ég væri viss um að mamma og pabbi skyldu allt sem ég segði við þau því helmingurinn af því sem ég segði væri ekki íslenska. Ég sagðist nú halda það! Að minnsta kosti jánkuðu þau alltaf og hlustuðu á mig... Lalli setti bara upp einhvern svip sem hægt var að túlka sem “Einmitt Eva!”.

Verst þykir mér þó þegar ég haga mér ekki alveg eftir tilætluðum en óskrifuðum siðareglum íslenskrar menningar... og til þess að réttlæta ýmislega ósæmilega eða óæskilega hegðun þá hef ég brugðið á það lúalega ráð að skrifa hana alfarið á hughrif mín og reynslu af annarri og ólíkri menningu. Um daginn skrifaði ég til dæmis um passlegt kæruleysi og óskipulag. En upp á síðkastið hefur borið á öllu verri og alvarlegri hegðunarvandamálum.

Fyrir nokkrum vikum fór ég semsagt í einstaklega huggulegt afmælisboð hjá góðri vinkonu minni. Þegar ég kem inn í stofu voru nánast allir veislugestir mættir (er að vinna í þessu með tímasetningarnar). Eðli málsins samkvæmt þekkti ég flest af þessu fólki sem eru vinir mínir eða kunningjar... eða svona þið vitið ég hef allavega séð myndir af þeim á facebook!

Eins og sjálfsagt þykir kyssi ég afmælisbarnið til lukku með daginn og smelli svo líka kossum á fyrsta fólkið sem ég mæti þegar ég kem inn sem voru stelpur sem ég þekki vel en hef ekki séð lengi. Nú, ég held síðan uppteknum hætti og kyssi einn eða tvo stráka sem hafði nú ekkert hitt oft (eða kannski aldrei) áður en vissi svosem alveg hverra manna þeir voru...

Akkúrat þarna, á þessum tímapunkti, skynja ég að yfir stofuna og veislugesti færast gífurleg vandræðalegheit. Þið vitið að mannfólkið er búið þeim kosti að geta upplifað tilfinningar annarra (kallast empathy) og þessvegna gráta til dæmis lítil börn ósjálfrátt ef þau heyra önnur börn gráta. Þannig leið mér í um það bil 10 sekúndur. Ég fann vandræðatilfinninguna hellast yfir mig og upplifði hvernig veislugestir voru farnir að hugsa: Jeminn ætli hún kyssi MIG næst!

Nú, þar sem ég er ekki ungabarn og get hrist af mér samhyggðina hægi ég aðeins á mér í kossaflensinu en segi síðan stundarhátt með smá afsökunartón í röddinni: “Ég kyssi bara alla fyrst ég er byrjuð....” (síðan hlæ ég smá til að reyna að gera gott úr þessu).

Þetta virtist sem betur fer virka þar sem andinn í stofunni varð aðeins léttari og fólki fannst það kannski geta undirbúið sig fyrir komandi koss á kinn(!). Síðan hélt ég uppteknum hætti og kyssti restina af veislugestum eldsnöggt á kinnina og reyndi að láta þetta ekki alveg eyðileggja veisluna.

Þeim sem virtust hvað mest brugðið yfir þessum atgangi héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá mér það sem eftir lifði að veislunni og seinna heyrði ég útundan mér að einhverjir voru greinilega ennþá að jafna sig þar sem fólk talaði saman inni í stofu “já hún kyssti víst bara ALLA þegar hún kom”.

Þessi veisla er því miður ekkert einsdæmi hvað varðar óviðeigandi snertingu, kossa eða innileika af minni hendi. Fyrir nokkru síðan hitti ég til dæmis fólk í IKEA sem ég hafði ekki hitt í mörg ár og kyssti þá strákinn (sem ég þekki ágætlega) á kinnina þegar ég heilsaði honum. Konan hans (sem ég þekki hins vegar ekki) varð auðvitað yfirmáta vandræðaleg og hann ennþá frekar. Ég áttaði mig ekki á þessum mistökum fyrr en kossinn var yfirstaðinn og skaðinn skeður.

Héðan í frá tek ég mig taki og hef í heiðri íslenska handabandið og hæfilega fjarlægð frá náunganum!

4 comments:

Valgý Arna said...

hahah já, það er ótrúlegt hvað kossar og knús eru viðkvæmir hér á Íslandi :)

Ég á eina kunningja vinkonu sem faðmar alla, hún hefur bara tileinkað sér að spyrja fólkið áður en faðmlagið kemur :) haha

Það er samt eins og þessi feimni með nálægðina og það gleymist þegar kona verður ófrísk :) þá æða allir á bumbuna og klappa henni og strjúka án þess að spyrja kóng né prest :) :)

Lalli og Eva said...

hahaha já er í þeim pakka núna - en ég elska það bara.. pirrar mig ekki ennþá allavega :-) En skil konur vel að þeim finnist þetta skrýtið - því þetta er nú ekki svæði heldur sem maður er vanur að fá klapp á nema kannski frá makanum sínum...

En ég fílaða ;)

Eyrún said...

Hahah! Þegar ég var í Guatemala neitaði ég alltaf að kyssa fólk nema alveg tilneydd, það þótti auðvitað frekar dónalegt en ég lét ekki segjast, meika ekki svona innilegaheit með ókunnugu fólki. Þú, hins vegar, hefur örugglega bara flutt til útlanda til að hafa afsökun fyrir að knúsa alla og kyssa það sem eftir er. Svo segir mér hugur.

Lalli og Eva said...

Haha já það gæti bara alveg verið að það hafi verið ein af ástæðunum Eyrún!! :**