Jæja gott fólk, þá er farið að styttast óðum í Bilbao-för og síga á seinni hlutann hérna hjá mér á Ítalíu. Veður og aðstæður hafa vanist ótrúlega vel og er það ekki síst að þakka frábæru fólki sem er hérna með mér í þessu prógrami. Ég hef aðallega eytt tíma með krökkum frá Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi en aðrir nemar og prófessorar sem taka þátt koma meðal annars frá Ítalíu, Grikkandi, Belgíu og Póllandi. Eins og ég sagði frá í síðustu færslu þá er þetta heljarinnar reynsla og frábært tækifæri fyrir mig. Búið að vera brjáluð vinna hins vegar og ég hef ekki farið einn einasta dag á ströndina takk fyrir. Ég héld ég verði að bæta úr því áður en yfir lýkur, sérstaklega þar sem stelpan í sjoppunn sagði við mig á mjög einlægri ensku en algjörlega út í bláinn: "you very cute, but REALLY white, maybe go to beach one hour".
Við Helena (stelpa frá Serbíu sem kemur frá sama skóla og ég) fórum út að borða á mánudaginn í tilefni þess að við höfðum lokið við að flytja fyrstu fyrirlestrana okkar á alvöru ráðstefnu. Fyrirlestrarnir gengu mjög vel og við fengum mörg góð og gagnleg komment á eftir frá bæði nemendum og prófessorum. Meira að segja Hr. Stavros, gríski prófessorinn minn óskaði mér til hamingju með góða og skemmtilega fyrirlestra. Það þykir nú harla gott hrós komandi frá alvarlegasta manni ráðstefnunnar.
Nú er mitt helsta takmark að finna þak yfir höfuð okkar Lárusar frá og með næsta föstudegi í Bilbao. Ég kem líklegast til með að bóka hótel í kvöld ef við finnum ekki gistingu einhverstaðar fyrir það....
Næst frá Bilbao :)
1 comment:
Gaman að heyra hvað það hefur gengið vel á ráðstefnunni! Frábær reynsla fyrir þig. =) Gangi þér vel að redda gistingu í Bilbao!!
Knús,
Magga rlbu
Post a Comment