Ég er á Ítalíu, Lalli í Kaupmannahöfn og við bráðum saman í Bilbao.
Fyrstu dagarnir hérna á Ítalíu hafa verið frekar strembnir. Aðallega sökum þess að hitastigið hefur ekki farið niður fyrir 35 gráður og loftkæling er ekki í boðinu. Ég verð án efa búin að svitna nokkrum kílóum af vökva þegar tíma mínum lýkur hérna og verð þar af leiðandi orðin tágrönn og spengileg þegar ég hitti Lalla á Spáni þann 28. ágúst.
Aðrir byrjunarörðugleikar fólu í sér ekkert netsamband, engan síma á hótelherbergjum og litla sem enga þjónustulund starfsfólks hér á svæðinu eða kannski frekar takmarkaða enskukunnáttu. Ítalskan mín fer óðum batnandi og ég verð orðin fullfær um að leysa hin ýmsustu vandamál á ítölsku áður en yfir líkur. Ég hef nú þegar ráðið fram úr herskáum maurum og rafmagnsleysi á tungumáli sem var nokkurs konar blanda af ensku, ítölsku og tákn með tali.
Að öðru leyti er þetta frábær reynsla sem á án efa eftir að nýtast mér í framtíðinni. Ég hef ekki flutt erindið mitt ennþá (24. ágúst...) en hef hins vegar hlustað á mjög margt spennandi fólk segja frá ótrúlega áhugaverðum rannsóknum, ritgerðum og hugmyndum. Meiri hluti fólksins hérna er í miðju doktorsnámi og það eitt og sér gefur mér tækifæri til að kynnast fólki sem er komið örlítið lengra en ég í námi og hefur sambönd um alla Evrópu. Semsagt ómetanlegt tækifæri og mjög góð reynsla!
Hér í Lignano líður mér eins og ég hafi ferðast aftur í tímann þar sem umhverfið allt er mjög í anda áttunda áratugarins. Meira að segja fólkið, fötin sem það klæðist og tónlistin sem er spiluð minnir ekki agnar ögn 21. öldina. Adríahafið er engu að síður tímalaus fegurð og ströndin er að mínu mati einum of freistandi fyrir hóp af fólki sem er sagt að sitja inni í kennslustofu frá klukkan 8 á morgnanna til klukkan 8 á kvöldin.... sem reddast nú alveg vegna þess eins og þetta er allt saman ákaflega spennandi og gefandi umræður ;)
Allavega.... ég sakna Lalla og hann sagði mér á Facebook í dag að hann saknaði þess að ég rétti honum ekki handklæði eftir hann væri búinn í sturtu.
Ást og kossar til ykkar allra sem lesið.