Saturday, August 29, 2009

Nýju heimkynnin...

verða skoðuðu næstu daga. Ég fékk hugskeyti frá Lárusi og rölti út á götu hérna í Bilbao um hálf ellefu leytið í gærkvöldi. Þar stóð hann nýkominn í borgina, drekkhlaðinn dóti og brosti til mín. Ótrúlegt.

Fórum út að borða um miðnætti í gærkvöldi og borðuðum grínlaust besta mat sem við höfum nokkurn tíman smakkað. Tékkuðum aðeins á stemmingunni og lögðum okkur síðan. Langþráð að kúra saman enda vakti hreingerningarkonan okkur um hádegibilið og sagði okkur að hunskast á lappir ;)

Erum farin út að spássera.

Friday, August 28, 2009

Baskaland - Bilbao - Bullandi gangur á þessu...

Ferðalagið heldur áfram og eftir að hafa hlaupið nokkuð rösklega á Madridarflugvelli í þeirri trú að ég væri að missa af tengifluginu mínu til Bilbao... sem ég gerði ekki þar sem það virðist vera lenska hér í sunnanverðri Evrópu að seinka flugum... þá er ég loks komin í miðborg Bilbao, stödd á pínulitlu spænsku gistiheimili þar sem ég rogaðist upp þrjár hæðir með alla yfirvigtina mína. Það skiptir hins vegar engu máli þar sem ég er ennþá að þakka guði fyrir ítölsku stelpuna í tékk inn-inu og þann veruleika að hún rukkaði mig ekki um neina yfirvigt og fyrir það skal ég sko alveg bera kílóin á milli hæða.

IP ráðstefnan var algjört success og ég er hrikaleg ánægð með að hafa tekið þátt í þessu. Hópurinn var gríðarlega góður og ég held barasta að ég eigi eftir að sakna þeirra þrátt fyrir stutt kynni. Lúxusinn við þetta allt saman er að ég gat leyft mér, þrátt fyrir afleita tímasetningu, að lifa í akademískri kúlu í tvær vikur þar sem ég vaknaði á morgnanna til að tala um lýðræði, fjölmenningu, borgaravitund og menntamál þangað til að sólin settist. Ástæðan fyrir því að ég gat leyft mér þetta lúxuslíf er sú að ég á frábærasta kærasta í heimi sem sat eftir heima með ekki minna verkefni á herðunum að klára meistararitgerðina sína og að undirbúa, pakka og flytja án kærustunnar sinnar sem var upptekin eins og fyrr sagði við að ímynda sér hvernig hið eiginlega lýðræði birtist í skólum og hvort að borgaravitund sé í raun og veru eitthvað sem við getum kennt.... Ekki mjög pródúktívt eða praktískt þegar það þarf að setja föt og dót ofan í kassa, plana flug, panta hótel, skoða íbúðir, senda e-mail... eða klára meistararitgerð!

Ég elska Lárus út fyrir ósonlagið það eitt er víst. Vonandi við verðum svo fljót að koma okkur vel fyrir hérna í Baskaborginni og þá ætti ég nú að geta komið einhverju gagnlegu í verk ;)

Wednesday, August 26, 2009

...

Jæja gott fólk, þá er farið að styttast óðum í Bilbao-för og síga á seinni hlutann hérna hjá mér á Ítalíu. Veður og aðstæður hafa vanist ótrúlega vel og er það ekki síst að þakka frábæru fólki sem er hérna með mér í þessu prógrami. Ég hef aðallega eytt tíma með krökkum frá Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi en aðrir nemar og prófessorar sem taka þátt koma meðal annars frá Ítalíu, Grikkandi, Belgíu og Póllandi. Eins og ég sagði frá í síðustu færslu þá er þetta heljarinnar reynsla og frábært tækifæri fyrir mig. Búið að vera brjáluð vinna hins vegar og ég hef ekki farið einn einasta dag á ströndina takk fyrir. Ég héld ég verði að bæta úr því áður en yfir lýkur, sérstaklega þar sem stelpan í sjoppunn sagði við mig á mjög einlægri ensku en algjörlega út í bláinn: "you very cute, but REALLY white, maybe go to beach one hour".

Við Helena (stelpa frá Serbíu sem kemur frá sama skóla og ég) fórum út að borða á mánudaginn í tilefni þess að við höfðum lokið við að flytja fyrstu fyrirlestrana okkar á alvöru ráðstefnu. Fyrirlestrarnir gengu mjög vel og við fengum mörg góð og gagnleg komment á eftir frá bæði nemendum og prófessorum. Meira að segja Hr. Stavros, gríski prófessorinn minn óskaði mér til hamingju með góða og skemmtilega fyrirlestra. Það þykir nú harla gott hrós komandi frá alvarlegasta manni ráðstefnunnar.

Nú er mitt helsta takmark að finna þak yfir höfuð okkar Lárusar frá og með næsta föstudegi í Bilbao. Ég kem líklegast til með að bóka hótel í kvöld ef við finnum ekki gistingu einhverstaðar fyrir það....

Næst frá Bilbao :)

Wednesday, August 19, 2009

Ítalía

Ég er á Ítalíu, Lalli í Kaupmannahöfn og við bráðum saman í Bilbao.

Fyrstu dagarnir hérna á Ítalíu hafa verið frekar strembnir. Aðallega sökum þess að hitastigið hefur ekki farið niður fyrir 35 gráður og loftkæling er ekki í boðinu. Ég verð án efa búin að svitna nokkrum kílóum af vökva þegar tíma mínum lýkur hérna og verð þar af leiðandi orðin tágrönn og spengileg þegar ég hitti Lalla á Spáni þann 28. ágúst.

Aðrir byrjunarörðugleikar fólu í sér ekkert netsamband, engan síma á hótelherbergjum og litla sem enga þjónustulund starfsfólks hér á svæðinu eða kannski frekar takmarkaða enskukunnáttu. Ítalskan mín fer óðum batnandi og ég verð orðin fullfær um að leysa hin ýmsustu vandamál á ítölsku áður en yfir líkur. Ég hef nú þegar ráðið fram úr herskáum maurum og rafmagnsleysi á tungumáli sem var nokkurs konar blanda af ensku, ítölsku og tákn með tali.

Að öðru leyti er þetta frábær reynsla sem á án efa eftir að nýtast mér í framtíðinni. Ég hef ekki flutt erindið mitt ennþá (24. ágúst...) en hef hins vegar hlustað á mjög margt spennandi fólk segja frá ótrúlega áhugaverðum rannsóknum, ritgerðum og hugmyndum. Meiri hluti fólksins hérna er í miðju doktorsnámi og það eitt og sér gefur mér tækifæri til að kynnast fólki sem er komið örlítið lengra en ég í námi og hefur sambönd um alla Evrópu. Semsagt ómetanlegt tækifæri og mjög góð reynsla!

Hér í Lignano líður mér eins og ég hafi ferðast aftur í tímann þar sem umhverfið allt er mjög í anda áttunda áratugarins. Meira að segja fólkið, fötin sem það klæðist og tónlistin sem er spiluð minnir ekki agnar ögn 21. öldina. Adríahafið er engu að síður tímalaus fegurð og ströndin er að mínu mati einum of freistandi fyrir hóp af fólki sem er sagt að sitja inni í kennslustofu frá klukkan 8 á morgnanna til klukkan 8 á kvöldin.... sem reddast nú alveg vegna þess eins og þetta er allt saman ákaflega spennandi og gefandi umræður ;)

Allavega.... ég sakna Lalla og hann sagði mér á Facebook í dag að hann saknaði þess að ég rétti honum ekki handklæði eftir hann væri búinn í sturtu.

Ást og kossar til ykkar allra sem lesið.

Thursday, August 13, 2009

meira en þúsund orð...

Að keyra Öxi


Amma var steinhissa að sjá ömmustelpuna sína á Vopnafirði af öllum stöðum... :)


Að keyra inn á Vopnó


Lalli og Snúlla
Í Smáratúni. Ætluðum að heimsækja Dísu og Ívar fyrst við áttum leið um Fljótshlíðina en þau voru farin á þjóðhátíð..



Litla fjölskyldan + guðfaðirinn :)


Á Íslandi er allt sól og sumar...


...nema stundum



Meira á Facebook...

...

Mynd: Hildur María Valgarðsdóttir
Þessi dúlla kom með okkur til Íslands og var þvílík hetja í flugvélinni á leiðinni út. Við áttum yndislegar stundir á Íslandi, fengum æðislegt veður og hittum enn æðislegra fólk. Takk fyrir okkur allir!!
Heimshornaflakk Tralla og Trítlu heldur áfram og ég á flut til Feneyja á sunnudaginn. Held þaðan til Udine og verð að vinna í tvær vikur. Á meðan stefnir allt í að Lárus klári MA prófið sitt og verði orðinn meistari í alþjóðasamskiptum fyrr en varir... Þann 28. ágúst eigum við síðan flug frá sitt hvoru landinu en áfangastaðurinn er sá sami: Bilbao!

Wednesday, August 05, 2009

...

Gleði og hamingja umlykja okkur þessa dagana!