Langaði bara að minna á þetta stórskemmtilega og fjölbreytta nám sem ég er bæði að nema og vinna við þessa stundina. Við erum í smá markaðsherför þessar vikurnar og vorum að láta gera nýjan upplýsingabækling sem má nálgast með því að smella hérna: MA LLL BÆKLINGUR
Eins og flestir gera sér grein fyrir eru menntakerfi misjöfn eins og þau eru mörg þrátt fyrir alþjóðlegar menntustefnur og áhrif frá alþjóðlegum stofnunum líkt og Evrópusambandinu, OECD og UNESCO. Í anda Dewey og "learning by doing" hugsjóna hans, er okkur ætlað að nema við fleiri en eitt menntakerfi innan Evrópu og hefst því annað árið mitt nú í haust í Bilbao á Spáni.
Námið spannar nánast öll svið sem tengjast á einn eða annan hátt menntun og námi í afar víðum skilningi. Þá á ég við formlegt jafnt sem óformlegt nám, grunnnám, skyldunám, háskólanám, nám með vinnu, námskeið, fullorðinsfræðsla og svo framvegis. Ég hef á þessu eina ári vissulega lært og aflað mér þekkingar á öllum þessum sviðum í samhengi við menntakerfi og menntastefnur innan sem utan Evrópu. Hins vegar hef ég líka haft tækifæri til að þróa með mér mitt eigið sérsvið sem fellur undir borgaravitund og lýðræði menntunar. Ég hef getað nálgast prófesora og aðra fræðimenn sem starfa og skrifa innan þessa sviðs auðveldlega og hef fengið mikinn stuðning og hvatningu í þeim verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur.
Nú í ágúst fer ég, ásamt einum MA nema og einum doktorsnema, sem fulltrúi Danish School of Education til Ítalíu og verð með erindi á ráðstefnu. Ráðstefnan í heild sinni fellur undir hatt "comparative education" eða samanburðar menntunarfræði og þemað að þessu sinni er tengt áhrifum alþjóðavæðingar á menntakerfi og menntastefnur, lýðræði í menntun og fjölmenningu. Erindi mitt verður samanburður á borgaravitundarkennslu annars vegar í Danmörku og hins vegar á Íslandi. Ég mun skoða og fara yfir hvernig alþjóðavæðing og breytingar á alheimsvísu svo sem yfirburðir frjáls hagkerfis og aukin fjölmenning hafa haft áhrif á lýðræði og borgaravitund í báðum löndum.
Áhugavert er að skoða hvernig Íslandi og Danmörk hefur tekist upp með borgaravitundar kennslu og lýðræði í menntamálum þar sem bæði löndin byggja menntakerfi sitt (með lögum og yfirlýstum markmiðum) á lýðræðislegum gildum og viðmiðum, þar sem félagslegt og menningarlegt jafnrétti er ein af undirstoðum almennrar grunnmenntunar. Ef vel gengur og ég fæ nógan tíma til að skrifa í sumar getur verið að ég reyni að koma niðurstöðum mínum og hugleiðingum á íslenskt form og í birtingu heima.
Ef þið vitið um einhver sem hefur á huga á menntun, námi, einstaklingi, samfélagi og öllu þessu samspili... þá er MA LLL án efa áhugaverður kostur til náms. Fyrir utan það að í ár er námið frítt fyrir Evrópska stúdenta. Meira fyrir áhugasama hér á þessari síðu www.lifelonglearningmasters.org
1 comment:
ógó spennandi nám! Vonandi gengur vel med ritgerdirnar, thú rúllar thessu upp! Hlakka til ad hitta tig a sunnudaginn!
Knús,
Magga
Post a Comment